Skólaþjónusta sveitarfélaga við leik- og grunnskóla: Stefna, umgjörð, fjármögnun og starfshættir

Um rannsóknina

Markmið rannsóknarinnar er að öðlast heildstæða mynd af umgjörð og starfsháttum skólaþjónustu sveitarfélaga og hvernig þau standa að því að tryggja skólum sínum þann aðgang að skólaþjónustu sem þeim ber samkvæmt lögum. Rýnt verður sérstaklega í ólíkar aðstæður eftir landshlutum hvað varðar aðgengi að þjónustu og hvort það hafi mögulega áhrif á jafnræði barna til náms.

Nánar tiltekið eru markmiðin eftirfarandi:

  1. Kanna stefnu og forystu fræðsluyfirvalda sveitarfélaga um skólaþjónustu, hvernig hún tekur mið af hlutverki þjónustunnar eins og það er skilgreint í lögum og reglugerðum og hvernig hún birtist í umgjörð og starfsháttum skólaskrifstofa.
  2. Kanna starfslýsingar og hlutverk starfsmanna skólaskrifstofa og að hve miklu leyti þjónusta er veitt af föstum starfsmönnum skólaskrifstofa, sem og áherslu skólaskrifstofa á faglegan stuðning við kennara og skóla annars vegar og klínískar greiningar á börnum og meðferð þeirra og sér-úrræði utan skólans hins vegar.
  3. Kanna samspil skólaþjónustu við félagsþjónustu sveitarfélaga og stofnanir innan heilbrigðis-kerfisins sem annast greiningar á nemendum.
  4. Skilgreina og finna dæmi um starfshætti skólaþjónustu sem telja má líklega til að stuðla að virkum stuðningi hennar við starfsþróun kennara, eflingu lærdómssamfélaga í skólum og framgangi skólastefnu.

Gagnasöfnun fór fram árið 2019 en gögnum var safnað með spurningakönnun til skólastjóra leik- og grunnskóla og þeirra sem eru í forsvari fyrir skólaþjónustu (yfirmanna skólaskrifstofa og sveitarstjóra) í 72 sveitarfélögum á Íslandi. Auk spurningakönnunarinnar voru helstu stefnuskjöl um skólaþjónustuna sem birt eru á vef sveitarfélaga greind og viðtöl tekin við forsvarsaðila skólaþjónustunnar í fimm völdum tilvikum.  Í mars 2020 hefur öllum gögnum verið safnað og höfundar vinna að birtingu niðurstaðna.

Verkefninu er ætlað að gefa heildarmynd af umgjörð og starfsháttum skólaþjónustu sveitarfélaga en slík rannsókn hefur ekki áður verið gerð á Íslandi. Niðurstöðurnar munu nýtast sveitarfélögum til að styrkja skólaþjónustu sína með það fyrir augum að efla skóla sem faglegar stofnanir og beina athygli að menntun fyrir alla og jafnræði til náms á landsvísu.

Rannsóknin er styrkt af Rannsóknarsjóði Háskólans á Akureyri og mennta- og menningarmálaráðuneytinu.

Rannsakendur:

Dr. Birna María Svanbjörnsdóttir, lektor við kennaradeild HA
Dr. Hermína Gunnþórsdóttir, prófessor við kennaradeild HA
Dr. Jórunn Elídóttir, dósent við kennaradeild HA
Dr. Rúnar Sigþórsson, prófessor við kennaradeild HA
Sigríður Margrét Sigurðardóttir, doktorsnemi við HÍ og lektor við kennaradeild HA
Trausti Þorsteinsson, fyrrverandi dósent við kennaradeild HA

Birtingar 

Skýrslur: