Háskólinn á Akureyri gengur til liðs við evrópskt rannsóknanet um gildi og samfélagsbreytingar
Háskólinn á Akureyri er nú þátttakandi í stóru evrópsku rannsóknaneti, Values in Turbulent Times: Navigating Social Changes and Challenges (VISTA), sem á íslensku gæti útlagst sem Gildi á umrótatímum: Tekist á við samfélagsbreytingar og áskoranir. Rannsakendur frá meira en 30 löndum vinna saman að því að kanna hvernig félagslegar, pólitískar og efnahagslegar breytingar hafa áhrif á gildi fólks, traust og félagslega samheldni.
Mehmet Harma, prófessor við Sálfræðideild, er fulltrúi Íslands í stjórn verkefnisins. Fyrsti fundur stjórnar fór fram á skrifstofu COST-samtakanna í Brussel í október síðastliðnum og markaði hann formlega upphaf fjögurra ára verkefnis.
Að skilja gildi í breyttum heimi
Mehmet segir þátttöku sína tilkomna í gegnum Rannís – Rannsóknamiðstöð Íslands, sem tilnefndi hann sem annan af tveimur íslenskum fulltrúum í verkefnið. Markmið VISTA-verkefnisins er að efla þekkingu á því hvernig traust og gildi breytast í ljósi hnattrænna áskorana, svo sem fólksflutninga, ójafnaðar og pólitískrar tvískiptingar.
„Verkefninu er ætlað að dýpka skilning okkar á því hvernig gildi og traust fólks breytast í kjölfar stórra samfélagslegra áskorana,“ segir Mehmet. „Fyrir háskólann felur þetta í sér tækifæri til alþjóðlegs samstarfs, aukins sýnileika og framtíðarverkefna.“ Hann tekur einnig virkan þátt í vinnuhópum sem þróa nýjar leiðir til að mæla og miðla flóknum hugmyndum um gildi og félagslegar breytingar.
„Rannsóknir mínar beinast að gildum, trausti, félagsbreytingum og skynjun á ógn, sem allt tengist stefnu verkefnisins,“ segir Harma. „Ég sá þetta sem gott tækifæri til að tengja háskólann við víðtækara evrópskt net og koma með norrænt og íslenskt sjónarhorn inn í umræðuna um hvernig gildi þróast á tímum samfélagslegra umbreytinga.“
Fjármögnun og samstarfstækifæri
„Netið sameinar sérfræðinga og skapar þverfaglegan vettvang,“ segir Mehmet. Í stjórn VISTA-verkefnisins eiga fulltrúar frá um 30 Evrópulöndum sæti, og hvert land getur tilnefnt allt að tvo meðlimi. Verkefnið sameinar fræðafólk úr sálfræði, félagsfræði, stjórnmálafræði, samskiptum og stuðlar þannig að sterkri þverfaglegri nálgun.
European Cooperation in Science and Technology (COST) styrkir verkefnið og gerir þannig starfsemina mögulega. „Þessi styrkur nær til rannsóknarfunda, vinnustofa, stuttra faglegra heimsókna og miðlunar,“ útskýrir Mehmet. „Einstök rannsóknarverkefni eru ekki styrkt beint, heldur er þessu ætlað að efla samstarf, auðvelda þekkingaryfirfærslu og styðja við þróun milli landa.“
Háskólinn á Akureyri í evrópsku rannsóknasamstarfi
Þátttaka í VISTA undirstrikar vaxandi hlutverk skólans í evrópsku samstarfi á sviði félags- og hegðunarvísinda. Verkefnið mun efla rannsóknargetu, skapa ný tækifæri til stúdenta- og kennaraskipta og koma íslenskum sjónarhornum á framfæri í mikilvægu samtali innan Evrópu. Háskólinn á fulltrúa í nokkrum COST-verkefnum og eru mikil tækifæri fólgin í slíkri þátttöku.
Fyrir frekari upplýsingar um COST-verkefni og VISTA-netið má hafa samband við Adam Fishwick, rannsóknarstjóra við Háskólann á Akureyri.