Verklagsreglur Vísindasjóðs HA

SAMÞYKKTAR Í HÁSKÓLARÁÐI 22.06.2023
 
Vefútgáfa síðast uppfærð 17.12.2025
Prentgerð (pdf)
Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan
og í PDF skjali gildir PDF skjalið

Almennar verklagsreglur

  1. Starfsmaður sjóðsins boðar fundi stjórnar Vísindasjóðs í samvinnu við formann stjórnar.
  2. Forfallist aðalmaður skal hann ávallt boða varamann í samráði við starfsmann sjóðsins.

Rannsóknasjóður – verklagsreglur

Lögð er áhersla á að sjóðurinn styrki rannsóknir, söfnun og vinnslu gagna eða úrvinnslu hugmynda.

Doktorsnemar. Gert er ráð fyrir að aðalleiðbeinandi doktorsnema sé aðalumsækjandi og doktorsnemi meðumsækjandi. Mikilvægt er að það sé skýrt í umsókninni hvernig nýta eigi styrkinn í þágu framfærslu og rannsóknarkostnaðar doktorsnemans. Doktorsnemi sem fær sem nemur 100% stöðu sem styrk úr öðrum sjóði getur ekki fengið styrk úr Rannsóknasjóði á sama tíma.

Tækjakaup, ferðir og útgáfa eru almennt ekki styrkt af Rannsóknasjóði. Gert er ráð fyrir að tæki, ferðir og útgáfa séu styrkt af öðrum sjóðum,1 enda lúta þessir þættir annars konar mati en notað er við mat umsókna í Rannsóknasjóð HA. Undanþegnar eru þó ferðir vegna gagnaöflunar enda sé ekki hægt að afla gagna á annan hátt, sem og hugbúnaður, enda sé hann ekki aðgengilegur umsækjanda innan HA eða viðkomandi rannsóknahóps.

Starfsmaður sjóðsins auglýsir umsóknarfrest með að lágmarki eins mánaðar fyrirvara. Starfsmaður tekur við öllum umsóknum og skilar til stjórnar sjóðsins. Hann heldur utan um umsýslu sjóðsins í umboði stjórnar, vinnur náið með Fjármálum og greiningu og sér um skjölun gagna.

Umsækjendur skulu vanda til umsókna og æskilegt er að rannsóknastjóri lesi þær yfir áður en þeim er skilað inn. Umsækjendur bera sjálfir ábyrgð á að öll fylgiskjöl fylgi umsókn. Umsókn og fylgiskjölum skal skila á pdf formi. Formaður stjórnar stýrir skiptingu umsókna á milli stjórnarmanna í samráði við stjórn. Formaður les allar umsóknir. Formaður getur fengið þriðja aðila til að lesa umsókn telji hann slíkt nauðsynlegt. Við mat á umsóknum skulu eftirfarandi þættir hafðir að leiðarljósi:

  • Vísindalegt gildi
  • Rannsóknaráætlun, aðferðir, tíma- og fjárhagsáætlun
  • Rannsóknavirkni umsækjenda
  • Rannsóknahagsmunir Háskólans á Akureyri
  • Aðeins ein umsókn er tekin til greina frá hverjum aðalumsækjanda

Stjórn rannsóknasjóðs flokkar umsóknir í eftirfarandi fjóra flokka:

  1. Framúrskarandi umsókn
  2. Sterk umsókn, léttvægir veikleikar
  3. Umsókn með einn eða fleiri takmarkandi veikleika
  4. Veik umsókn með meiri háttar veikleika eða á ekki heima í þessum sjóði

Reglur um vanhæfi stjórnar og starfsmanns stjórnar. Sæki stjórnarmaður um styrk skal hann víkja af fundi við umfjöllun um umsóknina og ákvörðun um styrkveitingu. Á sama hátt víkur starfsmaður sjóðsins úr umsýslu ef hann á sjálfur aðild að umsókn. Að öðru leyti gilda vanhæfisreglur stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sbr. II. kafla laganna.

Reglur um vanhæfi umsækjenda. Vanhæfisreglur sjórnsýslulaga nr. 37/1993 gilda um umsækjendur. Þær gilda jafnframt um aðstoðarfólk sem ráðið er til að sinna verkefnum sem fá úthlutun úr Rannsóknasjóði HA. Aðstoðarfólk er vanhæft ef það er eða hefur verið maki aðila, eða er skylt eða mægt aðila í beinan legg eða að öðrum lið til hliðar eða tengdur aðila með sama hætti vegna ættleiðingar, sbr. 2. tölul., 1. mgr., 3. gr. stjórnsýslulaga.

Verkefnastjóri bókhalds og rannsóknaverkefna greiðir út styrki samkvæmt innsendum reikningum að höfðu samráði við starfsmann Rannsóknasjóðs. Heimilt er að hafna greiðslu reikninga enda samræmist þeir ekki kostnaðaráætlun verkefnisins. Komi upp vafamál skal þeim vísað til stjórnar sjóðsins.
Samkvæmt lögum nr. 3/2003 um opinberan stuðning við vísindarannsóknir skal birta niðurstöður rannsókna, sem kostaðar eru með styrkjum úr sjóðum er falla undir lögin, í opnum aðgangi og vera öllum tiltækar nema um annað sé samið, sbr. 10. gr. laganna.

1 Ferðasjóður, Útgáfusjóður, Rannsóknar- og kostnaðarreikningar (samkomulag FHA og HA).

 

Samþykkt á fundi háskólaráðs 22. júní 2023.