432. fundur háskólaráðs

FUNDARGERÐ HÁSKÓLARÁÐS
Fundur var haldinn fimmtudaginn 26.12.2021 í fundarherbergi R262 á Borgum.

Rektor Eyjólfur Guðmundsson setti fund kl. 12:05.

Mætt voru auk hans:

Bjarni Jónasson varafulltrúi háskólaráðs
Guðmundur Ævar Oddsson fulltrúi háskólasamfélagsins
Katrín Björg Ríkarðsdóttir fulltrúi háskólaráðs
Nökkvi Alexander Rounak Jónsson fulltrúi stúdenta
Sigríður Margrét Sigurðardóttir fulltrúi háskólasamfélagsins
Sunna Hlín Jóhannesdóttir varafulltrúi menntamálaráðherra

Forföll:

Dagmar Ýr Stefánsdóttir fulltrúi háskólaráðs
Karl Frímannsson fulltrúi menntamálaráðherra

Einnig mætt:

Martha Lilja Olsen skrifstofustjóri rektorsskrifstofu, sem ritar fundargerð

Gestir:

Hólmar Svansson framkvæmdastjóri háskólaskrifstofu
Harpa Halldórsdóttir forstöðumaður fjármála og greiningar

Rektor kynnti dagskrá.

1. Fjármál og rekstur

2102028

Forstöðumaður fjármála og greiningar kynnti rekstraryfirlit janúar til október. Staða háskólans í heild sinni er jákvæð um 18,8 milljónir (0,74%). Útlit er fyrir að rekstrarniðurstaða í árslok verði í takt við áætlun 2021.

Fjárlagafrumvarp 2022 rætt og fjárveitingar til háskólans samkvæmt því. Fjárhagsáætlun fyrir 2022 og stefna ríkisaðila til þriggja ára í því sambandi verður lagt fram á fundi háskólaráðs í janúar.

Forstöðumaður fjármála og greiningar vék af fundi.

2. Þekkingarvörður ehf. – hlutafjáraukning

2112016

Háskólinn á Akureyri hefur óskað eftir heimild fjárlaganefndar til að taka þátt í hlutafjáraukningu í Þekkingarverði ehf. sem er félag í meirihlutaeigu HA sem er þróunarfélag fyrir þekkingarþorp á skipulagssvæði háskólans. Vegna seinkunar á byggingu 6. áfanga við HA eru uppi áætlanir um að byggja í einkaframkvæmd húsnæði. Unnið er að frekari undirbúningi fyrir þróun og uppbyggingu þekkingarþorpsins og í því ferli er nauðsynlegt að auka hlutafé félagsins. Bygging hússins mun efla nýsköpun, vísindi og atvinnulíf á svæðinu ásamt því að vera forsenda fjölgunar hjúkrunarfræði-nema með uppbygginu hermikennsluseturs sem ætlað er að verði í þessu húsi.

Framkvæmdastjóri vék af fundi.

3. Málefni vinnumatssjóðs

2108053

Tillögu og gögnum vinnunefndar háskólaráðs um málefni vinnumatssjóðs vísað til samstarfsnefndar FHA og HA til umfjöllunar og frekari tillögugerðar um mögulegar lausnir á vanda fyrri ára og drög að tillögum um mögulegt framtíðarfyrirkomulag, þ.m.t. mögulegt samkomulag líkt og gildir milli FH og HÍ.

4. Lögreglufræði – umburðarbréf

2110066

Rektor kynnti umburðabréf frá menntamálaráðuneytinu vegna náms í lögreglufræði. Í bréfinu er staðfest að Háskólanum á Akureyri er falin umsjón með námi í lögreglufræðum út skólaárið 2022-2023 og fjármagn og reikniflokkur staðfestur. Ný ákvörðun um framtíð lögreglunáms liggi fyrir eigi síðar en í september 2022. Á sama tíma verður áfram fylgt eftir umbóta- og aðgerðaáætlun gæðaráðs íslenskra háskóla.

5. Stofnunarúttekt

2005025

Stofnunarúttekt fór fram vikuna 22.-26. nóvember sl. Úttektin fór fram í fjarfundum vegna heimsfaraldurs Covid-19 og undirbúningur, skipulag og framkvæmd gekk mjög vel. Úttektarskýrsla og endanleg niðurstaða mun liggja fyrir á vormisseri.

6. Úthlutun rannsóknamissera 2022-2023

2109071

Bragi Guðmundsson formaður rannsóknamisseranefndar kom inn á fundinn og fór yfir umsóknir um rannsóknamisseri 2022-2023 og niðurstöður nefndarinnar. Háskólaráð gerir ekki athugasemdir við niðurstöður nefndarinnar og felur rektor að ljúka úthlutun rannsóknamissera.

Bragi vék af fundi.

7. Umhverfis- og loftslagsstefna Háskólans á Akureyri

2111038

Stefnan samþykkt. Háskólaráð óskar eftir kostnaðargreindri aðgerðaráætlun. Ljóst er að það þarf skuldbindingu af hálfu háskólans til að fylgja eftir þeim markmiðum sem þarna eru sett. Formaður umhverfisráðs kemur á fund háskólaráðs eftir áramót og kynnir stefnuna, markmið og aðgerðaráætlun.

8. Bókfærð mál til samþykktar

  • Endurskoðun námsbrauta í kennaradeild (2111058)
  • Breyting á jafnréttisáætlun (2104008)
  • Kennslualmanak 2022-2023 (2112022)
  • Bókun vegna prófa og námsmats á haustmisseri 2021 (2111056).Eftirfarandi bókun var samþykkt rafrænt þann 18. nóvember 2021, á milli funda háskólaráðs:

„Í ljósi aðstæðna í samfélaginu vegna Covid-19 er ljóst að í einhverjum tilfellum þarf að breyta námsmati og fyrirkomulagi prófa á haustmisseri 2021. Breytingar á  námsmati og fyrirkomulagi lokaprófa skal liggja fyrir í síðasta lagi 22. nóvember næstkomandi. Umsjónarkennarar námskeiða ákveða tilhögun námsmats og nauðsynlegar breytingar á námsmati í samráði við stjórnendur á fræðasviði. Skal leitast við að fara eftir gildandi reglum um námsmat eftir því sem unnt er. Ef gerðar eru breytingar á fyrirkomulagi eða framkvæmd prófs eða öðru námsmati skal námsmat í endurtökupróftíð vera sambærilegt og í reglulegri próftíð.

Nemendur sem staðist hafa námsmat í námskeiði á haustmisseri 2021 geta óskað eftir að fá birtri lokaeinkunn breytt í „staðið“ á námsferli.

Samkeppnispróf verða haldin á próftökustöðum og nemendum skipt upp í hópa í samræmi við fyrirmæli stjórnvalda um fjöldatakmarkanir vegna farsóttar. Ef allir nemendur geta ekki tekið próf á sama tíma vegna fjöldatakmarkana er heimilt að dreifa próftöku yfir daginn.

Ákvarðanir um  framkvæmd prófa og námsmats  eru teknar í samræmi við leiðbeiningar stjórn­valda hverju sinni og er þessi ákvörðun kynnt með það að markmiði að eyða óvissu um fram­kvæmd prófa á haustmisseri til þess að létta álagi af nemendum vegna aðstæðna í samfélaginu vegna COVID-19 .

9. Til fróðleiks og upplýsinga

  • Jafnlaunaúttekt og launagreining (2112030)

10. Endurskoðaðar reglur fyrir Háskólann á Akureyri

2103084

Lögð fram drög að nýjum og endurskoðuðum reglum fyrir Háskólann á Akureyri. Í breytingunum eru faldar tillögur um breytingu á skipulagi háskólans þannig að skólanum verði skipt í tvo skóla í skilningi laga um opinbera háskóla, en í núverandi skipulagi starfar háskólinn sem einn skóli í skilningi laganna. Fyrir fundinum liggja upplýsingar um kynningar og samráð sem farið hefur fram innan skólans, þar á meðal bókun háskólafundar vegna málsins. Samþykkt að fresta fundi og fresta málinu fram í janúar til frekari umræðu og ákvörðunar á framhaldsfundi. 

Fleira ekki gert og fundi frestað kl. 15:00. Samþykkt að framhaldsfundur verði haldinn á fyrstu dögum janúar til að klára umræðu um reglur og skólaskipan.

Fundi fram haldið þann 11. janúar 2021 kl. 14:30

Rektor setti fundinn. Eina málið á dagskrá er framhaldsumræða um drög að nýjum reglum fyrir Háskólann á Akureyri.

Vegna samkomutakmarkana vegna heimsfaraldurs Covid-19 var fundurinn haldinn rafrænt á Teams.

Lagðar fram til umræðu athugasemdir frá fulltrúum háskólasamfélagsins vegna þeirra draga að nýjum reglum sem nú liggja fyrir.

Háskólaráð samþykkir tillögu fulltrúa háskólasamfélagsins að fjöldi fulltrúa fræðasviða á háskólafundi verði átta í stað fimm í ljósi þess að fræðasviðin verða tvö. Kjörnir fulltrúar fræðasviðanna verða því samtals sextán í stað fimmtán.

Tillögu um að setja skilyrði um að rektor hafi að lágmarki dósentshæfi er synjað með 5 atkvæðum gegn 2.

Tillögu um að skilyrða í reglum að embætti rektors sé undantekningalaust auglýst á fimm ára fresti dregin til baka en samþykkt að skoðað verði að setja inn skilyrði um að ef rektor hefur setið í tvö tímabil þá verði embættið auglýst án undantekninga.

Drög að nýjum reglum fyrir Háskólann á Akureyri samþykkt, þar á meðal skipting Háskólans á Akureyri í tvo skóla í skilningi laga um opinbera háskóla og að skólarnir verði nefndir fræðasvið; Hug- og félagsvísindasvið og Heilbrigðis- viðskipta- og raunvísindasvið. Skrifstofu rektors falið að fara í lokavinnslu á nýjum reglum, lokayfirlestur og prófarkalestur og gera þær lagfæringar á skjalinu sem til þarf áður en þær fara í birtingu. Jafnframt verði farið í að undirbúa breytingar á öðrum reglum sem breyta þarf á sama tíma í ljósi nýrra reglna. Gert ráð fyrir að nýjar reglur Háskólans á Akureyri verði birtar í Stjórnartíðindum í síðasta lagi í maí á þessu ári og taki gildi þann 1. júlí nk. Mikilvægt er að gerðar verði ítarlegar tímasettar aðgerðaráætlanir í samstarfi við fræðasviðin og háskólaskrifstofu með það að markmiði að allar breytingar sem fara þarf í vegna nýrra reglna verði komnar í gegn innan tveggja ára.

 

Í lok fundar tilkynnti rektor að hann væri á leið í fjögurra vikna leyfi, þ.e. 13. janúar til 14. febrúar nk. Staðgengill rektors er Elín Díanna Gunnarsdóttir, forseti Hug- og félagsvísindasviðs og mun hún því gegna skyldum rektors á þessu tímabili, sbr. 4. gr. reglna nr. 387/2009 fyrir Háskólann á Akureyri, þar sem kveðið er á um að staðgengill rektors gegni starfinu tímabundið í fjarveru eða forföllum rektors.

Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 17:10.