Varði doktorsritgerð sína við Heilbrigðis- og félagsvísindadeild við háskólann Western Norway University of Applied Sciences í Bergen í Noregi
Þann 28. nóvember síðastliðinn varði Olga Ásrún Stefánsdóttir, aðjúnkt við Iðjuþjálfunarfræðideild Háskólans á Akureyri, doktorsritgerð sína: Navigating Treacherous Waters. Caregiving spouses' navigations through transitions in their partners' development of severe cognitive decline. A critical gerontology and family systems theory perspective við Heilbrigðis- og félagsvísindadeild háskólans Western Norway University of Applied Sciences í Bergen í Noregi.
Leiðbeinendur hennar voru Tobba SudmannogMai Camilla Munkejord, prófessorar við Heilbrigðis- og félagsvísindadeild Western Norway University of Applied Sciences. Að auki voru í doktorsnefndMerrie J. Kaas, prófessor emerita frá háskólanum í Minnesota og Eydís K. Sveinbjarnardóttir, prófessor frá Háskóla Íslands. Andmælendur voru Ruth Bartlett, prófessor frá Háskólanum í Southampton í Bretlandi og Sigurveig H. Sigurðardóttir frá Háskóla Íslands. Doktorsnámið var fjármagnað af háskólanum Western Norway University of Applied Sciences og Háskólanum á Akureyri.
Um rannsóknina
Rannsóknin byggir á norskum og íslenskum eigindlegum gögnum og fjallar um þegar annar makinn í hjónabandi eldra fólks þurfa að flytja að heiman á hjúkrunarheimili vegna alvarlegrar vitrænnar skerðingar. Rannsóknin er unnin út frá sjónarhóli þess maka sem áfram býr heima og sýnir fram á hvernig daglegt líf þeirra raskast verulega hvað varðar sjálfsmynd, dagleg verkefni, athafnir sem og almenna vellíðan.
Meðal annars var kannað hvaða áhrif vitræn skerðing maka hefur á hjónabandið, fjölskyldulíf, umönnunarverkefni og ábyrgð, sem og samskipti við formlega umönnunarþjónustu. Makar sem eiga fleira en eitt hjónaband að baki og tilheyra samsettum fjölskyldum standa frammi fyrir frekari áskorunum varðandi samvinnu, samskipti og ákvarðanatöku bæði við formlega og óformlega umönnunaraðila.
Með rannsókninni er lögð áhersla á hvernig þverfagleg þekking og samstarf getur bætt heilbrigðisþjónustu fyrir eldri hjón og fjölskyldur þeirra þegar annar aðilinn fær alvarlega vitræna skerðingu. Einnig er sýnt fram á nýja þekkingu varðandi umönnun fólks með vitræna skerðingu í samsettum fjölskyldum og hvernig það getur haft áhrif á umskipti frá heimili til hjúkrunarheimilis.
Ritgerðin varpar ljósi á skort varðandi stefnumótun á þessu sviði og færð eru rök fyrir paramiðaðri þjónustu og betri samþættingu milli formlegrar þjónustu og fjölskylduumönnunar. Frá sjónarhóli umönnunarmaka er þörf á að heilbrigðis- og félagsþjónustustarfsmenn viðurkenni viðleitni þeirra og skoðanir og innleiði þjónustuáætlanir sem byggja á hjónabands- og fjölskyldutengslum.
HÁSKÓLINN Á AKUREYRI ÓSKAR DR. OLGU ÁSRÚNU HJARTANLEGA TIL HAMINGJU MEÐ DOKTORSGRÁÐUNA.