ILLUQ

Um verkefnið

ILLUQ er þverfaglegt rannsóknarverkefni sem felur í sér víðtækar vettvangsmiðaðar rannnsóknir á loftslagsbreytingum, sífreraþiðnun, mengun og heilsu, og og aðlögun í strandbyggðum á norðurslóðum. Vettvangsrannsóknir fara fram í Diskóflóa, Vestur-Grænlandi, á Svalbarða og á Mackenzie River Delta svæðinu í Kanada.

Rannsóknin grundvallast á virkri þátttöku nærsamfélagsins og samráði við hagaðila og rétthafa og felur í sér náið þverfaglegt samstarf vísindamanna frá mörgum alþjóðlegum samstarfstofnunum. Dr. Joan Nymand Larsen, vísindamaður og sviðsstjóri hjá Stofnun Vilhjálms Stefánssonar og prófessor í hagfræði við Félagsvísindadeild Háskólans á Akureyri, leiðir vinnuna hjá Stofnun Vilhjálms Stefánssonar.

Sífreri þekur um 22% af landsvæði norðurhvels og bráðnar nú á ógnarhraða sem er bein afleiðing loftslagbreytinga. Þegar sífrerinn þiðnar losnar mikið magn lífrænna efna og mengunarefna út í umhverfið. Mengunarefnin sem bundin hafa verið í freðnum jarðvegi eru hættuleg heilsu bæði dýra og manna. Þar að auki hefur bráðnun sífrera veruleg áhrif á innviði í byggðarlögum með víðtækum afleiðingum fyrir heilsu, efnahag og samfélag.

Hefðbundnar rannsóknir á félagslegum, efnislegum og heilsufarslegum afleiðingum sífreraþiðnunar hafa yfirleitt beinst að einangruðum þáttum útaf fyrir sig sem leitt hefur til ófullnægjandi stefnumótunarvalkosta sem taka ekki mið af heildstæðu eðli ógnarinnar. ILLUQ verkefnið tekst á við þá áhættu sem stafar af losun mengunarefna, hnignun innviða og breytingu á vistkerfum með heildrænum hætti og beinir sjónum sínum að hlekknum sem vantar í keðjuna á milli þeirra rannsókna sem framkvæmdar eru af vísindamönnum, verkfræðingum og ráðgjöfum í nærsamfélögum og lausna heimafólks, hagaðila og rétthafa.

Verkefnið leggur áherslu á langtímaáhrif ákvörðunartöku og felur í sér vinnu sem stuðlar að gerð verklags- og aðgerðaáætlana svo taka megi upplýstar ákvarðanir og finna árangursríkar leiðir fyrir samfélög að takast á við áhrif sífreraþiðnunar.

16 samstarfsstofnanir frá 10 löndum hafa aðild að verkefninu. Rannsóknarteymið er leitt af Alfred Wegener Institute for Polar and Marine Research í Þýskalandi (Prof. Hugues Lantuit).

ILLUQ rannsóknarverkefnið er styrkt af HORIZON Research and Innovation Action sjóði Evrópusambandsins.

Rannsakendur

Nánari upplýsingar

Fyrir frekari upplýsingar, prófessor Joan Nymand Larsen, jnl@unak.is