Föstudaginn 14. nóvember mun Elín Arnardóttir verja doktorsritgerð sína í hjúkrunarfræði við Háskólann á Akureyri.
Doktorsritgerðin ber heitið: Tíðni forstigseinkenna sykursýki af tegund 2 og notkun fyrirbyggjandi nálgana í heilsugæslu.
Vörnin fer fram á ensku í Hátíðarsal Háskólans á Akureyri kl. 13:00 og er öllum opin.
VINSAMLEGAST TILKYNNIÐ MÆTINGU Í HÁTÍÐARSAL HÉR
Vörninni verður einnig streymt hér.
Ritgerðin var unnin undir leiðsögn dr. Árúnar K. Sigurðardóttur, prófessors við Hjúkrunarfræðideild Háskólans á Akureyri. Auk hennar voru í doktorsnefnd dr. Marit Graue prófessor við HVL rannsóknarháskólann í Bergen í Noregi, dr. Timothy Skinner prófessor við Kaupmannahafnarháskóla og miðstöðina fyrir atferlisrannsóknir á sykursýki í Melbourne í Ástralíu og dr. Beate-Christin Hope Kolltveit dósent við HVL rannsóknarháskólann í Bergen í Noregi.
Andmælendur verða dr. Ragnar Grímur Bjarnason prófessor við læknadeild Háskóla Íslands og sérfræðilæknir á Landspítalanum og dr. Åsa Hörnsten hjúkrunarfræðingur og prófessor við hjúkrunarfræðideild Umeå háskóla í Svíþjóð.
Dr. Guðrún Rósa Þórsteinsdóttir, forstöðumaður Miðstöðvar doktorsnáms og Dr. Brynjar Karlsson forseti Heilbrigðis-, viðskipta- og raunvísindasviðs, munu stýra athöfninni.
Um doktorsefnið
Elín Arnardóttir er hjúkrunarfræðingur að mennt en hún lauk BS prófi í hjúkrunarfræði frá Háskóla Íslands árið 1993. Þá lauk hún grunndiplómu í kennslufræðum við Háskólann á Akureyri árið 2000. Árið 2018 lauk Elín MS prófi í heilbrigðisvísindum með áherslu á ólík þjónustuform heilsugæslu frá Háskólanum á Akureyri. Elín hefur starfað óslitið sem hjúkrunarfræðingur frá útskrift árið 1993 og þar af í 25 ár á heilsugæslustöðinni í Fjallabyggð.
Ágrip
Ritgerðin er byggð á megindlegum þversniðsrannsóknum og íhlutunarrannsókn með slembiúrtaki. Markmiðið var að ákvarða tíðni forstigs sykursýki og ógreindrar sykursýki af tegund 2 (SST2) á Norðurlandi. Enn fremur samanburður á næmni og sértækni finnska áhættumatslistans á sykursýki (FINDRISK), með mæligildum langtímasykurs við aðrar mælingaraðferðir í að bera kennsl á einstaklinga í áhættuhópi fyrir SST2 í heilsugæslu á Íslandi. Jafnframt að meta mun á heilsufarslegri færni og vellíðan þátttakenda í og án áhættu á SST2. Íhlutunarrannsókninni var ætlað að kanna áhrif hjúkrunarfræðilegrar eftirfylgni með leiðsögn um sjálfsákvörðunarrétt (GSD) til að hjálpa einstaklingum í áhættuhópi SST2 til að draga úr hættu á kransæðasjúkdómi.
Gagnaöflun fór fram meðal 18–75 ára einstaklinga búsettra á upptökusvæði þriggja heilsugæslustöðva á Norðurlandi árin 2020–2023.
Niðurstöður sýndu að af 220 þátttakendum reyndist enginn með ógreinda SST2, en 13,2% með mæligildi sem bentu til forstigseinkenna sykursýki. Tíðni ofþyngdar og offitu var há meðal þátttakenda. FINDRISK og mæling á hlutfalli mittis miðað við hæð geta nýst sem markgildi fyrir frekara áhættumat á SST2 í heilsugæslu svo grípa megi til stuðnings áður en forstigseinkenni verða að sjúkdómi. Útreikningar á næmni og sértækni FINDRISK sýndu aROC 0,814 og viðmið til frekari skoðunar vegna áhættu á SST2 var ≥11 stig á FINDRISK. Ekki tókst að greina marktækan mun á íhlutunarhópi og viðmiðunarhópi varðandi lækkaða áhættu á kransæðasjúkdómi með 12 vikna hjúkrunarstýrðri leiðbeinandi sjálfsákvörðun. Hins vegar kom fram að með þátttöku í íhlutunarrannsókninni varð 18% hlutfallsleg áhættuminnkun á kransæðasjúkdómi á næstu 10 árum.
Ályktanir: Viðmiðunargildið ≥11 stig á finnska áhættumatslistanum getur verið notað sem markgildi fyrir frekara áhættumat á sykursýki af tegund 2 í heilsugæslu. Þrátt fyrir að ekki greindist marktækur munur milli hópa eftir íhlutunartímann virðast reglulegar mælingar og GSD ráðgjöfin geta reynst gagnlegar til almennrar lækkunar áhættuþátta kransæðasjúkdóma.
Lykilorð: Finnski áhættumatslistinn á sykursýki (FINDRISK), Langtímasykur, Áhætta á Sykursýki-Tegund 2 (SST2), Heilsugæsla, Leiðbeinandi Sjálfsákvörðun (GSD), áhætta á kransæðasjúkdómum.
Áhugasöm geta nálgast ritgerðina hér
Öll velkomin