Maríanna Rín, stúdent í Háskólanum á Akureyri, er næsti viðmælandi í samstarfi Kaffið.is og Háskólans á Akureyri þar sem við fáum að kynnast mannlífinu í skólanum
Maríanna Rín, stúdent í Háskólanum á Akureyri, er næsti viðmælandi í samstarfi Kaffið.is og Háskólans á Akureyri þar sem við fáum að kynnast mannlífinu í skólanum.
Í hvaða námi ert þú?
Ég er í lögfræði við Háskólann á Akureyri.
Skemmtilegasta minning þín í HA?
Þær eru mjög margar og erfitt að velja á milli, árshátíðin í ár var einstaklega skemmtileg og sprellmótið stendur alltaf fyrir sínu. En minningarnar sem eru mér kærastar eru bara í skólanum að læra með góðu fólki eða að lenda á kjaftatörn á ganginum.

Hvernig finnst þér háskólalífið á Akureyri?
Mér finnst ómetanlegt að geta búið og lært í svona samheldnu háskólasamfélagi. Akureyri er fyrst og fremst háskólabær og samfélagið á Akureyri er nú þegar mjög náið sem er mjög dýrmætt.
Félagslífið er virkilega skemmtilegt og fjölbreytt, hér er alltaf eitthvað í gangi og eitthvað til þess að hlakka til. Félagslífið og tengingin við aðra nemendur er svo stór hluti af upplifuninni að vera nemandi við HA.
Mín reynsla er sú að það hefur verið virkilega auðvelt að tengjast fólki, bæði þeim sem eru með mér í námi, í nefndum og bara þeim sem eru hér í staðnámi. Hópurinn sem stundar hér staðnám og eyðir tíma sínum uppi í skóla að læra er fámennur og þar þekkjast flestir á einn eða annan hátt, þess vegna er eiginlega óhjákvæmilegt að kynnast nýju fólki, sem er mikill kostur.

Uppáhaldsnámskeið sem þú hefur tekið í HA?
Mitt áhugasvið liggur mest á sviði refsiréttar sem er mjög skemmtilegt námskeið. Síðan eru mörg námskeið sem koma skemmtilega á óvart, eins og til dæmis eignarréttur sem ég bjóst alls ekki við að mér fyndist skemmtilegur. Það er nefnilega ekki alltaf víst hvar áhuginn liggur og með góðum kennurum getur allt námsefni verið skemmtilegt og áhugavert.
Hvað er það besta við að vera HA-ingur?
Fólkið, þá er ég ekki aðeins að tala um samnemendur heldur líka kennara og annað starfsfólk skólans. Þetta er svo frábært samfélag sem við erum ótrúlega heppin að eiga hér fyrir norðan.
