Reglur fyrir Háskólann á Akureyri

NR. 694/2022

SAMÞYKKTAR Í HÁSKÓLARÁÐI 25.5.2022

Með breytingum nr. 572/2023 og nr. 1081/2023.

Vefútgáfa síðast uppfærð 25.10.2023

Prentgerð (pdf)
Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan
 og í PDF skjali gildir PDF skjalið

EFNISYFIRLIT

  1. Gildissvið
  2. Stjórnskipulag Háskólans á Akureyri
  3. Fræðasvið, deildir og stofnanir
  4. Starfsfólk háskóla
  5. Stúdentar við Háskólann á Akureyri
  6. Háskólaárið, nám og kennsla
  7. Almennt um starfsemi háskólans
  8. Gildistaka o.fl.
I. KAFLI

Gildissvið

1. gr. Hlutverk og gildissvið

Háskólinn á Akureyri er sjálfstæð menntastofnun sem heyrir undir háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra.

Reglur þessar eru settar af háskólaráði Háskólans á Akureyri og gilda fyrir Háskólann á Akureyri, þ.m.t. fræðasvið og stofnanir háskólans sem og fyrir allt starfsfólk og stúdenta.

Reglur þessar teljast grundvallarreglur fyrir Háskólann á Akureyri. Þær eru til fyllingar settum lögum sem um háskólann gilda en ganga framar öðrum reglum settum af hálfu háskólans.
Við málsmeðferð og ákvarðanatöku af hálfu háskólans skulu starfsmenn hans jafnan gæta laga, góðra stjórnsýsluhátta, jafnræðis og annarra málefnalegra sjónarmiða.

 
II. KAFLI

Stjórnskipulag Háskólans á Akureyri

2. gr. Skipulagseiningar Háskólans á Akureyri

Háskólinn á Akureyri er sjálfstæð menntastofnun sem heyrir undir háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið en um stöðu og hlutverk háskólans fjallar í lögum.

Háskólaráð ákveður skipan skipulagseininga, hlutverk þeirra, mörk og verkaskiptingu, en sé um grundvallarbreytingar á skipan skólans að ræða ber að afla umsagnar háskólafundar.

Í reglum þessum er nýtt heimild í lögum nr. 85/2008 um opinbera háskóla um heiti skipulagseininga háskóla. Þannig er heitið fræðasvið notað í stað heitisins skóli, forseti fræðasviðs í stað forseti skóla, deildarforseti í stað deildarformaður og stjórn fræðasviðs í stað skólaráð.

Háskólinn starfar sem tvö fræðasvið, samkvæmt ákvörðun háskólaráðs, en háskólaskrifstofa og einingar hennar annast stoðþjónustu fyrir starfsemi háskólans. Fræðasvið samsvarar í þessum reglum því sem nefnt er skóli í lögum um opinbera háskóla, en undireiningar fræðasviða nefnast hér deildir.

Skrifstofa rektors hefur umsjón með málefnum sameiginlegrar stjórnsýslu háskólans og ber ábyrgð á að starfsemi háskólans sé í samræmi við gildandi lög og reglur og góða stjórnsýsluhætti.

Miðstöð doktorsnáms hefur umsjón með doktorsnámi við Háskólann á Akureyri og heyrir undir skrifstofu rektors. Háskólaráð setur reglur um doktorsnám og doktorspróf við Háskólann á Akureyri.

3. gr. Háskólaráð og stjórn Háskólans á Akureyri

Stjórn háskólans er falin háskólaráði og rektor. Háskólaráð hefur æðsta ákvörðunarvald innan háskólans nema mælt sé á annan veg í lögum. Háskólaráð markar heildarstefnu í kennslu og rannsóknum og mótar skipulag háskólans. Háskólaráð fer með almennt eftirlit með starfsemi háskólans í heild, einstakra fræðasviða og háskólastofnana og ber ábyrgð á því að háskólinn starfi í samræmi við lög og stjórnvaldsfyrirmæli. Stjórnsýsla háskólans starfar í umboði rektors og háskólaráðs.

Háskólaráð fer með úrskurðarvald í málefnum háskólans, einstakra fræðasviða og stofnana sem honum tengjast og heyra undir háskólaráð, fræðasvið eða deildir. Ákvarðanir háskólaráðs, samkvæmt lögum um opinbera háskóla og reglum sem háskólaráð setur með stoð í lögunum, eru endanlegar og verður ekki skotið til háskólafundar eða annarra stofnana háskólans til endurskoðunar.

Háskólaráð setur reglur fyrir háskólann eftir því sem nánar er mælt fyrir um í lögum nr. 85/2008 um opinbera háskóla og reglum um háskólann.

Háskólaráð getur leitað umsagnar háskólafundar um hvaðeina sem varðar starfsemi háskólans, fræðasviða hans, deilda og stofnana. Fái háskólaráð til meðferðar málefni er varðar sérstaklega tiltekið fræðasvið skal ráðið leita álits forseta fræðasviðs áður en málefnið er leitt til lykta. Með sama hætti skal háskólaráð leita álits forstöðumanns háskólastofnunar sem ekki heyrir undir fræðasvið.

4. gr. Skipan háskólaráðs

Rektor á sæti í háskólaráði og er hann jafnframt formaður ráðsins.

Í háskólaráði eiga sæti sex fulltrúar auk rektors, tilnefndir til tveggja ára í senn:

a) Tveir fulltrúar háskólasamfélagsins, tilnefndir af háskólafundi.
b) Einn fulltrúi stúdenta, tilnefndur af Stúdentafélagi Háskólans á Akureyri (SHA).
c) Einn fulltrúi tilnefndur af háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra.
d) Tveir fulltrúar tilnefndir af þeim ofangreindu fulltrúum sem fyrir eru í háskólaráði.

Tilnefna skal varafulltrúa fyrir sérhvern fulltrúa í lið a-c og einn varafulltrúa fyrir fulltrúa skv. lið d, með sama hætti.

Tilnefning fulltrúa háskólasamfélagsins skal tekin á dagskrá háskólafundar. Þeir sem tilnefndir eru skulu vera starfsmenn háskólans í fullu starfi. Skilyrði er að annar fulltrúanna sé akademískur starfsmaður. Í kjöri geta ekki verið rektor, forsetar fræðasviða, framkvæmdastjóri háskólaskrifstofu, gæða- og mannauðsstjóri, forstöðumenn eininga háskólaskrifstofu, forstöðumaður Miðstöðvar doktorsnáms og rannsókna og skrifstofustjóri rektorsskrifstofu.

Tilnefning fulltrúa háskólasamfélagsins skal tekin á dagskrá háskólafundar samkvæmt útsendu fundarboði. Samtímis því sem fundarboð er sent út a.m.k. þremur vikum fyrir fund skal jafnframt lýst eftir framboðum. Skulu framboð berast skrifstofu rektors a.m.k. viku fyrir boðaðan fund. Háskólafundur kýs á milli þeirra sem eru í kjöri til að taka sæti sem fulltrúar háskólasamfélagsins í háskólaráði, en fulltrúar stúdenta á háskólafundi hafa ekki atkvæðisrétt um það mál.

Stúdentafélagið annast val á fulltrúa stúdenta í háskólaráð og skal rektor f.h. háskólaráðs kalla eftir tilnefningu af þess hálfu a.m.k. þremur vikum áður en kjörtímabil nýrra fulltrúa hefst. Háskólaráð getur sett frekari reglur um val á fulltrúum háskólasamfélagsins og stúdenta í háskólaráð, en skal rektor þá jafnan afla umsagnar háskólafundar og Stúdentafélagsins áður en slíkar reglur eru settar eða þeim breytt.

Um skipan háskólaráðs og um hlutverk þess að öðru leyti fjallar í lögum um opinbera háskóla.

5. gr. Fundir háskólaráðs

Háskólaráð heldur fundi eftir þörfum. Rektor boðar fundi og stýrir fundum háskólaráðs. Óski þrír fulltrúar í háskólaráði fundar er rektor skylt að boða til hans. Boða skal til fundar í tölvupósti með minnst þriggja daga fyrirvara ef við verður komið. Dagskrá fundar skal fylgja fundarboði.

Háskólaráð er ekki ályktunarbært nema fimm atkvæðisbærir háskólaráðsfulltrúar hið fæsta sæki fund. Ef tilnefndur eða kjörinn fulltrúi getur ekki sótt fund skal boða varafulltrúa hans til setu á fundinum. Afl atkvæða ræður úrslitum mála. Ef atkvæði eru jöfn sker atkvæði rektors úr eða þess er gegnir formennsku á fundinum.

Rita skal fundargerð þar sem ákvarðanir ráðsins eru skráðar. Rektor skal skipa ritara háskólaráðs og lætur birta fundargerðir ráðsins og tilkynningar um ákvarðanir þess.

6. gr. Nefndir og ráð háskólaráðs

Á vegum háskólaráðs og rektors starfa nefndir og ráð. Um fjölda fulltrúa í nefndum eða ráðum og um skipan þeirra fer eftir reglum þar að lútandi sem háskólaráð setur eða erindisbréfum sem rektor gefur út.
Nefndirnar eru ráðgefandi hver á sínu sviði, en fara hvorki með framkvæmda- né ákvörðunarvald, nema sérstaklega sé kveðið á um það í reglum eða erindisbréfi sem háskólaráð samþykkir.

7. gr. Háskólafundur

Háskólafundur er samráðsvettvangur háskólasamfélagsins þar sem fram fer umræða um þróun og eflingu háskólastarfsins, en um hlutverk og heimildir fundarins fjallar frekar í lögum og í reglum.

Á háskólafundi skal taka eftirtalin mál til meðferðar og afgreiðslu eftir því sem við á hverju sinni:

a) Rektor ræðir stefnu háskólans og árangur í starfi hans.
b) Tillögur að ályktunum háskólafundar um einstök málefni sem fyrir liggja.
c) Umsagnir um reglur sem háskólaráð setur og skylt er að bera undir háskólafund, samkvæmt ákvæðum laga um opinbera háskóla.
d) Önnur mál sem löglega eru upp borin.

Háskólaráð getur einnig falið háskólafundi umfjöllun um fagleg málefni og akademíska stefnumörkun.

Háskólafund skal halda a.m.k. einu sinni á ári, en rektor stýrir fundi og boðar til hans. Niðurstöður ályktana af hálfu háskólafundar skulu kynntar á vettvangi háskólans.

Háskólaráð skal setja frekari reglur um hlutverk og skipan háskólafundar.

8. gr. Fulltrúar á háskólafundi

Á háskólafundi eiga sæti rektor, forsetar fræðasviða, deildarforsetar og formaður Stúdentafélags Háskólans á Akureyri. Í forföllum forseta fræðasviðs tilnefnir stjórn fræðasviðs fulltrúa úr sínum röðum en staðgengill deildarforseta situr háskólafund í forföllum deildarforseta og varaformaður Stúdentafélags Háskólans á Akureyri í forföllum formanns Stúdentafélagsins.

Á háskólafundi sitja jafnframt kennarar og sérfræðingar frá fræðasviðum og stofnunum háskólans. Hvert fræðasvið tilnefnir átta fulltrúa og átta varafulltrúa sem skulu kjörnir á fræðasviðsfundi, sbr. 17. gr. þessara reglna, til tveggja ára í senn. Á háskólafundi eiga einnig sæti til tveggja ára í senn tveir fulltrúar samtaka háskólakennara kjörnir úr hópi félagsmanna sem ekki gegna störfum forseta og fimm fulltrúar starfsmanna við stjórnsýslu háskólans. Þá eiga framkvæmdastjóri háskólaskrifstofu og gæða- og mannauðsstjóri sæti á háskólafundi.

Stúdentar háskólans tilnefna eftir kosningu á vettvangi Stúdentafélagsins sjö fulltrúa og jafn marga til vara til setu á háskólafundi til eins árs í senn, en háskólaráð getur þó ákveðið hverju sinni að þeir fulltrúar verði ýmist fleiri eða færri m.t.t. áskilnaðar laga þar um.

Þegar kjör og tilnefning fulltrúa samkvæmt þessari grein er undirbúin skal fylgt ákvæðum í jafnréttisáætlun háskólans um jafna aðild kynjanna að nefndum, stjórnum og ráðum.

Fulltrúar á háskólafundi, aðrir en stúdentar háskólans, eru tilnefndir til tveggja ára.

Fulltrúar í háskólaráði hafa sem slíkir tillögurétt á háskólafundi en ekki atkvæðisrétt. Rektor er heimilt að kveðja til setu á háskólafundi starfsfólk úr stjórnsýslu háskólans, formenn nefnda og ráða og aðra eftir því sem þurfa þykir. Þeir hafa tillögurétt en ekki atkvæðisrétt.

Æski tveir þriðju hlutar fulltrúa á háskólafundi fundar er rektor skylt að boða til hans.

Háskólaráð setur nánari reglur um hlutverk og skipan háskólafundar og um val á fulltrúum á háskólafundi.

9. gr. Rektor

Rektor stýrir starfsemi háskólans og hefur frumkvæði að því að háskólaráð marki sér heildarstefnu í málefnum hans. Hann er yfirmaður stjórnsýslu háskólans og æðsti fulltrúi hans og talsmaður gagnvart aðilum og stofnunum innan háskólans og utan hans. Hann ber ábyrgð á og hefur eftirlit með allri starfsemi háskólans, þ.m.t. ráðningar- og fjármálum einstakra fræðasviða og stofnana. Rektor er formaður háskólaráðs. Hann ber ábyrgð á gerð starfs- og rekstraráætlana og að þær séu samþykktar af háskólaráði. Á milli funda háskólaráðs fer rektor með ákvörðunarvald í öllum málum háskólans. Hann ber ábyrgð á framkvæmd stefnu háskólans og tengslum háskólans við innlenda og erlenda samstarfsaðila.

Rektor ræður framkvæmdastjóra fyrir háskólaskrifstofu og heyrir hann beint undir rektor. Í umboði rektors hefur framkvæmdastjóri háskólaskrifstofu yfirumsjón með starfi og stjórnsýslu háskólaskrifstofu. Framkvæmdastjóri skal undirbúa árlega fjárhagsáætlun og hafa eftirlit með því að rekstur háskólans sé til samræmis við gildandi heimildir hverju sinni. Framkvæmdastjóri skal hafa samvinnu við forseta fræðasviða um fjárreiður þeirra.

Rektor ræður forseta fyrir hvert fræðasvið og forstöðumann Miðstöðvar doktorsnáms og rannsókna og setur þeim erindisbréf. Forsetar fræðasviða hafa yfirumsjón með starfi og stjórnsýslu fræðasviða. Forstöðumaður Miðstöðvar doktorsnáms og rannsókna hefur yfirumsjón með starfi og stjórnsýslu miðstöðvarinnar. Háskólaráð getur heimilað að rektor ráði aðstoðarrektor, einn eða fleiri.

Rektor heldur reglulega samráðsfundi með forsetum fræðasviða og öðrum yfirstjórnendum. Fundirnir eru samráðs- og samstarfsvettvangur sem tryggja samræmingu og samráð á milli fræðasviða, háskólaskrifstofu og rektorsskrifstofu um sameiginleg málefni og miðlæga stoðþjónustu og stjórnsýslu.

Rektor veitir ótímabundin akademísk störf við Háskólann á Akureyri og framgang akademískra starfsmanna. Forseti fræðasviðs veitir tímabundin störf við fræðasvið og stofnanir sem heyra undir fræðasviðið í umboði rektors. Rektor ræður starfsfólk sameiginlegrar stjórnsýslu háskólans og setur því erindisbréf eða starfslýsingar. Framkvæmdastjóri háskólaskrifstofu annast ráðningar starfsmanna háskólaskrifstofu í umboði rektors en undir framkvæmdastjóra heyra forstöðumenn hver á sínu sviði auk annars starfsfólks. Rektor skal sjá til þess að til séu starfslýsingar fyrir allt starfsfólk, að svo miklu leyti sem þær koma ekki fram í lögum eða kjarasamningum.

Rektor tekur ákvörðun í málum sem varða sérstakt hæfi einstakra starfsmanna háskólans til þess að fara með tiltekið mál í stjórnsýslu háskólans, sbr. II. kafla stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Rektor skipuleggur útgáfu ársskýrslu háskólans í samráði við starfslið stjórnsýslu, forseta fræðasviða, deildarforseta og forstöðumenn eininga háskólaskrifstofu og stofnana, eftir því sem henta þykir. Í ársskýrslu háskólans skal vera skýrsla um starfsemi háskólans, stofnanir hans og sjóði svo og um málefni stúdenta. Rektor hefur yfirumsjón með sjóðum skólans og öðrum eignum nema háskólaráð ákveði annað.

10. gr. Skipun rektors

Háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra skipar rektor til fimm ára samkvæmt tilnefningu háskólaráðs, en um skipun rektors við háskólann fjallar í lögum.

Háskólaráð setur reglur um hvernig staðið skuli að tilnefningu rektors. Við val á rektor skal háskólaráð tilnefna þrjá fulltrúa í valnefnd til að meta hæfni umsækjenda og skal einn þeirra tilnefndur sem formaður nefndarinnar. Fulltrúar í valnefnd skulu hafa lokið æðri prófgráðu við háskóla og hafa auk þess marktæka stjórnunarreynslu á háskólastigi.

Hæfni umsækjenda um embætti rektors skal metin í ljósi heildarmats með tilliti til vísinda- og fræðastarfs, ferils sem háskólakennara, stjórnunarreynslu og með tilliti til þess hvernig menntun og reynsla viðkomandi muni nýtast í starfi rektors. Rektor þarf að hafa akademískt hæfi, búa yfir leiðtogahæfileikum og hafa skýra og metnaðarfulla framtíðarsýn fyrir háskólann, ríka samskiptahæfni og víðtæka reynslu af stjórnun og stefnumótun. Engum má veita embætti rektors nema meirihluti valnefndar hafi látið í ljós það álit að viðkomandi teljist hæfur til að gegna starfinu.

Háskólaráð auglýsir lausa stöðu rektors en getur falið skrifstofu rektors að annast framkvæmd þar að lútandi. Ef sitjandi rektor hefur gegnt embættinu í tvö tímabil skal embættið auglýst án undantekninga og auglýsing birt á haustmisseri þess skólaárs sem skipunartíminn rennur út.

11. gr. Skrifstofa rektors

Starfsemi skrifstofu rektors helgast af því að framfylgja lögbundnu hlutverki háskólarektors og gæta heildarhagsmuna Háskólans á Akureyri.

Skrifstofa rektors hefur umsjón með málefnum sameiginlegrar stjórnsýslu háskólans, fundum háskólaráðs, samráðsfundum rektors með forsetum fræðasviða og öðrum stjórnendum, ársfundi háskólans og háskólafundi. Jafnframt heyrir umsjón með stefnumótun og eftirfylgni með stefnum háskólans undir skrifstofu rektors.

Háskólaráði er heimilt að fella ný eða tímabundin verkefni undir skrifstofu rektors.

12. gr. Háskólaskrifstofa

Hlutverk háskólaskrifstofu er að skapa fræðasviðum, deildum, stofnunum og starfsfólki háskólans skilyrði til að vinna störf sín í samræmi við lög og reglur háskólans. Háskólaskrifstofa og starfsfólk hennar annast almenna stjórnsýslu og stoðþjónustu fyrir háskólann, fræðasvið og háskólastofnanir eftir nánara samkomulagi. Undireiningar háskólaskrifstofu eru samkvæmt gildandi skipuriti háskólans á hverjum tíma.

13. gr. Gæðamál

Innra mat á gæðum kennslu og rannsókna fer fram innan háskólans, en ytra mat er á vegum háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytis, samkvæmt lögum og reglum sem um það gilda. Innra mat háskólans og eininga innan hans skal vera reglubundið og snúa að stefnu og markmiðum, inntaki náms, kennslu, kennsluháttum, námsmati, rannsóknum, árangri rannsókna, aðbúnaði, stjórnun og ytri tengslum.

Háskólaráð birtir opinberlega og með reglubundnum hætti upplýsingar um innra matið og niðurstöður þess.

 
III. KAFLI
Fræðasvið, deildir og stofnanir

14. gr. Hlutverk og skipulag fræðasviða

Innan fræðasviða fer fram kennsla, rannsóknir og stjórnun. Háskólaráð ákveður hlutverk, mörk og verkaskiptingu milli fræðasviða, svo og skiptingu í deildir að fenginni tillögu viðkomandi fræðasviða. Fræðasvið eru sjálfstæð um fagleg málefni innan þeirra marka er sameiginlegar reglur háskólans setja.

Fræðasvið eru meginskipulagseiningar Háskólans á Akureyri. Hvert fræðasvið um sig skiptist í deildir sem eru grunneiningar háskólans. Deildir bera faglega ábyrgð á kennslu og rannsóknum og veita kennslu í einstökum greinum í þágu annarra fræðasviða og deilda eftir því sem við verður komið.

Fræðasvið og deildir hafa náið samstarf við háskólaskrifstofu og skrifstofu rektors og skulu stuðla að nánu samstarfi sín á milli til að nýta sem best mannafla, fjármuni, aðstöðu, tæki og búnað.

Fræðasvið háskólans eru eftirfarandi:

a. Heilbrigðis-, viðskipta- og raunvísindasvið.
b. Hug- og félagsvísindasvið.

15. gr. Hlutverk forseta fræðasviðs

Forseti fræðasviðs er yfirmaður fræðasviðsins, stýrir daglegri starfsemi og er akademískur leiðtogi þess og talsmaður innan háskólans og utan. Forseti fræðasviðs ber ábyrgð gagnvart rektor og háskólaráði og er rektor yfirmaður hans. Hann ber ábyrgð á útfærslu stefnu Háskólans á Akureyri á vettvangi fræðasviðsins, öflugri liðsheild og faglegu samstarfi, tengslum við innlenda og erlenda samstarfsaðila, gæðum kennslu, rannsókna og þjónustu. Forseti fræðasviðs ber ábyrgð á stjórnsýslu og stoðþjónustu fræðasviðsins, fjármálum og rekstri deilda og stofnana sem undir það heyra og starfsmannamálum sviðsins, innan þeirra marka sem sameiginlegar reglur háskólans setja. Forseta fræðasviðs er heimilt að skipa starfsnefndir sem eru honum til ráðgjafar, aðstoða við stefnumótun og sinna tilteknum verkefnum samkvæmt erindisbréfi.

Forseti fræðasviðs sker úr um ágreiningsmál sem upp kunna að koma innan fræðasviðsins og stofnana hans, fjallar um agamál stúdenta á fræðasviðinu og önnur mál er varða brot stúdenta á reglum háskólans.

Forseti fræðasviðs situr samráðsfundi ásamt rektor og forsetum annarra fræðasviða. Forseti fræðasviðs ber ábyrgð á skýrslu fræðasviðsins í ársskýrslu háskólans í samráði við rektor.

16. gr. Ráðning forseta fræðasviðs

Rektor ræður forseta fræðasviðs til fimm ára samkvæmt verklagsreglum sem háskólaráð setur og starfar forseti í umboði hans. Rektor er heimilt að kalla starfsmann háskóla til þess að vera forseti fræðasviðs. Forseti fræðasviðs getur að hámarki starfað í tvö ráðningartímabil.

Umsækjendur um stöðu forseta fræðasviðs skulu uppfylla almenn hæfisskilyrði sem akademískt starfsfólk á viðkomandi fræðasviði. Dómnefnd metur hæfni umsækjenda um stöðu forseta fræðasviðs og skal sérstaklega litið til starfsferils, starfsreynslu og menntunar umsækjenda m.t.t. eðlis starfsins. Nánar er kveðið á um hæfniskröfur, ábyrgð og verkefni forseta fræðasviðs í starfslýsingu.

Við mat á umsóknum um starf forseta fræðasviðs er rektor heimilt að líta til sjálfstæðs mats á stjórnunar-, leiðtoga- og samskiptahæfni viðkomandi umsækjenda.

17. gr. Fræðasviðsfundur

Forseti fræðasviðs stýrir fræðasviðsfundi í umboði rektors. Fræðasviðsfundur er samráðsvettvangur þar sem fram fer umræða um innri málefni fræðasviðs. Þá getur háskólaráð leitað umsagnar fræðasviðsfundar um hvaðeina sem varðar starfsemi á viðkomandi fræðasviði.

Fræðasviðsfundur er ályktunarbær um þau málefni sem fundurinn telur að varði hag fræðasviðsins. Ályktanir fræðasviðsfunda skulu kynntar háskólaráði, rektor, forstöðumönnum háskólastofnana og öðrum þeim er þær kunna að varða.

Ákvörðunum háskólaráðs, rektors, forseta eða forstöðumanns háskólastofnunar verður ekki skotið til fræðasviðsfundar.

Á fræðasviðsfundum eiga sæti forseti fræðasviðs, deildarforsetar og staðgenglar þeirra, brautarstjórar og forstöðumenn stofnana sem heyra til fræðasviðsins eða deilda. Þar sitja jafnframt akademískir starfsmenn, háskólakennarar og starfsmenn við stjórnsýslu og stoðþjónustu fræðasviðs. Þá eiga einnig sæti fulltrúar stúdenta hverrar deildar sviðsins.

Fræðasvið getur sett nánari reglur um tilhögun á vali fulltrúa á fræðasviðsfundi.

Rektor, framkvæmdastjóra og gæða- og mannauðsstjóra er heimilt að sitja fræðasviðsfundi og hafa þar málfrelsi og tillögurétt, en fara þar ekki með atkvæðisrétt.

Fræðasviðsfund skal halda minnst einu sinni á misseri.

18. gr. Stjórn fræðasviðs

Forseti fræðasviðs, deildarforsetar og skrifstofustjóri mynda stjórn fræðasviðs, auk fulltrúa stúdenta sem tilnefndir eru af hlutaðeigandi aðildarfélagi Stúdentafélags háskólans. Varafulltrúar í stjórn fræðasviðs eru staðgenglar framangreindra aðalmanna og varamaður stúdentafulltrúa er tilnefndur af aðildarfélagi Stúdentafélagsins. Stjórn fræðasviðs fjallar um sameiginleg málefni sviðsins, þar á meðal ákvarðanir deilda um námsframboð sem og fjárhag og rekstrarafkomu deilda og fræðasviðsins. Enn fremur skal fjallað um mál einstakra stúdenta sem ekki verða leyst á vettvangi deilda.

Forseti fræðasviðs stýrir fundum stjórnar og heldur fundi eftir þörfum. Forseta fræðasviðs er heimilt að tilnefna einn deildarforseta til að stýra fundi stjórnar fræðasviðs í fjarveru forseta. Í fjarveru deildarforseta skal varadeildarforseti sitja fundi stjórnar.

Stjórn fræðasviðs er ekki ályktunarbær nema meirihluti atkvæðisbærra fulltrúa sæki fund. Ef fastur fulltrúi getur ekki sótt fund skal boða varamann hans til setu á fundinum. Afl atkvæða ræður úrslitum mála. Ef atkvæði eru jöfn sker atkvæði forseta úr eða þess er gegnir fundarstjórn í fjarveru forseta. Rita skal fundargerð þar sem ákvarðanir stjórnar fræðasviðs eru skráðar. Forseti fræðasviðs skipar stjórninni ritara.

Stjórn fræðasviðs setur fræðasviðinu nánari reglur og ákveður skipulag þess frekar og gerir tillögu til háskólaráðs um deildaskipan og námsframboð. Á vettvangi stjórnar fræðasviðs skal m.a. ræða og kynna árlega fjárhagsáætlun fræðasviðsins. Rektor og háskólaráð geta falið stjórn fræðasviðs framkvæmd annarra verkefna eftir því sem við á.

19. gr. Hlutverk, starfsemi og stjórn deilda

Deildir eru faglegar grunneiningar háskólans og starfa á vettvangi fræðasviða. Innan þeirra fer fram kennsla, rannsóknir og stjórnun. Deildir eru sjálfstæðar um eigin málefni innan þeirra marka er sameiginlegar reglur háskólans setja og bera faglega ábyrgð á háskólakennslu og námi og veitingu prófgráðu við námslok.

Hver deild fer með málefni kennslugreina sinna, ákveður námsefni og tilhögun kennslu og prófa, ákveður skiptingu kennslu milli einstakra kennara í deild og gerir tillögur til forseta fræðasviðs um ráðningu stundakennara, um nauðsynlegar fjárveitingar og ný störf. Stjórn deildar er í höndum deildarfunda og deildarforseta. Deildarfundur fer með ákvörðunarvald í öllum málefnum deildar samkvæmt reglum þessum. Í tilteknum málum eða málaflokkum er deild heimilt á fundi að framselja ákvörðunarvald til deildarráðs eða deildarforseta.

Innan hverrar deildar er boðið upp á minnst eina námsbraut, en með því er átt við skilgreinda samsetningu námskeiða sem stúdent þarf að ljúka til að hljóta tiltekna námsgráðu.

20. gr. Deildarfundir

Deildarfundur fer með æðsta ákvörðunarvald er varðar kennslu og rannsóknir innan hverrar deildar.

Á meðal helstu verkefna sem heyra undir deildarfund eru:

a) Að móta stefnu um nám og rannsóknir deildarinnar.
b) Að skera úr málum sem varða skipulag kennslu innan deildar.
c) Að fjalla um málefni einstakra stúdenta deildar.

Deildarfundur skal að jafnaði haldinn mánaðarlega og skal deildarforseti gera áætlun um deildarfundi skólaársins og kynna hana fyrir þeim sem eiga þar rétt til setu. Mæting á deildarfundi er hluti af starfsskyldum starfsfólks sem þar á sæti. Skylt er að boða til deildarfundar ef rektor, sviðsforseti eða þriðjungur fulltrúa sem eiga rétt til setu á deildarfundi æskja þess. Deildarforseti boðar fulltrúa með rétt til setu á deildarfundi til fundarins rafrænt, að jafnaði með sjö daga fyrirvara ef unnt er, en fundarefni á dagskrá skal greina í fundarboði.

Deildarfundur er ályktunarbær ef hann sækir 50% atkvæðisbærra fulltrúa úr hópi þeirra sem eru í fullu starfi við viðkomandi deild. Meirihluti atkvæða ræður úrslitum mála. Nú eru atkvæði jöfn og sker þá atkvæði deildarforseta úr. Ákvarðanir deildarfunda skulu færðar til bókar.

Deildarfundur setur reglur um innra skipulag deildar og skulu þær fjalla m.a. um hlutverk deildar- og námsbrautarfunda og um kjör, kjörtímabil og hlutverk deildarforseta og brautarstjóra.

Deildarfundur gerir tillögu til stjórnar fræðasviðs um stofnun eða niðurlagningu námsbrauta, slíkar ákvarðanir þarfnast samþykktar stjórnar fræðasviðs og staðfestingar háskólaráðs.

Deildarfundi er heimilt að setja á fót námsnefndir sem fjalla um og gera tillögur um kennsluskrá, námsskipan og námsgreinar fyrir tilteknar deildir eða námsbrautir. Sé ekki stofnað til námsnefnda skulu deildarfundir eða kennarafundir námsbrauta fara með það hlutverk. Einstökum deildum innan fræðasviðs er heimilt að sameinast um námsnefndir.

21. gr. Skipan deildarfundar

Á deildarfundum eiga eftirtaldir fulltrúar rétt til setu og til að fara með atkvæðisrétt:

a) Deildarforseti, prófessorar, dósentar, lektorar og aðjúnktar ráðnir til starfa hjá viðkomandi deild, í 49% starfshlutfalli eða meira.
b) Aðrir þeir sem deild ákveður.
c) Einn fulltrúi stundakennara innan deildarinnar, tilnefndur af deildarforseta.
d) Að minnsta kosti einn fulltrúi stúdenta úr hverri námsbraut innan deildarinnar, tilnefndur af hálfu viðkomandi aðildarfélags SHA til eins árs í senn.

Fulltrúi skrifstofu fræðasviðs situr deildarfundi með tillögurétt en án atkvæðisréttar.

Deild getur sett nánari reglur um tilhögun á vali fulltrúa skv. liðum c og d.

22. gr. Deildarráð

Heimilt er deild að mynda stjórnarnefnd, deildarráð. Í deildarráði skulu eiga sæti auk deildarforseta brautarstjórar, ef því er að skipta, og tveir fulltrúar stúdenta, kjörnir af félagssamtökum þeirra til eins árs í senn úr hópi fulltrúa stúdenta á deildarfundum. Deildir setja sér nánari reglur um fjölda fulltrúa á deildarráðsfundum. Um atkvæðisrétt og vægi atkvæða í deildarráði fer eftir sömu reglum og gilda á deildarfundi.

23. gr. Hlutverk deildarforseta

Deildarforsetar og deildarfundir bera ábyrgð á kennslu, kennslufyrirkomulagi og þróun náms.

Forseti deildar er æðsti fulltrúi deildar gagnvart mönnum og stofnunum innan háskólans og utan. Deildarforseti ber ábyrgð gagnvart forseta fræðasviðs sem er yfirmaður hans. Forseti deildar er faglegur forystumaður deildar og ber ábyrgð á mótun stefnu fyrir deild, skipulagi náms og gæðum kennslu og rannsókna, tengslum við samstarfsaðila og á því að starfsemi deildar og starfseininga hennar sé í samræmi við fjárhagsáætlun fræðasviðsins.

Deildarforseti situr í stjórn fræðasviðs. Á milli deildarfunda eða funda stjórnar fræðasviðs fer deildarforseti í umboði þeirra með ákvörðunarvald um málefni deildarinnar. Deildarforseta er heimilt að skipa starfsnefndir sem eru honum til ráðgjafar og aðstoða við stefnumótun og sinna tilteknum verkefnum. Í samráði við forseta fræðasviðs hefur deildarforseti umsjón með skýrslu deildar sem hluta af skýrslu fræðasviðs fyrir ársskýrslu háskólans.

Nánar er kveðið á um ábyrgð, hlutverk og verkefni deildarforseta í starfslýsingu sem forseti fræðasviðs setur í samráði við rektor.

24. gr. Kjör deildarforseta

Forseti fræðasviðs skipar deildarforseta til tveggja ára í senn samkvæmt tilnefningu deildarfundar. Deildarforseti skal kosinn af deildarfundi úr hópi akademískra starfsmanna deildarinnar. Einnig skal deildarfundur tilnefna staðgengil deildarforseta til sama tíma. Kosningu skal lokið fyrir 1. mars á því ári sem kjörtímabil sitjandi deildarforseta rennur út og miðast upphaf kjörtímabils við 1. júlí og lok við 30. júní að tveimur árum liðnum.

Deildarforseti skal vera prófessor, dósent eða lektor í fullu stafi við deildina og hafa umtalsverða reynslu af kennslu og rannsóknum, stjórnun og góða innsýn í skipulag og tilhögun náms.

25. gr. Brautarstjórar

Deildum er heimilt að velja sérstaka brautarstjóra til að hafa umsjón með einni eða fleiri námsbrautum innan deildarinnar, að uppfylltum almennum skilyrðum háskólans um lágmarksfjölda nemenda og námseininga brautar. Brautarstjórar eru kosnir á deildarfundi til tveggja ára í senn.

Brautarstjórn felur í sér samskipti við nemendur og forystu um kennslu- og námsþróun.

26. gr. Háskólastofnanir

Háskólaráði, fræðasviðum og deildum er heimilt að starfrækja sérstakar háskólastofnanir og rannsóknastofur. Háskólaráð tekur ákvarðanir um nýjar stofnanir og niðurlagningu starfandi stofnana og aðrar breytingar á þeim. Háskólaráð setur stofnunum reglur um hlutverk, aðstöðu, skipulag, stjórn, starfsfólk, fjármál og annað sem nauðsynlegt er.

 
IV. KAFLI

Starfsfólk háskóla

27. gr. Starfsfólk háskóla

Starfsheiti kennara við Háskólann á Akureyri skulu vera samkvæmt lögum, prófessor, dósent, lektor og aðjúnkt. Akademískt starfsfólk háskólans eru prófessorar, dósentar og lektorar.

Starfsskyldur kennara við háskólann skiptast í þrjá meginþætti: rannsóknir, kennslu og stjórnun. Háskólaráð setur nánari reglur um starfsskyldur kennara við háskólann sem og um leyfi þeirra frá störfum.

Starfsmaður sem eingöngu er ráðinn til vísinda- og fræðistarfa sinnir rannsóknum og stjórnun, en heimilt er að kveða á um að slíkur starfsmaður sinni ákveðinni kennslu. Forseti fræðasviðs ákveður í samráði við deildarforseta hvernig starfsskyldur einstakra kennara eða þeirra sem eru ráðnir til vísinda- og fræðistarfa skiptast innan marka almennra reglna.

28. gr. Stundakennarar

Stundakennarar við Háskólann á Akureyri sinna kennslu og námsmati í samræmi við reglur háskólans og viðkomandi deildar þar um. Skal stundakennsla ekki vera aðalstarf og starfshlutfall stundakennara vera að hámarki 49%. Gera skal skriflegt samkomulag um ráðningu og ráðningarkjör stundakennara sem og kennslu og námsmat í upphafi misseris og til eins misseris í senn.

Háskólaráð setur verklagsreglur um almennt hæfi stundakennara við háskólann og ferli við ráðningu þeirra, sem forseti fræðasviðs tekur mið af við framkvæmd ráðningar.

29. gr. Rannsóknamisseri

Háskólaráði er heimilt að veita háskólakennurum rannsóknamisseri í allt að eitt ár á föstum launum, enda liggi fyrir fullnægjandi greinargerð um það hvernig umsækjandi hyggist verja þeim tíma til að auka þekkingu sína eða sinna sérstökum rannsóknaverkefnum á meðan því stendur. Eftir því sem fjárlög heimila og kjarasamningar gera ráð fyrir getur háskólaráð veitt einstaklingi í rannsóknamisseri styrk til að standa straum af nauðsynlegum ferða- og dvalarkostnaði sem kemur til í sambandi við það.

Háskólaráð skal setja nánari reglur um rannsóknamisseri og styrkveitingar.

30. gr. Ákvörðun um ráðningu

Rektor veitir ótímabundin akademísk störf við háskóla og framgang akademískra starfsmanna. Forseti fræðasviðs veitir, í umboði rektors, tímabundin störf háskólakennara við deildir og stofnanir sem heyra undir fræðasviðið. Forseta fræðasviðs er ekki heimilt að framselja þetta ákvörðunarvald.

Engan má ráða í starf prófessors, dósents eða lektors án þess að meirihluti dómnefndar hafi talið umsækjanda um starfið uppfylla lágmarksskilyrði til að gegna viðkomandi starfi.

Áður en tekin er ákvörðun um ráðningu í akademískt starf skulu umsóknir teknar til umfjöllunar í valnefnd í samræmi við ákvæði 38. gr. reglna þessara. Ekki er skylt að leita umsagnar valnefndar áður en ráðið er í starf sem undanþegið er auglýsingarskyldu. Rektor og forseta fræðasviðs er ávallt heimilt að leita slíkrar umsagnar.

Háskólaráði er heimilt að setja reglur um veitingu starfa en þær skulu einnig afmarka umboð forseta og forstöðumanna.

31. gr. Ráðning

Upphafleg ráðning í starf prófessors, dósents eða lektors við Háskólann á Akureyri skal að öllu jöfnu vera tímabundin og til fimm ára, hvort sem um er að ræða fullt starf eða hlutastarf. Þegar sérstaklega stendur á er heimilt að framlengja tímabundna ráðningu um allt að tvö ár fram yfir fimm ára markið.

Rektor getur þó ákveðið að upphafleg ráðning í starf kennara eða sérfræðings sé tímabundin til skemmri tíma en fimm ára eða ótímabundin, enda hafi fræðasvið eða deild rökstudda ástæðu til þess að víkja frá meginreglu fyrstu málsgreinar þessarar greinar.

Starfsmaður öðlast ekki sjálfkrafa rétt til ótímabundinnar ráðningar að lokinni tímabundinni ráðningu. Rektor tekur ákvörðun um hvort ráðning akademísks starfsmanns verði ótímabundin, að fenginni tillögu dómnefndar háskólans í samræmi við ákvæði reglna um framgang og ótímabundna ráðningu akademískra starfsmanna við Háskólann á Akureyri.

32. gr. Skilgreining starfs

Deild eða stofnun gerir tillögu til forseta fræðasviðs um skilgreiningu akademísks starfs í samræmi við stefnu deildar, fræðasviðs og háskólans. Skilgreining starfs skal ganga út frá einu tilteknu starfsheiti skv. 27. gr. og skal liggja fyrir áður en starf er auglýst. Skýrt þarf að koma fram í auglýsingu hvaða hæfniskröfur farið er fram á að umsækjendur um starfið uppfylli, m.a. með tilliti til fræðasviðs og prófgráða. Í auglýsingu skal koma fram á hvaða sviði starfið á að vera.

Gera skal kröfu um að umsækjendur hafi doktorspróf á viðkomandi fræðasviði frá viðurkenndum háskóla, nema deild eða stofnun telji að því verði ekki við komið. Ef ekki er gerð krafa um doktorspróf skulu umsækjendur hafa þekkingu og reynslu í samræmi við alþjóðleg viðmið fyrir viðkomandi starfsheiti á þeirra fræðasviði, staðfest með áliti dómnefndar. Þeir skulu jafnframt hafa sýnt þann árangur í starfi að þeir njóti viðurkenningar á viðkomandi fræðasviði. Ef fræðasvið eða stofnun telur ekki rétt að gera kröfu um doktorspróf í auglýsingu skal fylgja skýring á því af hverju það er ekki gert þegar auglýsing um starfið er send til skrifstofu rektors.

Starfsmaður er ráðinn til tiltekins fræðasviðs, tiltekinnar deildar við fræðasvið eða stofnun. Rektor og forsetum fræðasviða er heimilt að breyta skilgreiningu starfsins í krafti stjórnunarheimilda.

33. gr. Auglýsing

Laus störf háskólakennara og þeirra sem eru ráðnir til vísinda- og fræðistarfa eru auglýst á sérstöku vefsvæði hjá ríkinu. Að jafnaði skal starf auglýst þannig að umsóknarfrestur sé fjórar vikur frá birtingu auglýsingar.

Skrifstofa rektors annast allar auglýsingar bæði á innlendum og erlendum vettvangi. Allar upplýsingar um laus störf hjá háskólanum skulu vera aðgengilegar á vef háskólans.

34. gr. Undantekningar frá auglýsingaskyldu

Ekki er skylt að auglýsa starf, ef um er að ræða tímabundna ráðningu til afleysinga til tólf mánaða eða skemur, eða ef um er að ræða hlutastarf, þannig að starfið telst ekki vera aðalstarf í skilningi laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Ef ráðið er til afleysinga til tólf mánaða eða skemur er ekki heimilt að framlengja ráðninguna án auglýsingar í samræmi við reglur þessar.

Starf er ekki auglýst þegar um er að ræða framgang eða tilflutning á milli starfsheita samkvæmt ákvæðum laga um opinbera háskóla eða reglna þessara.

Starf er ekki auglýst þegar rektor býður vísindamanni, samkvæmt tillögu fræðasviðs og með samþykki háskólaráðs, að taka við akademísku starfi við skólann, sbr. 2. mgr. 17. gr. laga nr. 85/2008 um opinbera háskóla.

Þá er heimilt að gera undanþágu frá auglýsingu á störfum sem byggja á sérstökum tímabundnum styrkjum, störfum sem tengjast sérstökum tímabundnum verkefnum, störfum sem stúdentar gegna við háskólann samhliða rannsóknatengdu framhaldsnámi og störfum við háskólann sem tengjast tilteknu starfi utan hans á grundvelli samstarfssamnings.

Óheimilt er að taka ákvörðun um ráðningu í starf við Háskólann á Akureyri á grundvelli undanþágu frá auglýsingaskyldu skv. 3. mgr., nema öll eftirfarandi atriði eigi við:

a) Að starfið sé á vettvangi háskóladeildar eða stofnunar, sem skilgreint hafi það með tilliti til meginreglna um hæfniskröfur og starfsskyldur.
b) Að starfið sé tímabundið og lengst til fimm ára eða til tveggja ára ef um framlengingu á tímabundinni ráðningu er að ræða, sbr. 31. gr.
c) Að fjárhagslegur grundvöllur starfsins sé tryggður og starfsaðstaða sem það krefst.
d) Að fyrir liggi að fræðasvið, deild eða stofnun hafi rökstudda ástæðu fyrir því að gera undanþágu frá auglýsingu um starfið, sbr. 4. mgr.
e) Að fyrir liggi hæfisdómur dómnefndar, þegar í hlut á starf prófessors, dósents eða lektors.

35. gr. Umsóknir um starf og meðferð þeirra

Umsóknir um starf eiga að berast til skrifstofu rektors. Æskilegt er að umsóknir og umsóknargögn séu á rafrænu formi. Umsækjendur skulu láta fylgja umsókn sinni vottorð um námsferil sinn og störf, ritaskrá, skýrslu um vísindastörf og önnur störf sem þeir hafa unnið og greinargerð um áform ef til ráðningar kemur. Nánar er kveðið á um umsóknir um akademísk störf og meðferð þeirra í [reglum nr. 724/2023 um nýráðningar akademísks starfsfólks við Háskólann á Akureyri.]1

1) Breytt með reglum nr. 1081/2023

36. gr. Framgangur kennara á milli starfsheita

Rektor er heimilt, án auglýsingar, að flytja lektor í dósentsstarf eða prófessorsstarf og dósent í prófessorsstarf enda liggi fyrir álit dómnefndar háskólans um að viðkomandi uppfylli lágmarksskilyrði til að gegna starfinu og dómnefnd háskólans hafi gert tillögu um að framgangur verði veittur. Um framgang gilda ákvæði [reglna nr. 725/2023 um framgang akademísks starfsfólks við Háskólann á Akureyri.]1

1) Breytt með reglum nr. 1081/2023

37. gr. Skipan dómnefndar

Við Háskólann á Akureyri skal starfa þriggja manna dómnefnd [sem hefur það hlutverk]1 að meta hæfi þeirra sem sækja um akademísk störf eða fá boð um slíkt starf. [Gæta skal þess að í dómnefnd sitji bæði karlar og konur.]2 Rektor skipar dómnefnd samkvæmt tilnefningu háskólaráðs til tveggja ára í senn. Í dómnefnd skal sitja a.m.k. einn fulltrúi sem ekki starfar við Háskólann á Akureyri. [Dómnefnd Háskólans á Akureyri fjallar um umsóknir um akademísk störf, umsóknir um framgang í akademísku starfi og umsóknir um ótímabundnar ráðningar í akademísk störf. Í dómnefnd má skipa þau ein sem lokið hafa doktorsprófi eða hliðstæðu prófi úr háskóla og er miðað við að þau sem skipuð eru í dómnefnd hafi viðamikla reynslu af rannsóknum, kennslu og stjórnunarstörfum. Fastafulltrúar í dómnefnd skulu hafa að lágmarki dósentshæfi, nema formaður, sem skal hafa verið metinn hæfur til að gegna starfi prófessors. Þegar dómnefnd fjallar um umsóknir um stöðu prófessors skal tryggt að allir nefndarfulltrúar sem standa að matinu séu með prófessorshæfi. Sviðsforseti tilnefnir ytri ráðgjafa, hverju sinni, er skal vera dómnefnd til ráðgjafar þegar fræðistörf umsækjenda eru metin. Við sérstakar aðstæður er heimilt að skipa fleiri en einn ytri ráðgjafa.]3

Engan má ráða í starf prófessors, dósents eða lektors án þess að meirihluti dómnefndar hafi talið umsækjanda um starfið uppfylla lágmarksskilyrði til að gegna viðkomandi starfi.

[…]4

1) Breytt með reglum nr. 1081/2023
2) Breytt með reglum nr. 1081/2023
3) Breytt með reglum nr. 1081/2023
4) Breytt með reglum nr. 1081/2023

38. gr. Skipan valnefndar

Í hverri deild skal starfa valnefnd, skipuð af forseta viðkomandi fræðasviðs. Forseta er þó heimilt í samráði við stjórn fræðasviðs að ákveða að ein valnefnd starfi fyrir allt fræðasviðið.

Þegar dómnefnd Háskólans á Akureyri hefur lokið umfjöllun sinni og mati á hæfi umsækjenda um akademísk störf er umsóknum og dómnefndaráliti vísað til valnefndar. Hlutverk valnefndar er að fara yfir umsóknir um akademísk störf við fræðasviðið eða deildina og stofnanir sem undir deildina eða viðkomandi fræðasvið heyra og veita forseta fræðasviðs eða eftir atvikum rektor umsögn um umsækjendur áður en tekin er ákvörðun um ráðningu.

Í valnefnd deildar skulu sitja þrír aðilar. Rektor skipar nefndinni starfsmann og er hlutverk viðkomandi m.a. að halda utan um ráðningarferlið og gæta þess að störf valnefndar séu í samræmi við lög og reglur og góða stjórnsýsluhætti. Í valnefnd má skipa þá eina sem lokið hafa doktorsprófi eða hliðstæðu prófi úr háskóla, nema því verði ekki við komið. Í valnefndum skulu sitja bæði karlar og konur og skal þess gætt að hlutfall kynjanna sé sem jafnast. Í þessu skyni skulu tilnefningaraðilar tilnefna tvo fulltrúa, karl og konu.

Í deildum er skipan valnefndar eftirfarandi:

a. Deildarforseti, sem jafnframt er formaður valnefndar.
b. Einn fulltrúi tilnefndur af deild, skipaður til þriggja ára.
c. Einn fulltrúi, sem deildarráð eða deildarforseti tilnefna hverju sinni og skal viðkomandi vera sérfræðingur á fræðasviði starfsins.

Þegar forseti fræðasviðs ákveður, sbr. 2. málsl. 1. mgr., að skipa til einnar valnefndar fyrir allt fræðasviðið skal hún skipuð með eftirfarandi hætti:

a. Deildarforseti, valinn af forseta fræðasviðs, sem jafnframt er formaður valnefndar.
b. Einn fulltrúi tilnefndur af stjórn fræðasviðs, skipaður til þriggja ára.
c. Einn fulltrúi sem stjórn fræðasviðs tilnefnir hverju sinni og skal hann vera sérfræðingur á sviði starfsins.

39. gr. Málsmeðferð valnefnda

Við val á hæfasta umsækjandanum skal höfð hliðsjón af stefnu deildar og uppbyggingu sem tengist umræddu starfi. Valnefnd er heimilt í mati sínu að taka tillit til þess hversu líklegur umsækjandi er, út frá ferli hans, til að stuðla að þeim markmiðum sem deild og fræðasvið hefur sett sér.

Valnefnd skal að jafnaði boða þá umsækjendur til viðtals sem valið stendur á milli.

Valnefnd er heimilt að afla frekari gagna um umsækjendur. Valnefnd setur sér starfsreglur sem innihalda viðmið um hvaða gögn er að ræða.

Valnefnd getur leitað umsagnar sérfræðinga frá hlutaðeigandi fræðasviði. Valnefnd er heimilt að boða starfsfólk viðkomandi námsbrautar, eða eftir atvikum námsgreinar eða stofnunar, á sinn fund.

Valnefnd getur ákveðið að umfjöllun takmarkist við þá umsækjendur sem best eru taldir uppfylla þau sjónarmið sem leggja ber til grundvallar við veitingu starfsins.

Valnefnd skal meta alla þá þætti sem vísað er til í auglýsingu um starfið.

Formaður valnefndar ber ábyrgð á að útbúa rökstudda umsögn valnefndar. Valnefnd er einungis skylt að rökstyðja val sitt á hæfasta umsækjandanum. Valnefnd getur lagt til að ekki skuli ráðið í starfið enda liggi fyrir því málefnalegar ástæður. Formaður valnefndar skal senda forseta fræðasviðs umsögn valnefndar. Leitast skal við að senda umsögnina innan 30 daga frá því að gögn bárust valnefnd frá dómnefnd.

Í umsögn valnefndar skal felast niðurstaða hennar um það hver úr þeim hópi sem dómnefnd telur að uppfylli lágmarksskilyrði teljist best til þess fallinn að gegna starfinu á grundvelli heildarmats á þeim þáttum sem liggja til grundvallar ráðningu í starfið. Valnefnd skal meta samstarfs- og samskiptahæfni umsækjenda, sé gerð krafa um slíkt í auglýsingu.

Valnefndarálit skal sent til deildarfundar sem tekur afstöðu til álitsins áður en álitið er sent til forseta fræðasviðs, sem tekur ákvörðun um ráðningu.

Telji rektor eða forseti fræðasviðs að valnefndarálit sé ekki í samræmi við lög eða reglur, að málsmeðferð valnefndar samræmist ekki lögum eða reglum eða að valnefndarálit sé að öðru leyti ekki fullnægjandi ber honum að senda álitið aftur til valnefndar sem ber að bæta úr þeim ágöllum. Í bréfi til valnefndar skal greina frá því að hvaða leyti störfum nefndarinnar er ábótavant.

Rektor eða forseta fræðasviðs er heimilt að senda álit aftur til valnefndar ef talin er þörf á því, t.d. ef sá sem nefndin telur að sé best til þess fallinn til að gegna starfinu afþakkar starfið þegar honum er boðið það.

Háskólaráð setur valnefndum verklagsreglur.

 
V. KAFLI

Stúdentar við Háskólann á Akureyri

40. gr. Innritun stúdenta við Háskólann á Akureyri

Inntökuskilyrði:

Rektor, eða forsetar fræðasviða í umboði rektors, bera ábyrgð á innritun stúdenta í háskólann en inntaka stúdenta er þó endanlega á valdsviði háskólaráðs.

Stúdentar sem hefja grunnnám við Háskólann á Akureyri skulu hafa lokið stúdentsprófi, lokaprófi frá framhaldsskóla á þriðja hæfniþrepi eða öðru sambærilegu prófi frá erlendum skóla, eða uppfylla skilyrði um jafn góðan undirbúning samkvæmt reglum deildar sem staðfestar hafa verið af háskólaráði. Deildir setja fram kröfur um inntak lokaprófs frá framhaldsskóla á þriðja hæfniþrepi auk viðbótarkrafna, um undirbúning fyrir einstakar námsleiðir í grunnnámi.

Þeir sem lokið hafa eins árs námi (60 ECTS einingum) frá viðurkenndum háskóla eða skóla á háskólastigi geta talist uppfylla almenn inntökuskilyrði í grunnnám skv. 1. mgr., enda þótt þeir hafi ekki lokið stúdentsprófi eða sambærilegu prófi frá erlendum skóla.

Umsækjanda er heimilt að kæra synjun um innritun til áfrýjunarnefndar í kærumálum háskólanema, samkvæmt 20. gr. laga nr. 63/2006 um háskóla.

Undantekningar frá inntökuskilyrðum:

Heimilt er að veita öðrum en þeim, sem uppfylla framangreind skilyrði, rétt til þess að hefja grunnnám við háskólann, ef þeir að mati viðkomandi deildar búa yfir hliðstæðri þekkingu, færni og reynslu og stúdentspróf veitir. Skal við það miðað að umsækjandi hafi með námi og starfi aflað undirbúnings sem telst sambærilegur við þann sem felst í stúdentsprófi, að viðbættum frekari skilyrðum um undirbúning, skv. reglum deildar ef því er að skipta. Heimilt er að meta starfsreynslu til allt að eins árs náms í framhaldsskóla.

Undanþága frá inntökuskilyrðum veitir einungis leyfi til nýskrásetningar í það nám sem umsækjandi sótti um og á því háskólaári. Veitt undanþága gildir þó áfram þegar stúdent, sem stundar námið í samræmi við reglur háskólans, skráir sig í námskeið við árlega skráningu. Óski stúdent, sem fengið hefur leyfi til að stunda nám á einni námsleið á grundvelli undanþágu, eftir því að stunda nám á annarri námsleið, verður hann að sækja um sérstaka undanþágu til þess og gildir það jafnt þótt námið sé innan sama fræðasviðs eða sömu deildar. Sama gildir ef stúdent gerir hlé á námi sínu um eins árs skeið eða lengur án leyfis viðkomandi deildar.

Aðgangsviðmið:

Háskólaráð setur, að fenginni tillögu viðkomandi fræðasviðs, nánari reglur um inntöku stúdenta í einstakar námsleiðir í grunn- og framhaldsnámi. Í reglum þessum skal meðal annars heimilt að binda aðgang að námsleiðum frekari skilyrðum um undirbúning en fram koma í 2. mgr. þessarar greinar og takmarka fjölda stúdenta í grunn- og framhaldsnám þar sem ekki eru fyrir hendi aðstæður til að veita nema takmörkuðum fjölda fullnægjandi kennslu og þjálfun. Í reglunum komi fram hvaða stúdentspróf eða lokapróf frá framhaldsskóla af þriðja hæfniþrepi, af einni eða fleiri námsbraut framhalds- eða menntaskóla, sé fullnægjandi sem undirbúningur undir viðkomandi grunnnám. Ef almennt stúdentspróf af tiltekinni námsbraut framhalds- eða menntaskóla dugar ekki sem undirbúningur undir nám á tiltekinni námsleið í grunnnámi skal tilgreina nákvæmlega hver viðbótarskilyrðin eru og um inntöku- eða stöðupróf sem viðhöfð eru, ef því er að skipta, eða aðrar aðferðir við að velja úr umsækjendum.

Gerð skal grein fyrir inntökuskilyrðum í meistaranám og doktorsnám í sérreglum um það.

[Fagháskólanám

Þrátt fyrir ákvæði 2. og 3. mgr. skal eftirfarandi gilda um fagháskólanám í tilraunaskyni. Öðrum en þeim sem uppfylla skilyrði um inntöku í grunnnám í Háskólann á Akureyri má í tilraunaskyni heimila að hefja skilgreint fagháskólanám sem skipulagt er af háskóladeild og leitt getur til inntöku í grunnnám til prófgráðu í viðeigandi námsleið. Fagháskólanám er að lágmarki 60 eininga nám á faglegri ábyrgð deildar og að jafnaði skipulagt sem tveggja ára nám með starfi og eftir atvikum 30 eininga starfsþjálfun til viðbótar. Standist nemandi námskröfur fagháskólanámsins getur hann hafið grunnnám til prófgráðu (bakkalárgráðu) í viðeigandi námsleið og fengið 60 eininga fagháskólanámið metið sem hluta af því námi.

Við inntöku í fagháskólanám skal við það miðað að umsækjandi hafi þriggja ára starfsreynslu í viðeigandi starfsgrein og hafi aflað undirbúnings sem telst eftir atvikum sambærilegur við þann sem felst í staðfestri námsbraut fyrir leikskólaliða (leikskólabrú) samkvæmt gildandi aðalnámskrá framhaldsskóla. Hliðstæðar kröfur eiga við um inntöku nemenda í annað fagháskólanám sem kann að verða skipulagt í tilraunaskyni. Við inntöku í fagháskólanám fyrir starfandi sjúkraliða er krafa um að umsækjandi hafi lokið sjúkraliðanámi og hafi gilt starfsleyfi frá Embætti landlæknis. Viðkomandi deild tekur ákvörðun um inntöku í fagháskólanám.]1

1) Breytt með reglum nr. 572/2023

41. gr. Skrásetning nýrra stúdenta og árleg skráning

Móttaka umsókna og skrásetning nýrra stúdenta í nám fer fram á vegum nemendaskrár og er umsóknarfrestur til 5. júní ár hvert, en skráning annarra fer fram 1.-30. apríl, ár hvert. Skráning doktorsnema fer fram samkvæmt sérreglum sem háskólaráð setur. Skráningu stúdenta sem æskja flutnings frá erlendum háskólum skal lokið fyrir 1. maí. Ár hvert skulu aðrir en þeir sem nýskrásettir eru til náms skrá sig í námskeið og greiða þá skrásetningargjald, ella falla þeir út af nemendaskrá og teljast ekki lengur stúdentar við Háskólann á Akureyri.

Beiðni um skráningu nýnema skal fylgja rafrænt staðfest afrit prófskírteina og önnur skilríki sem nánar kann að verða kveðið á um af hálfu viðkomandi fræðasviðs.

Námskeið á vegum háskólans eru ætluð fyrir stúdenta skráða í skólann. Þau standa þó öðrum opin með samþykki umsjónarkennara eða eftir nánari reglum sem háskólaráð setur. Stúdentar hafa ekki rétt til þess að gangast undir próf nema þeir uppfylli skilyrði um inntöku í skólann, hafi greitt skrásetningargjald og séu skráðir í viðkomandi námskeið.

Nú óskar stúdent eftir að gera hlé á námi sínu heilt kennslumisseri eða lengur og skal hann þá leita heimildar viðkomandi háskóladeildar og skrá sig árlegri skráningu, meðan á leyfistíma stendur, enda sé gætt ákvæða um tímamörk náms. Leyfistími getur að hámarki verið eitt ár í senn og lengir ekki hámarksnámstíma samkvæmt reglum viðkomandi deildar.

42. gr. Skrásetningargjald

Við skrásetningu til náms greiðir stúdent skrásetningargjald fyrir hvert háskólaár eins og kveðið er á um í fjárlögum hverju sinni. Þeir einir teljast stúdentar við Háskólann á Akureyri sem skrásettir hafa verið til náms og hafa greitt skrásetningargjald.

Ár hvert skal háskólaráð ákveða skrásetningargjald í samræmi við lög um sem um háskólann gilda. Skrásetningargjald nær til heils skólaárs en þeir stúdentar sem fá heimild til þess að hefja nám á vormisseri greiða hluta skrásetningargjalds. Skrásetningargjald er ekki afturkræft.

Skrásetningargjaldið nemur samanlögðum útgjöldum háskólans vegna nemendaskráningar og þjónustu við nemendur sem ekki telst til kostnaðar við kennslu og rannsóknastarfsemi.

Háskólaráð setur nánari reglur um innheimtu og ráðstöfun skrásetningargjaldsins í gjaldskrá háskólans á Akureyri, sbr. 54. gr. reglna þessara.

43. gr. Réttindi og skyldur stúdenta

Stúdent við Háskólann á Akureyri skal forðast að hafast nokkuð það að í námi sínu eða framkomu innan og utan háskólans sem er honum til vanvirðu eða álitshnekkis eða varpað getur rýrð á nám hans eða háskólann.

Stúdentum er algerlega óheimilt að nýta sér hugverk annarra í ritgerðum og verkefnum, nema heimilda sé getið í samræmi við viðurkennd fræðileg vinnubrögð. Ritstuldur í hvaða formi sem er telst með öllu óheimil háttsemi í námi við Háskólann á Akureyri. Stúdent er óheimilt að leggja oftar en einu sinni fram til eininga ritgerð eða annað fræðilegt efni, í heild eða að stórum hluta, nema með leyfi þess kennara sem í hlut á. Tilvitnanir í eigin, áður útgefin verk, skulu lúta sömu reglum og gilda um tilvitnanir í verk annarra.

Leiki grunur á að stúdent hafi gerst sekur um hegðun sem lýst er í 1. eða. 2. mgr., eða ef stúdent hefur gerst sekur um brot á lögum eða öðrum reglum háskólans, skal vekja athygli deildarforseta á málinu. Ef um er að ræða brot sem til þess er fallið að hafa áhrif á einkunn getur aðeins viðkomandi kennari tekið ákvörðun um slíkt. Deildarforseti skal þó stýra meðferð málsins og undirbúningi, í samráði við kennara. Berist deildarforseta ábending skv. 1. eða 2. mgr. skal þegar tilkynna stúdent um málið og gefa honum hæfilegan frest til að tjá sig um atvik þess, eftir atvikum með skriflegum hætti, enda sé það ekki augljóslega óþarft. Að teknu tilliti til svara stúdents skal taka ákvörðun um hvort um brot stúdents sé að ræða og um áhrif þess á einkunn, ef um það er að ræða. Skal stúdent kynnt niðurstaða deildar skriflega. Deildarforseti sendir þá jafnframt málið eins fljótt og kostur er til sviðsforseta til ákvörðunar um agaviðurlög. Ekki þarf þá að gefa stúdent frekara tækifæri til að tjá sig á vettvangi deildar. Í tilkynningu til sviðsforseta skal koma fram lýsing á ætluðu broti.

Að teknu tilliti til alvarleika brots getur forseti fræðasviðs veitt stúdent áminningu eða vikið honum úr skóla um tiltekinn tíma eða að fullu. Áður en ákvörðun um brottrekstur er tekin skal gefa stúdent kost á að tjá sig um málið. Stúdent er heimilt að skjóta ákvörðun sviðsforseta til áfrýjunarnefndar í kærumálum háskólanema. Málskot frestar framkvæmd ákvörðunar.

Rektor getur að hæfilegum tíma liðnum heimilað stúdent, sem vikið hefur verið að fullu úr skóla, að skrá sig aftur til náms í háskólanum ef aðstæður hafa breyst. Stúdent er heimilt að skjóta synjun rektors um skráningu til áfrýjunarnefndar í kærumálum háskólanema.

44. gr. Ferli kvartana og kærumál stúdenta

Telji stúdent brotið á rétti sínum varðandi kennslu, próf, námsmat, einkunnagjöf, mat á námsframvindu eða annað sem lýtur að kennslu og prófum skal hann senda skriflegt erindi til deildarforseta. Snúi erindi að deildarforseta eða námskeiði sem hann hefur umsjón með skal vísa erindinu til forseta fræðasviðs. Í erindi skal stúdent greina skilmerkilega frá því hvert álitaefnið er, hver sé krafa stúdents og rökstyðja hana. Varði erindi samskipti stúdents og leiðbeinanda við ritun lokaverkefnis skal deildarforseti leita leiða til að ná sáttum á milli aðila eins fljótt og kostur er. Nýr leiðbeinandi skal ekki skipaður nema aðrar leiðir séu ekki færar.

Deildarforseti skal fjalla um álitaefnið svo fljótt sem unnt er og afgreiða það að jafnaði eigi síðar en innan mánaðar frá því að erindið barst. Ef mál er viðamikið og fyrirsjáanlegt að afgreiðsla taki lengri tíma, skal tilkynna hlutaðeigandi það og tilgreina hvenær afgreiðslu sé að vænta.

Deildarforseta ber að afgreiða erindi með formlegu svari, hvort sem það lýtur að ákvörðun um réttindi eða skyldur stúdents í skilningi stjórnsýslulaga eða að öðru leyti að kennslu eða prófum stúdentsins. Deildarforseta er ávallt heimilt að óska eftir afstöðu deildarfundar til erindis. Ef það er gert gilda ákvæði þessarar greinar um málsmeðferð og ákvörðun deildarfundar eftir því sem við á.

Uni stúdent ekki endanlegri ákvörðun deildarforseta um rétt hans eða skyldu getur hann innan 30 daga skotið máli sínu til háskólaráðs. Áður en háskólaráð tekur ákvörðun leitar ráðið álits kærunefndar í málefnum stúdenta við Háskólann á Akureyri. Kærunefnd er skipuð í hverju máli fyrir sig og er skipuð af háskólaráði. Kærunefndin er skipuð þremur aðilum, fulltrúa stúdenta, fulltrúa akademísks starfsfólks og fulltrúa stoðþjónustu og stjórnsýslu, en fulltrúi akademísks starfsfólks skal vera formaður nefndarinnar. Rektor skipar nefndinni ritara úr hópi starfsfólks háskólans og skal ritari jafnan hafa menntun í lögfræði eða opinberri stjórnsýslu.

Háskólaráð setur kærunefndinni nánari reglur.

Ef erindi stúdents til deildarforseta lýtur ekki að málefni sem lokið verður með endanlegri ákvörðun um réttindi hans eða skyldur getur stúdent borið undir nefndina hvort málsmeðferð deildarforseta á skriflegu erindi hans hafi verið í samræmi við lög og vandaða stjórnsýsluhætti og skal nefndin þá veita álit sitt um það efni. Deildarforseti, háskólaráð eða kærunefndin endurmeta ekki prófúrlausnir eða faglega niðurstöðu kennara eða prófdómara.

Ákvarðanir háskólaráðs samkvæmt þessari grein eru kæranlegar til áfrýjunarnefndar í kærumálum háskólanema, samkvæmt 20. gr. laga nr. 63/2006 um háskóla. Áfrýjunarnefndin endurmetur ekki prófúrlausnir eða faglega niðurstöðu kennara, dómnefnda eða prófdómara. Málum verður ekki skotið til áfrýjunarnefndarinnar fyrr en háskólaráð hefur tekið ákvörðun í málinu eða þrír mánuðir eru liðnir frá því að kæra var fyrst lögð skriflega fyrir ráðið. Leiðbeina skal um kæruheimild þegar ákvarðanir samkvæmt þessari grein eru birtar.

 
VI. KAFLI

Háskólaárið, nám og kennsla

45. gr. Háskólaárið

Háskólaárið telst vera frá 1. júlí til jafnlengdar næsta árs.

Kennsluárið skiptist í tvö kennslumisseri, þ.e. haustmisseri og vormisseri og skal haustmisseri lokið í síðasta lagi 21. desember og vormisseri hefjast í fyrsta lagi 3. janúar.

Almennt skal kennsla ekki fara fram miðvikudag fyrir skírdag og þriðjudag eftir annan í páskum né 1. desember, á helgidögum þjóðkirkjunnar eða á öðrum lögboðnum frídögum.

Rektor getur ákveðið að fella niður kennslu á öðrum dögum en hér eru tilgreindir.

Háskólaráð staðfestir með nauðsynlegum fyrirvara og ekki síðar en í febrúar ár hvert, almanak háskólans fyrir komandi skólaár.

46. gr. Kennsluskrá

Hvert svið semur og birtir kennsluskrá, en árlega skal birta kennsluskrá fyrir skólann í heild. Í kennsluskrá skal birt yfirlit yfir námskeið sem kennd eru á viðkomandi skólaári. Auk upplýsinga sem fram koma um einstök námskeið skal kennsluskrá jafnframt tilgreina frekari upplýsingar um umsjónarkennara, námsmat og lesefni í viðkomandi námskeiði sem og á hvaða tungumáli það er kennt.

47. gr. Námsframvinda

Námi við háskólann er skipað í námsleiðir og styttra diplómanám í samræmi við Viðmið um æðri menntun og prófgráður á Íslandi. Hverri námsleið lýkur með prófgráðu sem talin er upp í reglum hverrar deildar. Hver deild getur skilgreint mismunandi áherslusvið innan námsbrauta.

Kennsla skal fara fram í námskeiðum sem eru metin til eininga, en fullt nám á námsári skal samsvara 60 námseiningum (ECTS) og endurspegla alla námsvinnu nemanda, en háskólaráð setur almennar reglur um mat námskeiða til eininga.

Deildum er heimilt að setja stúdentum skilyrði að ljúka beri námskeiði á tilteknu námsári áður en hefja megi nám á næsta námsári í námi og skal þá tilkynnt um slíkt fyrirkomulag.

Hámarkstími í tilteknu námi við háskólann skal vera 50% umfram áætlaðan námstíma, en deildarfundur getur þó veitt undanþágur frá þeim áskilnaði í sérstökum tilvikum. Fræðasvið geta sett sér frekari reglur um námsframvindu sem háskólaráð staðfestir.

Háskólaráð skal setja reglur um undirbúning og skipulagningu nýrra námsleiða eða nýs diplómanáms.

Háskóladeild er heimilt að meta nám sem stúdent hefur stundað utan deildarinnar, þ.m.t. við aðra háskóla, sem hluta af námi við deildina, enda uppfylli námið sambærilegar gæða- og námskröfur og gerðar eru á grundvelli laga.

48. gr. Doktorsnám við Háskólann á Akureyri

Doktorsnám við Háskólann á Akureyri er nám á þriðja háskólaþrepi og lýkur með lokaprófi sem inniheldur rannsóknaverkefni sem stenst alþjóðleg viðmið um doktorsverkefni. Hægt er að stunda doktorsnám í fræðum þar sem nauðsynleg aðstaða og víðtæk sérþekking með alþjóðleg tengsl er fyrir hendi og heimild til doktorsnáms er til staðar.

Markmið doktorsnáms við Háskólann á Akureyri er að veita doktorsnemum þá sérfræðiþekkingu sem nauðsynleg er til að stunda sjálfstæð vísindastörf, afla nýrrar þekkingar og öðlast leikni og hæfni til að gegna störfum sem krefjast þjálfunar og færni í að beita vísindalegum vinnubrögðum, sbr. Viðmið um æðri menntun og prófgráður.

Nánar er kveðið á um doktorsnám, doktorsnámsráð og Miðstöð doktorsnáms og stjórnsýslu rannsókna í reglum sem háskólaráð setur.

 
VII. KAFLI

Almennt um starfsemi háskólans

49. gr. Samvinna innan Háskólans á Akureyri og samstarf við aðra háskóla og samstarfsstofnanir

Fræðasvið háskólans skulu hafa náið samstarf en með samnýtingu mannafla, bókasafns, hugbúnaðar, tækja og aðstöðu skal stefnt að fjölbreyttu námsframboði samfara hagkvæmni í rekstri og má í því skyni nýta starfsskyldu starfsfólks í þágu annarra sviða innan háskólans almennt.

Háskólinn og einstök fræðasvið skulu fyrir sitt leyti hafa samráð og samstarf við aðra skóla á háskólastigi til að nýta sem best tiltæka starfskrafta og gagnakost og stuðla með hagkvæmum hætti að fjölbreyttari menntunarkostum.

Leita ber samkomulags við samstarfsaðila um gagnkvæma viðurkenningu námsþátta auk þess sem háskólanum er einnig heimilt að gera samstarfssamninga við aðrar stofnanir, sem tengjast starfssviði háskólans um kennslu, rannsóknir og ráðningu starfsfólks.

Í samstarfssamningum er heimilt að kveða á um að starfsfólk samstarfsstofnana sem hafa kennsluskyldu við háskólann, en gegna rannsóknaskyldu sinni við samstarfsstofnun, eigi rétt á, eða sé skylt, að dómnefnd meti hæfi þeirra til að gegna þar stöðu lektors, dósents eða prófessors. Njóta þeir þá sambærilegra réttinda og gegna sambærilegum skyldum og lektorar, dósentar eða prófessorar eftir því sem við á þótt ráðning sé við aðra stofnun, enda sé slíkt í samræmi við lög, reglur og kjarasamninga er gilda fyrir samstarfsstofnunina.

Háskólaráð getur sett framgangsreglur fyrir það starfsfólk samstarfsstofnana sem hafa kennsluskyldu við skólann í samræmi við framgangsreglur fyrir kennara við háskólann.

50. gr. Tengsl við almenning

Háskólinn og þar með talið fræðasvið, deildir og stofnanir innan vébanda hans skulu leitast við að miðla fræðslu til almennings og veita þjóðfélaginu þjónustu í krafti þekkingar sinnar.

Háskólinn sinnir símenntun og endurmenntun í þeim fræðum sem kennd eru við háskólann, sbr. 51. gr. þessara reglna, og skulu kennarar hans m.a. hvattir til símenntunar og rannsóknaþjálfunar.

51. gr. Endurmenntun á vegum Háskólans á Akureyri

Deildum er heimilt að bjóða upp á endurmenntun þeirra sem hafa lokið háskólaprófi í þeim fræðum sem viðurkenning háskólans tekur til. Með hugtakinu endurmenntun er átt við eftirfarandi:

a) einstök námskeið fyrir háskólamenntað fólk á fagsviði þess, sem myndað geta samstæða heild og eru faglega á ábyrgð deilda og eftir atvikum metin til eininga. Samstæð heild einingabærra námskeiða gegn gjaldi getur aldrei numið fleiri en 30 einingum í 90 eininga námi á meistarastigi og 40 einingum í 120 eininga námi á meistarastigi,
b) viðbótarnám fyrir háskólamenntað fólk á þverfaglegum grunni sem miðar að skilgreindum námslokum eða prófgráðu og lýtur sérstökum reglum.

Deildum er heimilt að bjóða upp á fræðslu fyrir almenning í þeim fræðum sem viðurkenning háskólans tekur til. Með hugtakinu fræðsla fyrir almenning er átt við eftirfarandi:

a) fyrirlestrar, fræðsla, málstofur og námskeið um tiltekin málefni, sbr. einnig 50. gr.,
b) einstök námskeið eða flokkur námskeiða sem myndað geta samstæða heild og eru á faglegri ábyrgð háskóladeilda og eftir atvikum metin til eininga. Slík námskeið eru einungis opin þeim er uppfylla inntökuskilyrði samkvæmt 40. gr. reglna þessara.

Samstæð heild einingabærra námskeiða gegn gjaldi getur aldrei numið fleiri en 60 einingum.
Endurmenntunarnám og einstök námskeið sem metin eru til eininga, sbr. a-lið 1. mgr. og b-lið 2. mgr., á vegum deilda lúta eftirfarandi skilyrðum:

1. Við inntöku í námið skal nemandi uppfylla inntökuskilyrði samkvæmt 40. gr. þessara reglna. Deild kveður nánar á um inntökuskilyrði í námið og er í samþykktum deildar heimilt að setja strangari inntökuskilyrði.
2. Námið skal í hverju tilviki vera á faglegri ábyrgð háskóladeildar og er henni heimilt að meta það til eininga.
3. Deild er heimilt að semja við þriðja aðila um ákveðin framkvæmdaratriði, s.s. skráningu nemenda, fjárreiður, reikningshald, húsnæði, kynningu o.fl., en fagleg ábyrgð skal ávallt vera hjá deildinni.
4. Deild er heimilt að ákveða að endurmenntunarnámi fyrir háskólamenntað fólk á vegum hennar ljúki með sérstakri prófgráðu. Skal það koma fram í kafla deildar í reglum þessum.
5. Endurmenntunarnám samkvæmt þessari grein er utan við hefðbundið námsframboð deildar. Þó er heimilt að bjóða einstök námskeið á meistarastigi, sem eru hluti hefðbundins náms til prófgráðu, sem endurmenntunarnámskeið gegn gjaldi. Fyrir hefðbundið nám er óheimilt að innheimta annað gjald en skrásetningargjald, sbr. a-lið 2. mgr. 24. gr. laga um opinbera háskóla.
6. Tilskilið er að forseti viðkomandi fræðasviðs heimili kennurum að sinna þessum verkefnum og ákveði hvort þau teljist hluti af starfsskyldum þeirra.

Um gjaldtöku vegna endurmenntunar og fræðslu fyrir almenning á vegum deilda fer eftir e- og f-lið 2. mgr. 24. gr. laga um opinbera háskóla. Háskólaráð skal staðfesta samþykktir deilda um endurmenntun á þeirra vegum og gjaldtöku vegna hennar.

52. gr. Ársfundur Háskólans

Ár hvert skal rektor boða til opins ársfundar þar sem fjárhagur háskólans og meginatriði starfsáætlunar hans eru kynnt og skal rektor auglýsa fundinn með a.m.k. viku fyrirvara.

53. gr. Ársskýrsla Háskólans

Rektor hefur umsjón með að ársskýrsla háskólans komi út fyrir hvert almanaksár.

Í ársskýrslu skal fjallað um starfsemi háskólans, stofnanir hans og sjóði, ráðstöfun fjármuna skólans, um framtíðarsýn og horfur og um málefni stúdenta almennt.

54. gr. Gjaldskrá vegna þjónustu Háskólans

Háskólaráð setur reglur á grundvelli 24. gr. laga um opinbera háskóla um gjaldtöku og ráðstöfun gjalda sem heimilt er að afla til viðbótar við framlög úr fjárlögum.

55. gr. Stjórnunar- og aðstöðugjald

Háskólaráð setur reglur um stjórnunar- og aðstöðugjald sem innheimt er af öllum sértekjum, þar með töldum tekjum stofnana sem undir háskólann heyra. Reglurnar skulu kveða á um innheimtu á stjórnunar- og aðstöðugjöldum af styrkjum úr rannsóknasjóðum, innlendum sem erlendum.

56. gr. Sjóðir

Háskólanum er heimilt að stofna og starfrækja sérstaka rannsókna- og þróunarsjóði. Háskólaráð setur slíkum sjóðum reglur.

 
VIII. KAFLI

Gildistaka o.fl.

57. gr. Gildistaka og breytingar á reglum þessum

Reglur þessar, sem samþykktar voru í háskólaráði 25. maí 2022, eru settar á grundvelli laga nr. 63/2006 um háskóla og laga nr. 85/2008 um opinbera háskóla. Reglur þessar öðlast gildi 1. júlí 2022 og falla þá jafnframt úr gildi reglur nr. 387/2009 fyrir Háskólann á Akureyri. Á sama tíma falla úr gildi reglur nr. 925/2004 um undanþágur frá auglýsingum vegna starfa við Háskólann á Akureyri og reglur Háskólans á Akureyri um viðurlög við ritstuldi, nr. 757/2006 með áorðnum breytingum.

 

Breytingar nr. 572/2023, samþykktar í háskólaráði 25. maí 2023.
Breytingar nr. 1081/2023, samþykktar í háskólaráði 28. september 2023.