Fundur var haldinn fimmtudaginn 27. nóvember 2025 á Sólborg, Norðurborg.
Áslaug Ásgeirsdóttir rektor setti fund kl. 13:30.
Mætt voru auk hennar:
Unnar Jónsson fulltrúi ráðherra
Guðmundur Kristján Óskarsson fulltrúi háskólasamfélagsins
Sigríður Sía Jónsdóttir fulltrúi háskólasamfélagsins
Rakel Rún Sigurðardóttir fulltrúi stúdenta
Ottó Elíasson fulltrúi háskólaráðs
Bjarni Smári Jónasson varafulltrúi háskólaráðs
Einnig mætt:
Sindri S. Kristjánsson skrifstofustjóri rektorsskrifstofu, sem ritaði fundargerð
Fjarverandi:
Bryndís Fiona Ford fulltrúi háskólaráðs
Gestir:
Hólmar Erlu Svansson framkvæmdastjóri háskólaskrifstofu
Sólveig Elín Þórhallsdóttir lögfræðingur rektorsskrifstofu
Hólmfríður Lilja Birgisdóttir verkefnastjóri gagnagreiningar og fjárhags
Brynjar Karlsson forseti heilbrigðis,- viðskipta- og raunvísindasviðs
Rektor kynnti dagskrá.
1. Fjármál og rekstur
2502081
Hólmar Erlu Svansson sat fundinn undir þessum lið.
Rekstraryfirlit 2025
Hólmar kynnti yfirlit yfir rekstur háskólans á árinu fyrir tímabilið janúar til október. Litlar breytingar milli mánaða frá því sem áður hefur verið kynnt háskólaráði á árinu. Það sem breyst hefur er aðallega fólgið í leiðréttingum fyrir fræðasvið, m.a. að teknu tilliti til veikinda starfsfólks.
Rætt var um áskoranir í rekstri sértekjueininga, þá sérstaklega þær sem eingöngu eru hýstar hjá háskólanum og tengjast rekstri og starfsemi hans ekki beint.
Fjárhagsáætlun 2026
Rektor kynnti fyrir háskólaráði vinnuna við gerð fjárhagsáætlunar 2026. Erfiðlega gengur að koma saman hallalausri fjárhagsáætlun.
Rektor fór yfir það hvernig það skýtur skökku við að lenda í fjárhagserfiðleikum af þessum toga við það eitt að nemendum fjölgi, en ekkert hefur í grundvallaratriðum breyst í rekstri háskólans milli ára annað en það að nú liggur nýtt reiknilíkan til grundvallar fjármögnun skólans.
Rætt var um hugmyndir um hækkun á innritunargjaldi nemenda í opinbera háskóla. Fulltrúi stúdenta sagði frá afstöðu Landsamtaka íslenskra stúdenta til þessa máls, en landsamtökin leggjast gegn slíkum áformum.
Rektor fór yfir þær aðgerðir sem til athugunar eru til að bregðast við stöðunni.
Rætt var um hugmyndir um nýjar námsleiðir í ljósi þröngrar fjárhagsstöðu. Þá var rætt um fjármögnunarlíkan háskóla sem stjórnvöld styðjast við til að fjármagna íslenska háskólastigið og áhrif þess á vöxt háskóla.
Í umræðum háskólaráðs um stöðuna var samhljómur um að gera þarf öllum sem hlut eiga að máli grein fyrir þessari stöðu. Rektor greindi háskólaráði frá því að unnið væri að minnisblaði til ráðuneytisins þar sem gert er grein fyrir áhrifum óbreyttra fjárveitinga á stöðu skólans.
Í tengslum við umræður um fjárhagsáætlun fyrir árið 2026 bókar háskólaráð eftirfarandi:
Háskólaráð Háskólans á Akureyri lýsir yfir verulegum áhyggjum vegna þeirrar sérstöku stöðu sem háskólinn stendur frammi fyrir, þar sem fjölgun nemenda leiðir til fjárhagserfiðleika í stað þess að styrkja rekstrargrunn skólans. Fjármögnunarlíkanið sem stjórnvöld styðjast við til að fjármagna íslenska háskólastigið hamlar vexti skólanna. Að óbreyttu getur það leitt af sér stöðnun í stað þess að styðja við vöxt og nýsköpun svo sem í námsframboði. Háskólaráð leggur ríka áherslu á að stjórnvöld bregðist við þessari stöðu svo að Háskólinn á Akureyri geti haldið áfram að vaxa og þjóna hlutverki sínu sem mikilvæg menntastofnun á landsbyggðinni.
2. Úthlutun rannsóknamissera 2026-2027
2508168
Sólveig Elín Þórhallsdóttir og Hólmfríður Lilja Birgisdóttir sátu fund háskólaráðs undir þessum lið.
Í upphafi þessa dagskrárliðar vakti Sigríður Sía Jónsdóttir athygli á því að hún teldi sig vanhæfa til að fjalla um þennan lið. Meint vanhæfi var lagt upp til atkvæða fyrir háskólaráð og þar það samþykkt samhljóða. Sigríður Sía vék af fundi háskólaráðs undir þessum lið af þessum sökum.
Sólveig og Hólmfríður gerðu grein fyrir vinnu rannsóknamisserisnefndar og tillögu nefndarinnar um úthlutun rannsóknamissera fyrir næsta skólaár. Þær eiga báðar sæti í rannsóknamisserisnefnd, þar af Sólveig sem formaður.
Rætt var um breytingar sem urðu nýverið á kjarasamningum akademískra starfsmanna þar sem háskólakennarar eiga orðið rétt á rannsóknarmisseri í samræmi við reglur háskólaráðs þar um. Þá var rætt um kostnað við úthlutun rannsóknamissera.
Afgreiðslu frestað.
3. Nýjar og breyttar námsleiðir við heilbrigðis,- raunvísinda- og viðskiptasvið
2510079
Brynjar Karlsson sat fund háskólaráðs undir þessum lið.
Fyrir háskólaráði lágu tillögur frá heilbrigðis,- raunvísinda- og viðskiptasviði háskólans að breytingum á meistaranámi í iðjuþjálfunarfræði ásamt tveimur nýjum námsleiðum – nám í áfengis- og vímuefnavarnaráðgjöf og nám í lagareldi og kynnti Brynjar þessar tillögur á fundinum.
Vegna tillagna um breytinga á meistaranámi í iðjuþjálfunarfræði var sérstaklega tilgreint að sú tillaga er lögð fram með fyrirvara um breytingar á reglugerð um starfsréttindi iðjuþjálfa.
Brynjar vék af fundi háskólaráðs að lokinni sinni kynningu á tillögunum.
Háskólaráð samþykkir tillögu að breytingum á meistaranámi í iðjuþjálfunarfræði. Samþykkið er með fyrirvara um samsvarandi breytingar ráðuneytis á reglugerð um menntun, réttindi og skyldur iðjuþjálfa og skilyrði til að hljóta starfsleyfi, nr. 1221/2012, með síðari breytingum.
Háskólaráð samþykkir tillögu að nýju námi í lagareldi.
Háskólaráð samþykkir ekki að sinni tillögu um nýtt nám í áfengis- og vímuefnaráðgjöf. Það er gert í ljósi þess að svigrúm háskólans til að koma á fót nýjum námsleiðum er eins og sakir standa afar takmarkað vegna nýs fjármögnunarlíkans háskólastigsins. Háskólaráð felur rektor að kanna hvort vilji sé til að skoða frekari aðkomu stjórnvalda, þ.m.t. heilbrigðisráðuneytisins, að fjármögnun námsins.
4. Kvörtun nemanda til háskólaráðs
2510079
Rektor gerði grein fyrir kvörtun nemanda til háskólaráðs í samræmi við 44. gr. reglna Háskólans á Akureyri nr. 694/2022.
Háskólaráð vísar málinu frá og felur rektor að veita kvartanda upplýsingar um að ákvörðunin sé kæranleg til áfrýunarnefndar í kærumálum háskólanema, samkvæmt 20. gr. laga nr. 63/2006 um háskóla, með síðari breytingum.
5. Valkostagreining á Végeirsstöðum
2509111
Frestað.
6. Bókfærð mál til samþykktar
- Breyting á reglum um sértæk úrræði í námi 2511050
- Gæðastefna Háskólans á Akureyri 2511061
Ofangreind mál eru samþykkt.
7. Til fróðleiks
Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 16:19.