Fjörugar umræður á vel heppnuðu málþingi

Háskóli í þágu lýðræðis
Fjörugar umræður á vel heppnuðu málþingi

Þann 11. nóvember síðastliðinn fór fram málþing sem var lokaviðburður rannsóknarverkefnisins Háskólar og lýðræði: Gagnrýnin greining á borgarlegu hlutverki háskóla í lýðræðisþjóðfélagi. Rannsóknarhópurinn er þverfaglegur og hefur starfað frá árinu 2018 undir forystu Önnu Ólafsdóttur, dósents við Kennaradeild, og Sigurðar Kristinssonar, prófessors við Félagsvísindadeild. Í rannsóknarhópnum eru samtals átta rannsakendur frá Háskólanum á Akureyri og Háskóla Íslands.

Að loknu lykilerindi frá Thaddeus Metz, prófessors í heimspeki við háskólann í Pretoria í Suður-Afríku, voru afurðir og niðurstöður rannsóknarinnar kynntar með sjö erindum rannsakenda. Málþinginu lauk svo með pallborðsumræðum stjórnenda frá sex íslenskum háskólum. Margt bar á góma í fjörugum umræðum og voru stjórnendur sammála um mikilvægi þess að ræða og rýna háskólastarfið frá sjónarhóli lýðræðis, ekki síst nú þegar lýðræði á undir högg að sækja víða um lönd.

Á forsíðumyndinni má sjá rannsóknarhópinn, frá vinstri: Sigurður Kristinsson, Jón Torfi Jónsson, Guðmundur Heiðar Frímannsson, Valgerður S. Bjarnadóttir, Guðrún Geirsdóttir, Anna Ólafsdóttir, Vilhjálmur Árnason og Jóhann Helgi Heiðdal