430. fundur háskólaráðs

FUNDARGERÐ HÁSKÓLARÁÐS
Fimmtudaginn 30.09.2021 kl. 13:30 í fundarherbergi R262, Borgum.

Rektor Eyjólfur Guðmundsson setti fund kl. 13:33.

Mætt voru auk hans:

Aðalheiður Kristjánsdóttir varafulltrúi stúdenta
Bjarni Jónasson varafulltrúi háskólaráðs
Guðmundur Ævar Oddsson fulltrúi háskólasamfélagsins
Katrín Björg Ríkarðsdóttir fulltrúi háskólaráðs
Sigríður Margrét Sigurðardóttir fulltrúi háskólasamfélagsins
Sunna Hlín Jóhannesdóttir varafulltrúi menntamálaráðherra

Forföll:

Dagmar Ýr Stefánsdóttir fulltrúi háskólaráðs
Karl Frímannsson fulltrúi menntamálaráðherra
Nökkvi Alexander Rounak Jónsson fulltrúi stúdenta

Einnig mætt:

Martha Lilja Olsen skrifstofustjóri rektorsskrifstofu sem ritar fundargerð

Gestir:

Hólmar Svansson framkvæmdastjóri
Harpa Halldórsdóttir forstöðumaður fjármála og greiningar

1. Fjármál og rekstur

Forstöðumaður fjármála og greiningar og framkvæmdastjóri Háskólaskrifstofu komu inn á fundinn.

Forstöðumaður fjármála og greiningar fór yfir rekstraryfirlit janúar til ágúst. Staða háskólans í heild sinni er 0,25% yfir áætlun. Reksturinn í heild því í jafnvægi en mikilvægt að halda vel utan um útgjöld það sem eftir lifir árs svo ekki komi til hallareksturs í árslok.

Einnig lagður fram ársreikningur 2020 sem hefur verið samþykktur af Fjársýslunni. Niðurstaðan er rekstrarafgangur sem nemur 0,7%.
Forstöðumaður fjármála og greiningar yfirgaf fundinn.

2. Innritun um áramót

Ekki er gert ráð fyrir almennri innritun nýrra nemenda um áramót. Háskólaráð samþykkir að heimilt verði að nemendur geti fært sig milli námsbrauta og tekið verði við umsóknum frá fyrri nemendum, sem eiga eldri námsferla við háskólann, eftir því sem aðstæður leyfa og eftir ákvörðun deilda. Ákvörðun um innritun í einstakar deildir verði tekin af forsetum fræðasviða í samráði við deildarformenn og ákvörðun liggi fyrir í síðasta lagi þann 1. nóvember nk.

Framkvæmdastjóri Háskólaskrifstofu yfirgaf fundinn.

3. Málefni vinnumatssjóðs

Rektor lagði fram tillögu að skipun starfshóps til að vinna tillögu að lausn ágreinings um úthlutanir úr vinnumatssjóði. Drög að erindisbréfi starfshópsins einnig lagt fram. Starfshópinn skipa þau Guðrún Rósa Þórsteinsdóttir forstöðumaður Miðstöðvar doktorsnáms og stjórnsýslu rannsókna sem er formaður hópsins, Ólína Freysteinsdóttir námsráðgjafi og Reynir Örn Jóhannsson verkefnastjóri við Vísinda- og nýsköpunarsvið HÍ. Lagt er upp með að starfshópurinn kynni tillögur sínar á næsta fundi háskólaráðs.

4. Stefna HA – lykilþættir og mælikvarðar

Rektor fór yfir nokkra lykilþætti og mælikvarða úr stefnu Háskólans á Akureyri 2018 til 2023 en þar eru mikilvægustu stoðirnar fjölgun rannsóknastiga, ánægja nemenda, aukið fjármagn úr samkeppnissjóðum og áhrif á samfélagið en grunnstoðin er ánægja og velferð starfsfólks. Á næsta ári hefst undirbúningur að vinnu við nýja stefnumótun sem stefnt er að taki gildi frá og með upphafi skólaársins 2023-2024.

5. Erindi vegna siðareglna HA

Lagt fram erindi sem barst háskólaráði vegna siðareglna HA og afgreiðslu siðanefndar á tilteknu máli. Háskólaráð sér ekki ástæðu til breytinga á siðareglum vegna málsins og gerir ekki athugasemdir við afgreiðslu siðanefndar. Rektor er falið að svara erindinu fyrir hönd háskólaráðs.

6. Mál til kynningar

Skýrsla vegna stofnanaúttektar HA.

7. Bókfærð mál til samþykktar

Skipun vísindaráðs 2021-2024.

Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 16:12.