Hópur fulltrúa frá Háskólanum á Akureyri tók þátt í vel heppnuðu málþingi um heimskautarétt sem fram fór í Nuuk á Grænlandi seinnipart október.
Fulltrúar HA í Nuuk: Hildur Sólveig Elvarsdóttir, verkefnastjóri á Hug- og félagsvísindasviði, Antje Neumann, dósent og brautarstjóri í heimskautarétti, Helga Númadóttir, sérfræðingur hjá Stofnun Vilhjálms Stefánssonar, Rachael Lorna
Johnstone, prófessor í lögfræði, Romain Chuffart, Nansen-prófessor í norðurslóðafræðum, og Sara Fusco, aðjúnkt við lagadeild.
Þetta er í 18. skiptið sem málþing um heimskautarétt er haldið og í annað sinn sem það fer fram í Nuuk. Grænland er í brennidepli norðurslóðafræða um þessar mundir og mikill áhugi var á viðburðinum í ár. Rúmlega 150 þátttakendur frá 23 löndum tóku þátt og komust færri að en vildu. Rachael Lorna Johnstone og Romain Chuffart hjá Háskólanum á Akureyri ásamt Maria Ackrén hjá Ilisimatusarfik (Háskólanum á Grænlandi) skipulögðu viðburðinn.
Umhverfisréttur og sjálfsákvörðunarréttur meðal viðfangsefna
Á málþinginu skapaðist frjór jarðvegur fyrir dýnamískar umræður og skoðanaskipti fræðafólks og sérfræðinga. Þá sérstaklega hvað varðar ólík sjónarmið um þau álitamál sem efst eru á baugi tengd norður- og suðurskautinu. Þrír virtir aðalfyrirlesarar settu tóninn með erindum sínum, tveir frá Grænlandi, þau Kenneth Høegh og dr. Sara Olsvig og auk þeirra dr. Alan Hemmings.

Fallegt útsýnið yfir Nuuk
Kenneth Høegh er sendiherra norðurslóðamála og formaður embættismannanefndar Norðurskautsráðsins 2025–2027, dr. Sara Olsvig er alþjóðlegur formaður Heimskautaráðs Inúíta og dr. Alan Hemmings er sérfræðingur í stjórnskipulagi Suðurskautslandsins og aðjúnkt við Gateway Antarctica, Háskólann í Canterbury.
Þá tóku fulltrúar HA þátt í fjölmörgum málstofum um fjölbreytt viðfangsefni, þar á meðal um umhverfisrétt, réttlát umskipti, námuvinnslu, réttindi frumbyggja og sjálfsákvörðunarrétt, viðskiptavæðingu loftslagsmála, alþjóðalög og forsjá skjalasafna og stjórnarhætti á Suðurskautslandinu.
Fimm stúdentar í heimskautarétti ásamt fjórum stúdentum Ilisimatusarfik ræddu jafnframt hugmyndir sínar og sýn á málefni heimskautasvæðanna í málstofu á vegum verkefnisins „New Insights in Polar Law“ sem styrkt er af Alþjóðlegu norðurskautsvísindanefndinni (IASC).
Forsætisráðherra kíkti við á kynningarbás HA
Málþingið fór fram á Hotel Hans Egede í miðbæ Nuuk en utan ráðstefnusala hótelsins var einnig ýmislegt um að vera. Hildur Sólveig, verkefnastjóri á Hug- og félagsvísindasviði, stóð vaktina á kynningarbás HA á starfsdögum í Ilisimatusarfik daginn áður en málþingið hófst og fékk meðal annars góða heimsókn frá Kristrúnu Frostadóttur forsætisráðherra sem var í sinni fyrstu opinberu heimsókn til Grænlands.

Þá stóð aðalræðisskrifstofa Íslands í Nuuk fyrir móttöku fyrir ráðstefnugesti í tilefni þingsins og sendiskrifstofa Evrópusambandsins í Nuuk bauð í kaffi, kökur og spjall. Sendiskrifstofan opnaði á Grænlandi fyrir ári síðan og í heimsókn þar var meðal annars rætt um samband Grænlands og Evrópusambandsins og mikilvægi heimskautaréttar fyrir Grænland.
Heimskautaréttur leggur áherslu á mikilvægi réttarkerfis og alþjóðasamvinnu til þess að takast á við áskoranir á norðurslóðum og Suðurskautslandinu. Árlegt málþing um heimskautarétt hefur skapað sér sess sem mikilvægur vettvangur til þess að deila þekkingu grundvallaðri á rannsóknum og vísindum um fjölbreytt málefni er varða heimskautasvæðin.
Ár hvert dregur þingið að sér fjölmargt fræðafólk og sérfræðinga frá öllum heimshornum, þvert á fræðasvið. 19. málþingið verður haldið í Háskólanum í Waikato í Aotearoa á Nýja-Sjálandi 9.-11. nóvember 2026.