Reglur um gjaldskrá Háskólans á Akureyri vegna þjónustu við stúdenta og innheimtu og ráðstöfun skrásetningargjalds

Nr. 1211/2020

SAMÞYKKTAR Í HÁSKÓLARÁÐI 19.11.2020

vefútgáfa síðast uppfærð 16.12.2020

Prentgerð (pdf)
Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan
 og í PDF skjali gildir PDF skjalið

 

1. gr.

Öflun tekna til viðbótar við fjárframlög.

Háskólanum á Akureyri er heimilt að afla sér tekna til viðbótar við framlög á fjárlögum. Reglur þessar eru settar af háskólaráði Háskólans á Akureyri samkvæmt 24. gr. laga um opinbera háskóla nr. 85/2008.

2. gr.

Skrásetningargjald.

Skrásetningargjald við skráningu í nám kr. 75.000
Skrásetningargjald, nýskráning á vormisseri kr. 55.000
Leyfi til skrásetningar utan skrásetningartímabils kr. 11.250
Skrásetningargjald, öryrkjar (gegn staðfestingu á örorkumati) kr. 37.500

Með greiðslu skrásetningargjalds staðfestir umsækjandi skólavist við Háskólann á Akureyri. Skrásetningargjald við skráningu í nám nær til heils skólaárs en þeir nemendur sem fá heimild til að hefja nám á vormisseri greiða hluta skrásetningargjalds.

Afsláttur af skrásetningargjaldi er veittur nemendum er búa við örorku eða fötlun gegn staðfestingu á örorkumati.

3. gr.

Skrásetningartímabil og greiðslur.

 1. Þegar umsókn um skólavist hefur verið samþykkt geta umsækjendur greitt skrásetningargjald í gegnum rafræna kortagreiðslugátt eða með greiðslukröfu í netbanka umsækjandans.
  Eindagi skrásetningargjalds er 5. ágúst vegna skrásetningar í nám, þ.e. nýskráningar og áframhaldandi nám. Beri eindaga upp á helgidag eða almennan frídag, færist eindagi til næsta virks dags þar á eftir. Fyrir nýskráningu á vormisseri skal greiða skrásetningargjald fyrir 10. desember og staðfesta þar með skrásetningu sína.
  Skrásetningartímabili lýkur þann 5. ágúst bæði fyrir nýnema og aðra nema.
 2. Greiðsluheimild fellur úr gildi á eindaga, 5. ágúst. Frá 6. ágúst til og með 15. ágúst geta nemendur óskað eftir leyfi til greiðslu á skrásetningargjaldi eftir lok skrásetningartímabils, reiknast þá 15% álag á gjaldið.
  Hafi skrásetningargjaldið auk álags ekki verið greitt þann 15. ágúst er litið svo á að viðkomandi hyggist ekki stunda nám við Háskólann á Akureyri á komandi skólaári. Falli 15. ágúst á helgidag eða almennan frídag, færist frestur til greiðslu á skrásetningargjaldi auk álags til næsta virks dags þar á eftir.
  Viðbótargjald vegna leyfis til skrásetningar utan skrásetningartímabils er ætlað til að mæta aukinni vinnu og kostnaði vegna innritunar.
 3. Alþjóðlegir nemar sem samþykktir hafa verið sem skiptinemar í gegnum áætlanir Nordplus, Erasmus og North2North, eða frá skólum sem eru með tvíhliða samninga við Háskólann á Akureyri, eru undanþegnir greiðslu skrásetningargjalds við HA hafi þeir greitt skrásetningargjald við sinn heimaskóla.
 4. Samþykktir gestanemendur frá opinberum háskólum á Íslandi eru undanþegnir greiðslu skrásetningargjalds hafi þeir greitt skrásetningargjald við sinn skóla.

4. gr.

Endurgreiðsla skrásetningargjalds.

 1. Skrásetningargjald er ekki endurgreitt ef nemandi hættir námi. Skrásetningargjald er ekki endurgreitt, nema að eftirfarandi skilyrðum uppfylltum:
  1. Ef ákvarðanir háskóladeilda eða annarra opinberra aðila raska forsendum stúdents fyrir því að hefja nám. Rökstutt erindi þar að lútandi skal sent nemendaskrá fyrir 5. nóvember vegna haustmisseris en 5. febrúar á vormisseri. Verði erindi þess efnis samþykkt nemur endurgreiðsla einungis 75% skrásetningargjaldsins.
  2. Ef nemandi getur ekki stundað nám vegna veikinda getur hann fengið 75% gjaldsins endurgreitt gegn framvísun læknisvottorðs fram til 5. nóvember á haustmisseri, hefji nemandi nám á haustönn, en 5. febrúar á vormisseri, hefji nemandi nám á vorönn.
  3. Endurgreiðsla afsláttar á skrásetningargjaldi vegna örorku eða fötlunar miðar einungis við yfirstandandi skólaár.

5. gr.

Gjaldskrá vegna aðgangs að húsnæði HA.

Nemendur aðgangsbaunar kr. 2.000
Gestabaun kr. 2.000
Ný baun í stað glataðrar aðgangsbaunar (nemendur og gestir) kr. 2.000
Skilagjald baunar kr. 1.500

Kostnaður felst í baun með örgjörva og skráningarferli.

6. gr.

Gjaldskrá vegna þjónustu bókasafns Háskólans á Akureyri.

 1. Lánþegaréttindi:
  1. Nemendur/starfsmenn kr. 0
  2. Lánþegaréttindi og kort kr. 4.500
 2. Dagsektir:
  1. Mánaðarlán og hálfsmánaðarlán, pr. dag kr. 50
  2. Skammtímalán úr námsbókasafni, pr. dag kr. 100
 3. Millisafnalán:
  1. Bækur frá innlendum söfnum kr. 1.500
  2. Bækur frá Norðurlöndunum kr. 2.500
  3. Bækur frá erlendum söfnum utan Norðurlandanna kr. 3.800
  4. Ljósrit greina, 1-20 bls. kr. 1.500
  5. Ljósrit greina, 21 bls. eða fleiri kr. 2.500
  6. Nemendur Háskólans á Akureyri greiða hálft gjald fyrir millisafnalán
  7. Gjald fyrir rit sem glatast kr. 8.000
 4. Plöstun:
  1. Plöstun á A4 blaði, pr. blað kr. 100
 5. Ljósritun og prentun:
  1. A4 - einstök blöð öðru megin - svart/hvítt kr. 10
  2. A4 - einstök blöð báðum megin - svart/hvítt kr. 15
  3. A3 - einstök blöð öðru megin - svart/hvítt kr. 20
  4. A3 - einstök blöð báðum megin - svart/hvítt kr. 30
  5. A4 - einstök blöð öðru megin - í lit kr. 20
  6. A4 - einstök blöð báðum megin - í lit kr. 30
  7. A3 - einstök blöð öðru megin - í lit kr. 40
  8. A3 - einstök blöð báðum megin - í lit kr. 60

Þjónustugjaldi er bætt við ef starfsmenn prenta fyrir viðkomandi, kr. 10 pr. blað.

Ofangreind gjöld miðast við áætlaðan efnis- og rekstrarkostnað prentara, kostnað vegna korta og prentunar á þau og hefðbundin bókasafnsgjöld svo sem millisafnalán og dagsektir.

7. gr.

Gjaldskrá þjónustuborðs nemendaskrár.

 1. Útprentanir á þjónustuborði:
  1. Vottorð til nemanda kr. 350
  2. Námsferilsyfirlit kr. 350
  3. Námskeiðalýsingar kr. 2.000
  4. Nemendur geta nálgast yfirlit yfir námskeið á námsferli sínum í Uglu án endurgjalds. Við brautskráningu fá nemendur afhent brautskráningarskírteini, brautskráningarferil auk viðauka með prófskírteini á íslensku og ensku.
  5. Óski nemandi eftir staðfestu yfirliti eða vottorði að auki er innheimt gjald fyrir það.
  6. Gjald miðast við áætlaðan prent- og blaðakostnað. Sé óskað eftir gögnum í pósti er póstburðargjald innheimt samkvæmt gjaldskrá Póstsins.
 2. Endurskráning í námskeið:
  1. Endurskráning í námskeið kr. 5.000
  2. Gjald fyrir endurskráningu í námskeið miðast við kostnað vegna vinnu við endurskráningu nemanda í námskeið sem sinnir ekki staðfestingu á skráningu í námskeið á auglýstum tíma á misserinu.

8. gr.

Gjald fyrir próftöku.

Próftökugjald, seinni prófatíð kr. 5.000
Verð miðast við kostnað vegna prófumsýslu, breytileg laun umsjónarmanna, prófgögn, prófgæslu og póstkostnaðar þar sem við á.

9. gr.

Gjaldskrá náms- og starfsráðgjafar.

Bendill áhugakönnun kr. 6.000
Prófkvíðanámskeið kr. 5.000

Verð miðast við umsýslu, aðkeypta þjónustu, efniskostnað auk prentkostnaðar. Sé óskað eftir gögnum í pósti er póstburðargjald innheimt samkvæmt gjaldskrá Póstsins.

10. gr.

Ráðstöfun skrásetningargjalds.

Skrásetningargjaldið er bókfært hjá sameiginlegum rekstri háskólans. Háskólaráð ráðstafar skrásetningargjaldi á þá kostnaðarliði sem falla undir gjaldið lögum samkvæmt.

Skrásetningargjaldi er ráðstafað á kostnaðarliði, skv. meðfylgjandi viðauka, vegna annarrar þjónustu við nemendur sem ekki telst til kostnaðar við kennslu og rannsóknarstarfsemi, vegna kynningarstarfs, nýnemadaga, alþjóðasviðs, þjónustu skrifstofustjóra, aðgangs að tölvukerfi og annarrar upplýsingaþjónustu.

Heimilt er að ráðstafa hlutfalli innheimtra skrásetningargjalda til Stúdentafélags Háskólans á Akureyri og Félagsstofnunar stúdenta í samræmi við gerða samninga við viðkomandi félög.

11. gr.

Umsýslu- og afgreiðslugjald vegna erlendra umsókna.

Umsýslu- og afgreiðslugjald vegna umsókna nemenda með ríkisfang utan Evrópska efnahagssvæðisins, að undanskildum Færeyjum og Grænlandi er EUR 50.

Umsýslu- og afgreiðslugjald tekur mið af vinnu við að taka á móti hverri umsókn, fara yfir hana og tilheyrandi fylgigögn, eiga samskipti við umsækjendur m.a. ef fylgigögn vantar, meta umsókn og afgreiða hana. Miðað er við evrur þegar umsóknirnar koma erlendis frá.

12. gr.

Lagastoð og gildistaka.

Reglur þessar, auk viðauka I, sem samþykktar voru í háskólaráði eru settar með stoð í lögum nr. 85/2008 um opinbera háskóla, sbr. einnig 41. gr. reglna fyrir Háskólann á Akureyri nr. 387/2009 og taka þegar gildi. Jafnframt falla þá úr gildi reglur um gjaldskrá Háskólans á Akureyri vegna þjónustu við nemendur og innheimtu og ráðstöfun skrásetningargjalds nr. 596/2014 með áorðnum breytingum.

Háskólanum á Akureyri, 19. nóvember 2020.
Eyjólfur Guðmundsson rektor.

VIÐAUKI I

Samkvæmt 24. gr. laga nr. 85/2008 um opinbera háskóla er Háskólanum á Akureyri heimilt að afla sér tekna til viðbótar við fjárveitingar á fjárlögum. Upphæð skrásetningargjalds er ákveðin á grundvelli sömu laga og er kr. 75.000 vegna skólaársins 2014-2015. Með vísan til heimildar í sömu lögum hækkar gjaldið um 15% eftir að skráningarfresti lýkur, enda hafi viðkomandi fengið leyfi til innritunar utan auglýsts skrásetningartímabils.

Skrásetningargjald nær til heils skólaárs en þeir nemendur sem fá heimild til þess að hefja nám á vormisseri greiða 55.000 (samkvæmt 30. gr. reglna fyrir Háskólann á Akureyri nr. 387/2009).

Samkvæmt heimild í 24. gr. laga nr. 85/2008 veitir Háskólinn á Akureyri nemendum er búa við örorku eða fötlun 50% afslátt af skrásetningargjaldi gegn staðfestingu á 75% örorkumati.

Samkvæmt heimild í 25. gr. laga nr. 85/2008 ver Háskólinn á Akureyri ákveðnu hlutfalli innheimtra skrásetningargjalda til Stúdentafélags Háskólans á Akureyri (SHA) og Félagsstofnun stúdenta (FÉSTA), samkvæmt samningum við viðkomandi félög.

Ráðstöfun skrásetningargjalds – kostnaðarliðir:

Skrásetningargjald er bókfært á yfirstjórn í samræmi við fjárlög. Innheimtu skrásetningargjaldi er ráðstafað á eftirfarandi kostnaðarliði (sjá a–j hér fyrir neðan) sem falla undir gjaldið samkvæmt 2. mgr. 24. gr. laga nr. 85/2008, þ.e. vegna nemendaskráningar og þá þjónustu við nemendur sem ekki telst til kennslu og rannsóknastarfsemi (sjá nánar lið b–g í 2. gr. laganna).

15% viðbótargjald á skrásetningargjöld utan skrásetningartímabils er ætlað til að mæta aukinni vinnu og kostnaði vegna innritunar utan hefðbundins skrásetningartímabils (sbr. a-lið í grein 1). Áætlað er að slík tilvik kosti að meðaltali um tveggja klst. vinnu.

  1. Kynningarstarf.
   Auglýsingar til kynningar á Háskólanum á Akureyri og námsframboði, 50% af bókfærðum útgjöldum markaðs- og kynningarsviðs Háskólans á Akureyri vegna auglýsinga, kynninga og prentunar á kynningarefni.
  2. Þjónustuborð nemendaskrár, alþjóðasvið, námsráðgjöf, prófaumsýsla, þjónusta skrifstofustjóra.
   Áætluð gjöld (35%) af launakostnaði starfsfólks þjónustuborðs nemendaskrár, miðstöðvar alþjóðasamskipta, miðstöðvar náms- og starfsráðgjafar og skrifstofustjóra fræðasviða HA.
  3. Bókasafn og upplýsingaþjónusta.
   Aðgangur að bókasafni, lesaðstöðu og gagnasöfnum, áætluð gjöld (25%) af rekstri bókasafns og upplýsingaþjónustu.
  4. Skráningarkerfi.
   Áætluð gjöld vegna starfsmanna er annast skráningar í Uglu og meðhöndlun skráningarupplýsinga.
  5. Útsend gögn til umsækjanda/nýnema Að jafnaði áætluð 2 bréf til hvers umsækjanda, 345 kr. pr. bréf (blaða-, prent- og póstkostnaður).
  6. Nýnemadagar.
   Kostnaður vegna undirbúnings og leiðsagnar við móttöku nýnema á „Nýnemadögum“ í upphafi haustmisseris.
  7. Aðgangskort.
   Áætlaður kostnaður vegna nemendaskírteina/aðgangskorta, 2.000 kr. pr. kort.
  8. Aðgangur að tölvukerfi.
   Áætlaður kostnaður vegna aðgangs nemenda að tölvukerfi HA.
  9. Yfirstjórn og aðstaða.
   Reiknuð hlutdeild (12%) í launakostnaði starfsfólks yfirstjórnar auk hlutdeildar (12%) í rekstrarkostnaði húsnæðis að Sólborg og á Borgum.
  10. Framlög til samtaka stúdenta.
   Bókfærð gjöld – framlag til Stúdentafélags Háskólans á Akureyri (SHA). Samkvæmt samningi HA og SHA fær SHA hlutdeild í innheimtum skrásetningargjöldum. Bókfærð gjöld – framlag til Félagsstofnunar stúdenta (FÉSTA). Samkvæmt samningi HA og FÉSTA fær FÉSTA hlutdeild í innheimtum skrásetningargjöldum.

 

B-deild – Útgáfud.: 4. desember 2020