Geimrannsóknir og pólitík á Íslandi

Alþjóðlegt vísindafólk kom saman í Reykjavík til að ræða áhrif geimsins á Norðurslóðir, stjórnmál og framtíðarsýn mannkyns
Geimrannsóknir og pólitík á Íslandi

Á dögunum komu saman vísindafólk frá ýmsum löndum til að ræða um geiminn og pólitísk áhrif hans á jörðina. Um var að ræða þriggja daga vinnustofu þar sem megináherslan var að skoða hvernig hægt sé að tengja saman rannsóknir á Norðurslóðum og geimrannsóknir.
Að vinnustofum loknum var farið í ferð um íslensk háhitasvæði sem minna á landslagið á Mars og á tunglinu. Einnig fóru fram umræður um dystópíska framtíðarsýn í norrænum vísindaskáldskap.

Pólitík geimsins

Vinnustofurnar voru haldnar í Grósku með stuðningi Íslensku geimrannsóknarstofnunarinnar. Þær voru skipulagðar af Adam Fishwick, rannsóknarstjóra og gestaprófessor við Háskólann á Akureyri. „Þetta voru þrír dagar fullir af fróðleik og innblæstri þar sem við ræddum pólitík geimsins með fræðimönnum frá öllum heimshornum,“ segir Adam.
Þátttakendur komu meðal annars frá NordSpace verkefninu og nýstofnuðu þemaneti Uarctic um sjálfbærni í geimrannsóknum á Norðurslóðum. Háskólinn á Akureyri tekur þátt í báðum verkefnum undir forystu Katharinu Glaab frá Landbúnaðarháskóla Noregs.

Vinnustofurnar tóku á:

  • Hvernig opinberir aðilar og fyrirtæki starfa í geimgeiranum.
  • Hvernig þjóðir móta stefnu sína í geimmálum.
  • Hvernig framtíðarsýn hefur áhrif á ákvarðanir sem teknar eru í dag.

Vísindaskáldskapur, listir og pólitík geimsins

Í tengslum við vinnustofurnar var haldin opinber pallborðsumræða í Listasafni Reykjavíkur. Þar var rætt um vísindaskáldskap, listir og pólitík geimsins. Umræðurnar byggðu meðal annars á sænsk-dönsku myndinni Aniara, sem sýnir dökka framtíðarsýn um geiminn. „Aniara sýnir okkur áskoranir sem við stöndum frammi fyrir í dag – loftslagsvá, áhrif stórfyrirtækja og tengsl okkar við gervigreind,“ útskýrir Adam.

Fræðimenn frá Danmörku, Hollandi, Íslandi og Íslensku geimrannsóknarstofnuninni tóku þátt í pallborðinu. Þeir bentu meðal annars á hættur sem fylgja þróun geimgeirans og ræddu einnig leiðir til að koma í veg fyrir hætturnar. Meðal annars var vakin athygli á áhættu sem tengist ört vaxandi þáttum í geimgeiranum eins og versnandi umhverfiskreppu og ójöfnuði í eignarhaldi á geiminnviðum. Þá var meðal annars lagt til að koma á alþjóðlegu samstarfi og regluverki til að forðast neikvæðar afleiðingar.

Nýta íslenskt landslag í prófanir fyrir framtíðar geimleiðangra

Lokapunkturinn og hápunktur einhverra þátttakenda var hálendisferð hópsins með Íslensku geimrannsóknarstofnuninni. „Þar kynntu sérfræðingar jarðfræðileg líkindi Íslands við Mars og tunglið. Þeir sýndu einnig hvernig alþjóðlegir rannsóknarhópar, meðal annars frá NASA og Evrópsku geimstofnuninni, nýta íslenskt landslag til að undirbúa framtíðargeimleiðangra,“ segir Adam. Skipuleggjendur stefna nú á ráðstefnu í Osló á næsta ári þar sem fjallað verður frekar um áhrif geimsins á stjórnmál, samfélög og framtíðarsýn.