Maria Finster Úlfarsson, doktorsnemi við Hjúkrunardeild, hlaut veglegan styrk úr Rannsóknasjóði Ingibjargar R. Magnúsdóttur
Doktorsverkefni Mariu ber titilinn „Þátttaka, stuðnings- og fræðsluþarfir fullorðinna barna við umönnun mæðra á hjúkrunarheimilum“. Fullorðin börn, ásamt mökum, gegna lykilhlutverki í lífi íbúa á hjúkrunarheimilum. Þó að bæði dætur og synir taki þátt í umönnun virðast þarfir þeirra oft vera mismunandi og stuðningur frá heilbrigðisstarfsfólki getur verið af skornum skammti. Meginmarkmið doktorsverkefnisins er að kanna hvort kynjamunur komi fram í þátttöku fullorðinna barna í umönnun mæðra sinna á hjúkrunarheimilum og greina þarfir þeirra fyrir fræðslu og stuðning.

María Finster Úlfarsson gat ekki verið viðstödd en Sveinn Úlfarsson tók við styrknum fyrir hennar hönd sem Silja Bára R. Ómarsdóttirr, rektor Háskóla Íslands afhenti.
Verkefnið felur í sér þrjár rannsóknir: eigindlega rannsókn á reynslu sona af því að eiga móður á hjúkrunarheimili og hvernig þeir skilgreina þarfir sínar fyrir fræðslu og stuðning; þýðingu og staðfæringu matstækis sem metur þátttöku aðstandenda í umönnun ástvina á hjúkrunarheimili en tækið hefur hingað til skort á Íslandi; og þversniðsrannsókn þar sem þátttaka sona og dætra í umönnun mæðra er metin ásamt þörfum þeirra fyrir fræðslu og stuðning. Engin megindleg rannsókn hefur áður verið gerð um þetta efni hér á landi og þekking á kynjamun í þátttöku aðstandenda íbúa á hjúkrunarheimilum er almennt takmörkuð.
Leiðbeinendur Mariu eru Kristín Þórarinsdóttir, dósent við Háskólann á Akureyri, og Margrét Hrönn Svavarsdóttir, prófessor við sama skóla. Í doktorsnefndinni sitja einnig Anne Marie Mork Rokstad frá Háskólanum í Molde í Noregi og Kristofer Årestedt frá Linneaus-háskólanum í Svíþjóð.