416. fundur háskólaráðs

FUNDARGERÐ HÁSKÓLARÁÐS
Föstudaginn 10.07.2020 kl. 10.05. Rafrænn fundur á Teams 

Rektor Eyjólfur Guðmundsson setti fund kl. 10:05.

Mætt voru auk hans:

Dagmar Ýr Stefánsdóttir fulltrúi menntamálaráðherra
Katrín Björg Ríkarðsdóttir fulltrúi háskólaráðs
Kristján Þór Magnússon fulltrúi háskólaráðs
Nökkvi Alexander Rounak Jónsson fulltrúi nemenda
Óskar Þór Vilhjálmsson fulltrúi háskólasamfélagsins
Sigfríður Inga Karlsdóttir fulltrúi háskólasamfélagsins

Einnig mætt:

Martha Lilja Olsen skrifstofustjóri rektorsskrifstofu sem ritar fundargerð
Sólveig María Árnadóttir verkefnastjóri markaðs- og kynningarmála


Um er að ræða aukafund í háskólaráði Háskólans á Akureyri og er aðeins eitt mál er á dagskrá fundarins.

1. Innritun nýrra nemenda fyrir skólaárið 2020-2021

Háskólaráð samþykkir einróma eftirfarandi:

Á undanförnum árum hefur Háskólinn á Akureyri þurft að takmarka aðgengi að skólanum þar sem að aðsókn hefur vaxið mikið og ekki hefur fengist aukið fjármagn til að fjölga nemendum líkt og fram kemur í Grænbók menntamálaráðuneytisins um stöðu háskólakerfisins. Hertar aðgangstakmarkanir hafa því verið raunveruleiki skólans síðastliðin þrjú ár. 

Aðstæður í samfélaginu kalla hins vegar mjög eftir auknu aðgengi að háskólum landsins. Yfirlýsing stjórnvalda frá 22. júní sl. sem byggir á samþykkt í ríkisstjórn frá 19. júní, ásamt bréfi menntamálaráðherra til forstöðumanna menntastofnanna sem barst 7. júlí tryggir að stjórnvöld muni fjármagna þann viðbótarkostnað sem fylgir auknum nemendafjölda við háskóla hér á landi. Þessi ákvörðun ríkisstjórnarinnar og forysta menntamálaráðherra í málinu er mikið heillaskref fyrir íslenskt samfélag sem mun tryggja aðgengi að menntun á tímum þar sem hugvit verður grunnurinn að uppbyggingu samfélagsins eftir áfallið sem fylgir Kóvinu og þeim óvenjulegu aðstæðum sem það hefur skapað. Háskólaráð Háskólans á Akureyri fagnar því þessari skýru stefnumörkun stjórnvalda. 

Byggt á samþykkt ríkisstjórnarinnar og samtali við stjórnvöld um stöðu Háskólans á Akureyri vegna mikillar aðsóknar síðustu ára er háskólaráð reiðubúið að afnema allar þær fjöldatakmarkanir sem verið hafa í gildi varðandi inntöku nemenda haustið 2020 vegna skorts á fjármagni. Það þýðir að allir þeir nemendur sem hafa stúdentspróf og hafa fengið synjun um skólavist fyrir haustið 2020 á grundvelli forgangsröðunar munu fá jákvætt svar um skólavist. Umsækjendur sem ekki eru með stúdentspróf eða eru með nám frá háskólabrúm annarra háskóla munu jafnframt fá svar eftir 10. ágúst n.k. þegar mati á þeim umsóknum út frá inntökuskilyrðum deilda verður lokið. Ákvörðun þessi hefur ekki áhrif á fjölda nemenda sem fá að halda áfram á vormisseri 2021 byggt á reglum um samkeppnispróf eða aðrar fjöldatakmarkanir , þ.e. hjúkrunarfræði, lögreglufræði og sálfræði.

Þessi ákvörðun háskólaráðs byggir á þeirri skuldbindingu stjórnvalda um fjármögnun háskóla og þeim aðstæðum sem upp eru komnar í íslensku samfélagi vegna Kóvsins. Það er ljóst á þessum tímapunkti að Háskólinn á Akureyri mun þurfa að beita aðgangstakmörkunum á ný haustið 2021 nema til komi aukin fjárframlög til háskólans í fjárlögum 2021 sem byggir á auknu framlagi til háskóla í fjármálaætlun þeirri sem samþykkt verður á Alþingi í haust. Háskólaráð setur því traust sitt á ríkisstjórn, menntamálaráðherra og Alþingi um að fjármögnun háskólans sé tryggð þannig að skólinn geti haldið áfram að sinna því hlutverki að veita aðgengi að háskólamenntun í sínu nær samfélagi sem og í byggðum um land allt í gegnum stafræna miðlun náms og uppbyggingar háskólasamfélaga um land allt. 

Ljóst er að þessi ákvörðun þýðir að háskólaráð er að heimila frávik frá fjárhagsáætlun í því trausti að stjórnvöld veiti viðbótarfjármagni til háskólans og jafnframt er ljóst að ákvörðunin leiðir til þess að Háskólinn á Akureyri þarf strax í ágúst að fara í ráðningar á starfsfólki til þess að anna þessum nemendafjölda.

 

Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 11:00.