Veganestið er greinaflokkur í boði Góðvina HA þar sem rætt er við brautskráða HA-inga
Valdimar Víðisson, bæjarstjóri Hafnarfjarðar, er fyrsti viðmælandinn.
Bjó í Bolungarvík til 16 ára aldurs
„Ég fæddist á Ísafirði árið 1978 og bjó í Bolungarvík til 16 ára aldurs, en þá flutti ég ásamt foreldrum og systkinum til Ólafsfjarðar. Ég hóf nám í framhaldsdeild á Ólafsfirði 1994 og fór svo í Menntaskólann á Akureyri 1995 og útskrifaðist þaðan 1998. Þá tók ég árs frí frá námi og skráði mig svo í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands árið. Það nám átti ekki við mig svo ég flutti aftur norður og hóf nám við Kennaradeild Háskólans á Akureyri og brautskráðist þaðan árið 2004.“ Þetta segir Valdimar aðspurður um bakgrunn og reynslu og bætir við: „Ég varð svo skólastjóri á Grenivík haustið eftir brautskráningu úr HA. Árið 2008 flutti ég í Hafnarfjörð og bý þar núna. Ég starfaði sem skólastjórnandi í Öldutúnsskóla til 31. desember 2024 en þann 1. janúar 2025 tók ég við starfi bæjarstjóra í Hafnarfirði.“
Hann segir frekar frá: „Það er dásamlegt að vera á Grenivík og ekki síðra að búa í Hafnarfirði, yndislegir staðir báðir tveir.“
Af hverju kennaranám við HA?
„Ég valdi kennaranámið við HA af því ég hafði bara heyrt gott af þeirri námsleið, persónulegt umhverfi og vel uppbyggt. Ég hef einnig stundað framhaldsnám við Háskólann á Akureyri á þessum árum sem liðin eru frá brautskráningu,“ segir Valdimar og bætir við: „Skólinn hafði mjög góð áhrif á mig, þetta er virkilega öflugur skóli og svo persónulegur. Það voru stuttar boðleiðir og einfalt að ná góðu sambandi við kennara sem gerðu allt hvað þeir gátu til að aðstoða. Faglega var námið virkilega góður grunnur að næstu skrefum í starfi og námi.“
„Ég minnist þess helst frá HA hvað allt var persónulegt og gott, allt var einfalt og ekkert verið að flækja þetta um of. Það voru mikil og góð tengsl við þá sem voru með mér í náminu og við erum mörg hver góðir vinir enn þann dag í dag. Minnisstæðust eru líka skemmtikvöldin og að vera með vinum og kunningjum í náminu. Félagslífið í kennaradeildinni er mjög líflegt og alltaf eitthvað um að vera. Ég hugsa með mikilli hlýju og þakklæti til áranna fyrir norðan.“
Valdimar segir alla kennarana hafa verið framúrskarandi: „Þeir voru virkilega hlýlegir og faglegir. Ég verð samt að nefna hana Maríu Steingrímsdóttur, ég lærði svo mikið af henni. Hún er mikil fyrirmynd og hef ég reynt að tileinka mér það sem hún kenndi hvað varðar nálgun í námi og fleira. Þegar ég hugsa til HA þá detta mér í hug orðin persónulegur, þægilegur og faglegur.“
„Njóttu þessa tíma“
Við spurðum Valdimar hvort hann ætti eitthvað heilræði til þeirra sem eru að íhuga háskólanám í kennarafræði og það stóð ekki á svörum: „Njóttu þessa tíma og vertu ófeiminn við að spyrja!“
Við þökkum Valdimari fyrir spjallið og óskum honum velfarnaðar í hans störfum.