„Ég elska landsbyggðina og Akureyri er svo sannarlega frábær háskólabær!“

Sigurður Eyjólfur, stúdent í sálfræði, gefur út sína fyrstu bók
„Ég elska landsbyggðina og Akureyri er svo sannarlega frábær háskólabær!“

Sigurður Eyjólfur er stúdent við Sálfræðideild Háskólans á Akureyri og gaf út sína fyrstu bók á árinu sem ber heitið „Ég er ekki fullkominn“. Bókin fjallar um hamlandi kvíða sem Sigurður hefur tekist á við í gegnum árin.
Hann kynnti bókina í Pennanum Eymundssyni á Akureyri síðasta fimmtudag, þar sem viðtökur voru afar hlýjar.

Uppgjörstími sem varð að bókahugmynd

Hugmyndin að bókinni kviknaði þegar Sigurður var á miklum uppgjörstíma í lífi sínu, þegar hann kláraði stúdentsprófið í desember árið 2022.
„Það var risastór áfangi í mínu lífi að ljúka stúdentsprófinu eftir allt það sem á undan var gengið,“ segir Sigurður. Þremur vikum eftir að hann hóf nám í menntaskóla hætti hann vegna hamlandi kvíða og sökk djúpt. Þetta var árið 2016 og þá hafði kvíðinn lengi valdið honum miklum vandræðum.
„Ég upplifði mig oft dálítið einan, þá meina ég þannig að mér fannst enginn vera að glíma við neitt svipað og ég.“ Sigurður vonast til þess að saga hans geti verið fyrirmynd fyrir önnur sem glíma við sambærilegar áskoranir.

Ótrúlegustu ævintýrin bíða rétt handan við hornið – og árangurinn talar sínu máli

„Lykilþátturinn í minni sögu er að þrátt fyrir að lífið sé stundum bara alveg ótrúlega þungt og erfitt þá er hægt að vinna sig upp úr erfiðleikum. “ Þetta er reynsla Sigurðar og segir hann að saga hans sýni að það séu oft ótrúlegustu ævintýrin sem bíða rétt handan við hornið.
Á síðasta ári hefur hann náð markverðum árangri:

  • Tilnefndur til Íslensku ungmennaverðlaunanna sem nýliði ársins
  • Var í 5. sæti á framboðslista fyrir Alþingiskosningar árið 2024
  • Útnefndur grasrótarpersóna KSÍ árið 2024
  • Hlaut starfsmerki UMFÍ síðasta vor

Sigurður hvetur fólk til að stíga út fyrir þægindarammann: „Þá geta ótrúlegir hlutir gerst.“

Einlæg og hlý frásögn um að takast á við hindranir

Sigurður lýsir bókinni sem einlægri, hlýlegri og persónulegri. „Þrátt fyrir að lífið leggi fyrir mann alls konar hindranir verða þessar hindranir oft til þess að styrkja mann og efla.“ Sigurður hefur náð góðum árangri í lífinu og er tilbúinn að tala opinskátt um það og langaði hann að vera einlægur í þessu verkefni sem lífið gaf honum. Hann segist þakklátur þrátt fyrir að þetta hafi reynst erfitt á sínum tíma, því þau tól sem hann hefur tileinkað sér til að takast á við erfiðleikana sýna hafa hjálpað honum að komast á þann stað sem hann er á í dag.

Bæði krefjandi og gefandi að kynna bókina

Sigurður er búinn að vinna mikið í sínum málum og er því tilbúinn að miðla sinni reynslu á þennan hátt. Sigurður hefur kynnt bókina sína víða undanfarna mánuði. Hann segir að það hafi verið afar sérstök upplifun að fjalla um persónuleg málefni fyrir framan hóp af fólki. „Ég var alveg búinn á því eftir fyrstu kynningarnar,“ segir hann. „Það tekur líka líkamlega á að opna sig svona.“

Tengir vel við ungmenni – og hreyfir við eldri kynslóð

„Það sem gerir söguna eflaust áhrifaríkari fyrir börn og ungmenni er að ég er bara 25 ára og það er stutt síðan ég var í þessum aðstæðum,“ segir Sigurður.
Viðbrögð eldri kynslóðarinnar komu honum þó mest á óvart.
„Ég bjóst ekki við miklu frá þeim, en það hreyfði við mér að sjá hvernig eldri kynslóðin tengdi við frásögnina.“
Sigurður segir að enn skorti skilning á geðrænum áskorunum í samfélaginu þrátt fyrir aukna umræðu. Hann telur mikilvægt að tala um líðan sína. „Um leið og ég fór að tala um það hvernig mér leið fór ég að taka skref fram á við.“

Sálfræðin varð næsta skref – og Akureyri rétti staðurinn

Sigurður hafði áhuga á mörgu en eftir að hann gaf út bókina jókst áhugi hans á sálfræði og þess vegna varð hún fyrir valinu. Hann valdi Háskólann á Akureyri vegna sveigjanleika, jákvæðra umsagna og þess að hann vildi prófa eitthvað nýtt. „Ég hafði heyrt mjög jákvæðar umsagnir um námið í HA sem og um háskólalífið.“
Sigurður, sem er sveitastrákur frá Suðurlandi, ætlaði sér í fjarnám en ákvað að taka skrefið og flytja norður. Landsbyggðin hefur alltaf átt hjarta hans og því langaði hann að prufa að búa á Akureyri.

„Akureyri er frábær háskólabær“

Sigurður segir að Akureyri hafi tekið hlýlega á móti sér og segir Akureyri svo sannarlega vera frábæran háskólabæ. „Þegar ég fattaði hvað það er gott að vera á teppinu að læra kynntist ég fullt af frábæru fólki,“ segir Sigurður um það hvernig háskólasamfélagið hafi tekið á móti honum.
Fyrstu mánuðirnir hjá honum á Norðurlandinu og í HA hafa verið svo góðir að hann hefur ekki einu sinni heimsótt Suðurlandið síðan hann flutti norður.