Fyrsti doktorinn útskrifast úr Hjúkrunarfræði

Dr. Elín Arnardóttir varði doktorsritgerð sína í Hjúkrunarfræði um miðjan nóvember
Fyrsti doktorinn útskrifast úr Hjúkrunarfræði

Föstudaginn 14. nóvember varði Dr. Elín Arnardóttir doktorsritgerð sína í Hjúkrunarfræði við Háskólann á Akureyri. Verkefni Elínar ber heitið “Tíðni forstigseinkenna sykursýki af tegund 2 og notkun fyrirbyggjandi nálgana í heilsugæslu.“ Elín er fyrst til þess að ljúka doktorsnámi sínu í Hjúkrunarfræði síðan að háskólinn fékk til þess heimild árið 2017. 


Elín Arnardóttir ver ritgerðina

„Uppbygging doktorsnáms við háskólann hefur verið mikil og við erum stolt af því að geta boðið upp á doktorsnám á níu fræðasviðum. Mig langar að óska Elínu Arnardóttur til hamingju með að vera orðin doktor í hjúkrunarfræði og óska henni velfarnaðar í hennar störfum.“ Segir Hafdís Skúladóttir, forseti Hjúkrunarfræðideildar.


Hafdís og Elín fagna að vörn lokinni

 

Ritgerðin var unnin undir leiðsögn dr. Árúnar K. Sigurðardóttur, prófessors við Hjúkrunarfræðideild Háskólans á Akureyri. Auk hennar voru í doktorsnefnd dr. Marit Graue prófessor við HVL rannsóknarháskólann í Bergen í Noregi, dr. Timothy Skinner prófessor við Kaupmannahafnarháskóla og miðstöðina fyrir atferlisrannsóknir á sykursýki í Melbourne í Ástralíu og dr. Beate-Christin Hope Kolltveit dósent við HVL rannsóknarháskólann í Bergen í Noregi.