Kári Einarsson, skjalastjóri HA, er næsti viðmælandi í samstarfi Kaffið.is og Háskólans á Akureyri þar sem við fáum að kynnast mannlífinu í skólanum.
Við hvað starfar þú hjá HA og hvað ertu búin að vera lengi í starfi?
Ég er skjalastjóri háskólans og hef gegnt þeirri stöðu síðan 2021. Þegar ég hóf störf var nánast engin starfsemi í húsnæði skólans sökum sóttvarnaraðgerða. Mér er mjög minnisstætt þegar ég fékk skoðunarferð um Háskólasvæðið undir þeim formerkjum að kynna mig fyrir starfsfólki skólans, en ég sá mest megnis tómar skrifstofur.
Hvernig finnst þér háskólalífið á Akureyri?
Sem nemandi hef ég að vísu enga reynslu af háskólalífinu hér í bæ en sem starfskraftur er það bærilegt. Hér er öflugt skemmtifélag og alltaf nóg um að vera. Að sama skapi er Akureyri lítill bær og maður hittir samstarfsfólk nánast í hvert skipti sem maður fer út fyrir hússins dyr.

Hvað ætlaðir þú að verða þegar þú yrðir stór?
Ég grínast oft með það að ekkert barn vaxi úr grasi með þann draum að verða skjalastjóri og ég var sjálfur engin undantekning. Mig langaði alltaf að verða uppfinningamaður eða listamaður þegar ég var lítill, en sætti mig að lokum við tilhugsunina um að vinna á skrifstofu. Ég kynntist skjalastjórn fyrst í gegnum nokkur valnámskeið þegar ég var í BA námi í sagnfræði við HÍ. Eftir grunnnámið vissi ég svo ekkert hvað ég vildi gera, en var nokkuð viss um að mig langaði ekki að vinna við kennslu né rannsóknir. Þá virkaði skjalastjórnin sem augljós kostur til að hagnýta grunnámið.
Hvað finnst þér gera HA sérstakan?
Samstarfsfólkið. HA er afslappaður vinnustaður, en þar vinnur líka röggsamt fólk sem hefur gríðarlegan metnað fyrir vinnunni sinni.
Skemmtilegasta minning þín í HA?
Það er úr mörgu að velja; fyrsti fundur Arsenal félagsins og fyrstu skil á vörsluútgáfu málasafns til Þjóðskjalasafns Íslands standa upp úr. En ég held að skemmtilegasta minningin sé frá því í fyrra þegar rektorsgangurinn hélt upp á jólapeysudag. Við stilltum okkur öll upp í peysunum okkar og ég var af einhverri ástæðu látinn halda á litlu gervijólatré. Samstarfsfólki mínu þótti ég myndast svo vel að ákveðið var að klippa restina út og búa til hópmynd, bara af mér, sem var síðan nýtt sem banner á facebook síðu Borga þau jólin.

Jólapeysumyndin fræga
Uppáhaldsstaður í HA?
Hafandi unnið í gamla Landsbankahúsinu síðustu mánuði, sökum yfirstandandi framkvæmda í Borgum, þá finn ég að ég sakna gömlu skrifstofunnar minnar afar heitt.
Hvaða þrjú orð detta þér í hug þegar þú hugsar um HA?
Frisbígolf, tjaldur, rauður