429. fundur háskólaráðs

FUNDARGERÐ HÁSKÓLARÁÐS
Fundur var haldinn daginn 26. ágúst 2021 í fundarherbergi R302 að Borgum.

Rektor Eyjólfur Guðmundsson setti fund kl. 13:32.

Mætt voru auk hans:

Bjarni Jónasson varafulltrúi háskólaráðs
Dagmar Ýr Stefánsdóttir fulltrúi háskólaráðs kom inn á fundinn kl. 14:00
Guðmundur Ævar Oddsson fulltrúi háskólasamfélagsins
Karl Frímannsson fulltrúi mennta- og menningarmálaráðherra
Nökkvi Alexander Rounak Jónsson fulltrúi nemenda
Sigríður Margrét Sigurðardóttir fulltrúi háskólasamfélagsins

Einnig mætt:
Martha Lilja Olsen skrifstofustjóri rektorsskrifstofu sem ritar fundargerð

Fjarverandi:
Katrín Björg Ríkarðsdóttir

Gestir:
Hólmar Svansson framkvæmdastjóri
Harpa Halldórsdóttir forstöðumaður fjármála og greiningar

Rektor kynnti dagskrá.

1. Fundarskipulag og starfsáætlun háskólaráðs 2021-2022

Rektor lagði fram fundarskipulag og starfsáætlun háskólaráðs fyrir skólaárið. 

2. Fjármál og rekstur

Forstöðumaður fjármála og greininga fór yfir rekstraryfirlit janúar til júlí. Reksturinn er í jafnvægi. Rekstrarstaðan í heild sinni er neikvæð um 7,2 milljónir (um -0,43% yfir áætlun). Halda þarf vel utan um reksturinn á síðari hluta ársins svo reksturinn haldist innan marka í árslok.

Forstöðumaður fjármála og greininga yfirgaf fundinn.

3. Nemendafjöldi á haustmisseri – innritun nýnema

Framkvæmdastjóri Háskólaskrifstofu fór yfir tölur yfir heildarnemendafjölda og nýnema sérstaklega. Nýnemar á haustmisseri eru rúmlega 1.100, mjög sambærilegur fjöldi og á fyrra ári. Heildarfjöldi nemenda við skólann er um 2.500, sem er einnig sambærilegur heildarfjölda nemenda árið 2020 svo ekki er um fjölgun á milli ára ræða.

Nýnemadagar eru í fullum gangi þessa vikuna og ganga mjög vel. Skipulag tekur mið af sóttvarnarreglum.

Taka þarf ákvörðun um innritun um áramót á næsta fundi háskólaráðs.

4. Starfsemi á haustmisseri – staða og aðgerðir v/Covid-19

Miðað við núverandi sóttvarnarreglur er ekki talin ástæða til að skipta skólanum upp í hólf. Kennsla er að hefjast og gert ráð fyrir að kennslulotur haustmisseris geti farið fram innan þeirra marka sem sóttvarnarreglur gera ráð fyrir eins og aðstæður eru nú. Mikilvægt er að áfram verði haft í huga að hægt verði að bregðast við með skömmum fyrirvara og breyta skipulagi ef upp koma aðstæður sem krefjast frekari fjöldatakmarkana eða annars konar aðgerða.

Í upphafi viku voru tilkynntar breytingar á starfsemi Kaffi Hóls vegna rekstrarerfiðleika hjá Matsmiðjunni. Áætlað er að  lokað verði í núverandi mynd frá og með 30. ágúst nk. og þar verður á næstunni einungis rekið mötuneyti fyrir starfsfólk. Eins og staðan er núna er ekki gert ráð fyrir veitingasölu, sem skerðir aðgengi stúdenta.

Framkvæmdastjóri Háskólaskrifstofu gerði grein fyrir málinu. Þar sem hér eru í raun brostnar forsendur samnings HA við Matsmiðjuna þarf í framhaldinu að fara í greiningu á þörfum HA og bjóða út reksturinn þegar þarfagreining liggur fyrir.

Háskólaráð leggur áherslu á að þetta fyrirkomulag sé ekki ásættanlegt þegar horft er til aðstöðu sem styður við nám og velferð nemenda. Mikilvægt er að fundin sé lausn til skemmri tíma sem veitir nemendum aðgengi að viðunandi aðstöðu og þjónustu. Háskólaráð beinir því til rektors og framkvæmdastjóra að tryggja nemendum aðgang að veitingasölu þar til útboð hefur farið fram.

5. Málefni vinnumatssjóðs 

Málefni Vinnumatssjóðs rædd. Farið yfir forsögu málsins og gögn sem tengjast sjóðnum. Háskólaráð samþykkir að fela rektor að tilnefna aðila í þriggja manna starfshóp og setja honum erindisbréf. Rektor sendir háskólaráði rafrænt tillögur að einstaklingum í hópinn og drög að erindisbréfi sem samþykkt verða rafrænt á milli funda svo hægt sé að hefja þessa vinnu sem allra fyrst. Lagt er upp með að hópurinn skili tillögum að lausnum á næsta fundi háskólaráðs.

6. Stofnanaúttekt

Rektor gerði grein fyrir að framundan er stofnanaúttekt Háskólans á Akureyri sem framkvæmd er af úttektarteymi sem skipað er af gæðaráði háskólanna á Íslandi. HA skilar stofnanamatsskýrslu sinni fyrstu viku september og mun úttektin fara fram 22. – 26. nóvember n.k.

7. Endurskoðun á reglum HA – staðan 

Farið yfir stöðu endurskoðunar á reglum HA og bókun síðasta háskólaráðs frá því í júní sl. 

8. Tilkynningar

Ný diplomagráða í kennaradeild: Forysta í lærdómssamfélagi

9. Bókfærð mál til samþykktar

  • Staðgengill rektors skólaárið 2021-2022. Elín Díanna Gunnarsdóttir er staðgengill rektors þetta skólaár.
  • Gæðastefna HASamþykkt.

Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 16:22.