Deildu íslenskri þekkingu á raunfærnimati á Balkanskaga

Hópur frá háskólanum ferðaðist til Albaníu í nóvember til að deila þekkingu á raunfærnimati
Deildu íslenskri þekkingu á raunfærnimati á Balkanskaga

Dagana 19.–22. nóvember fór hópur frá Háskólanum á Akureyri til Albaníu til að funda með samstarfsaðilum víðs vegar af Balkanskaga og skiptast á reynslu um raunfærnimat. Heimsóknin var hluti af sameiginlegu Erasmus verkefni sem miðar að því að þróa verkferla vegna mats á óformlegu og formlausu námi. Þannig er unnið að því að gera nemendum kleift að fá færni og reynslu sem þeir búa þegar yfir metna til styttingar náms.

Á meðan á heimsókninni stóð kynnti teymið innsýn og lærdóm úr fyrri og núverandi verkefnum við Háskólann á Akureyri sem sum eru unnin í samvinnu við aðra háskóla á Íslandi. Í umræðunum var lögð áhersla á hagnýta nálgun við innleiðingu raunfærnimats á háskólastigi og að auka aðgengi fjölbreyttra hópa að námi.

Teymið, sem skipað var Önnu Karen Úlfarsdóttur, Heiðu Kristínu Jónsdóttur, Markusi Meckl og Stéphanie Barillé, var vel tekið í Tirana af samstarfsfólki verkefnisins við University College Logos. Einnig tóku þau þátt í gagnlegum samræðum með fulltrúum frá Albaníu, Kosovo, Bosníu og Hersegóvínu, Grikklandi og Eistlandi.

Þetta þriggja ára verkefni hefur það að markmiði að efla alþjóðlegt samstarf og nýsköpun í menntun með því að stuðla að mati á mismunandi grunni til styttingar náms á háskólastigi og sanngjörnum og heildstæðum matskerfum innan Balkanlandanna.