Hlaut Fálkaorðuna fyrir kennslu og fræðistörf

Kristján Kristjánsson, fyrrum prófessor við HA, hlaut orðuna í upphafi árs
Hlaut Fálkaorðuna fyrir kennslu og fræðistörf

Fyrsta dag þessa mánaðar veitti forseti Íslands, frú Halla Tómasdóttir, Kristjáni Kristjánssyni, heimspekingi og prófessor, fálkaorðuna við hátíðlega athöfn á Bessastöðum. Hlaut hann orðuna fyrir kennslu- og fræðistörf á vettvangi siðfræði og mannkostamenntunar.

„Það var mér mikill heiður að fá riddarakross hinnar íslensku fálkaorðu og sérstaklega að hún skyldi veitt fyrir framlag mitt til mannkostamenntunar (e. character education). Ég vona að þessi orða sé ekki aðeins viðurkenning fyrir mig persónulega heldur lyftistöng og hvati fyrir iðkendur á sviði mannkostamenntunar og raunar allrar menntunar hér á landi sem stuðlar að aukinni farsæld nemenda,“ segir Kristján um hvers virði viðurkenningin er sem felst í að hljóta orðuna.

Ferillinn hófst á Akureyri

Við hjá HA erum stolt af því að Kristján starfaði við háskólann í fullu starfi og að hluta til á árunum 1989–2009. Hann hóf störf við háskólann sem stundakennari, varð síðar lektor og svo dósent, sinnti hlutverki forstöðumanns og síðustu tíu árin við skólann var hann prófessor. Hann hefur einnig hlotið heiðursprófessorstitil við háskólann.

Kristján er heiðursdoktor við University of Humanistic Studies í Hollandi og er gestaprófessor við fjölda háskóla, meðal annars við Cornell háskóla og Háskóla Íslands. Hann lauk BA gráðu í heimspeki við HÍ árið 1983, M.Phil prófi í sömu fræðum við University of St. Andrews í Skotlandi og doktorsprófi þaðan árið 1990. Í dag er hann prófessor við Jubilee-stofnunina um mannkosta- og dyggðamenntun við Háskólann í Birmingham. Skólinn er leiðandi á alþjóðavettvangi hvað varðar þverfræðilegar rannsóknir sem beina sjónum að skapgerð, dyggðum og gildum í þágu mannlegrar farsældar. Nýlega hóf hann störf sem prófessor í hlutastarfi við Menntavísindasvið Háskóla Íslands og Boston College og er ráðgjafi hjá OECD.

Rannsóknarstefna sem þverar fræðasvið

Kristján hefur gefið út yfir 150 greinar í alþjóðlegum ritum og hefur skrifað ítarlega um almenn menntamál, siðferðismennt, menntasálfræði, siðfræði og stjórnmálaheimspeki. Hann hefur einnig skrifað bækur um þau viðfangsefni og meðal fyrri bóka hans eru Aristotelian Character Education sem hlaut verðlaun sem menntafræðibók ársins í Bretlandi árið 2015, og hefur verið þýdd yfir á japönsku. Einnig er Kristján er ritstjóri tímaritsins Journal of Moral Education.

Hann hefur hlotið fjölda viðurkenninga sem meðal annars fela í sér verðlaun samtakanna „Society for Educational Studies“ árið 2016.

Kristján er okkar fremsti fræðimaður þegar kemur að hugmyndafræði mannkostamenntunar og hans rannsóknarstefnu má lýsa sem heimspekilegri greiningu innblásinni af Aristótelesi og byggðri á kenningum í menntasálfræði og dyggðamenntun með sérstakri áherslu á skapgerð (e. character).

Ferillinn efni í heila bók

Ferill Kristjáns spannar marga áratugi, fjölbreytt svið og þverar lönd og fræðigreinar. Það yrði efni í heila bók að fara yfir ferilinn og við látum staðar numið hér en fyrir áhugasöm má finna meira um feril Kristjáns hér.

Við hjá Háskólanum á Akureyri óskum Kristjáni til hamingju með fálkaorðuna og velgengni í áframhaldandi störfum.