Í nýafstaðinni lotu við Sálfræðideild HA sýndu nemendur í Almennri sálfræði afrakstur verkefnisins Viðtal við sálfræðing. Nemendur tóku viðtöl við fólk sem hefur menntað sig á einhverju sviði sálfræðinnar, tóku það upp á myndband og kynntu svo afraksturinn fyrir samnemendum í lotunni.
Tilgangur verkefnisins var að kynna fyrir nemendum þau fjölbreyttu störf og önnur verkefni sem standa sálfræðimenntuðu fólki til boða eftir brautskráningu. Það er óhætt að segja að verkefnið hafi vakið lukku. Viðtölin voru fjölbreytt, skemmtilegt og nemendur fengu innsýn inn í ný störf sem þau höfðu ekki gert sér hugarlund um að geta starfað við að námi loknu.
„Verkefnið var mjög skemmtileg áskorun. Það var áhugavert að læra um hvernig vinnudagar hjá sálfræðingum í mismunandi störfum fer fram og almennt um hvernig sálfræðingar starfa. Mér fannst þetta virkilega hvetjandi fyrir okkur sem erum að byrja í námi og mikill innblástur. Félagsskapurinn stóð samt mest upp úr og það var lang skemmtilegast við lotuna að kynnast nýju fólki sem er að læra það sama og þú,“ segir Herborg Rut Geirsdóttir, fyrsta árs nemandi við sálfræði við Háskólann á Akureyri.