Meðferð vegna langvarandi verkja á endurhæfingardeildum á Íslandi: Könnun og lýsing á skammtíma- og langtímaáhrifum

Um verkefnið

Meginmarkmið þessarar rannsóknar var að kanna og lýsa skammtíma- og langtímaáhrifum meðferðar vegna langvarandi verkja á þremur endurhæfingastofnunum á alvarleika verkja og truflandi áhrifum verkja og að auki á langtímaáhrifum á sjálfsmeðhöndlun verkja, gæði svefns, almenna líðan, heilsu og heilsutengd lífsgæði.

Fólki með langvarandi verki sem var á biðlista eftir meðferð á þremur endurhæfingastofnunum á Íslandi var boðin þátttaka í viðtalsrannsókn þar sem tekin voru viðtöl fyrir meðferð og aftur þremur mánuðum eftir að meðferð lauk. Einnig að svara spurningalistum fyrir og eftir meðferð. Meðferðin stóð yfir í 4-7 vikur.

Meirihluti þátttakenda voru konur (84%) á miðjum aldri (meðalaldur 47 ár), án vinnu (62%), giftar eða í sambúð (77%). Helstu niðurstöður úr viðtalsrannsókninni voru þær að áður en þátttakendurnir fóru í meðferðina leið þeim eins og þeir væru að reyna að lifa af hvern dag; þeir voru fastir í vítahring langvarandi verkja og á sama tíma að reyna að draga úr og fela verkina fyrir öðrum. Að leita sér aðstoðar fagfólks var jákvæður vendipunktur. Á meðan þeir voru í meðferðinni byrjuðu þeir að brjóta upp eldri aðferðir sínar við að takast á við verkina og finna nýjar leiðir sem hentuðu þeim betur. Þremur mánuðum eftir að þeir höfðu lokið formlegri meðferð voru þeir enn að móta leiðir sem þeim fannst virka best í daglegu lífi. Verkirnir voru enn til staðar en trufluðu daglegar athafnir minna en áður. Helstu niðurstöður úr spurningalistakönnuninni voru þær að flestir voru með verki í mjóbaki og hafði meirihluti þátttakenda verki á fleiri en einum stað á líkamanum (94%). Dregið hafði úr alvarleika verkja að jafnaði að mati þátttakenda við lok meðferðar og ári eftir að meðferð lauk og einnig truflandi áhrifum verkja á daglegar athafnir, skap, getu til gangs, svefn og lífsánægju. Ári eftir að meðferð lauk mátu þátttakendur heilsu sína góða eða mjög góða (21%) sem var betra en áður en þeir fóru í meðferðina (7%). Ári eftir að meðferð lauk mátu 47% þátttakenda heilsu sína mikið betri eða eitthvað betri en fyrir ári síðan. Þrjár algengustu aðferðir sem þátttakendur notuðu til að meðhöndla verki fyrir meðferð voru jákvæð hugsun (68%), lyf (58%) og dreifa huganum (58%). Sálræn vanlíðan og verkir trufluðu svefn bæði fyrir og eftir meðferð en eina marktæka breytingin á svefngæðum var að fleiri þátttakendur (18%) gátu sofið samfellt alla nóttina, en þeir voru einungis 6% fyrir meðferð. Heilsutengd lífsgæði (HRQOL) höfðu aukist ári eftir að meðferð lauk nema í geðrænum lífsgæðum.

Lykilorð: Langvarandi verkir, svefngæði, heilsutengd lífsgæði, endurhæfing

Styrktaraðilar: Rannsóknasjóður Háskólans á Akureyri, Háskólasjóður KEA, Menningar-og viðurkenningasjóður KEA, Rannsóknasjóður Ingibjargar R. Magnúsdóttur og Minningasjóður Kristínar Thoroddsen

Meðlimir

  • Dr. Hafdís Skúladóttir, dósent við Heilbrigðisvísindasvið/Hjúkrunarfræðideild Háskólans á Akureyri
  • Dr. Herdís Sveinsdóttir, prófessor við Heilbrigðisvísindasvið/Hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands
  • Dr. Sigríður Halldórsdóttir, prófessor við Heilbrigðisvísindasvið/Framhaldsnámsdeild í heilbrigðisvísindum við Háskólann á Akureyri
  • Dr. Amalía Björnsdóttir, prófessor við Menntavísindasvið Háskóla Íslands
  • Dr. Þóra Jenný Gunnarsdóttir, dósent við Heilbrigðisvísindasvið/Hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands
  • Dr. Janean Erickson Holden, professor emerita University of Michigan, Ann Arbor

Samstarfsaðilar

  • Rannsóknastofnun Háskólans á Akureyri (RHA)
  • Þóra Hjartardóttir hjúkrunarfræðingur, Endurhæfingardeildin á Reykjalundi, 270 Mosfellsbær
  • Ingvar Þóroddsson, yfirlæknir, Endurhæfingardeildin á Kristnesi Eyjafjarðarsveit, 601 Akureyri
  • Aðalbjörg S. Helgadóttir, hjúkrunarfræðingur, NLFÍ Hveragerði, Grænumörk 10, 810 Hveragerði

Birtingar