86 umsóknir í 20 pláss í fagháskólanám fyrir starfandi sjúkraliða

Háskólinn á Akureyri heldur áfram að stækka
86 umsóknir í 20 pláss í fagháskólanám fyrir starfandi sjúkraliða

Umsóknarfresti um nám við Háskólann á Akureyri lauk 5. júní síðastliðinn. Sérstaka ánægju og athygli vekur hve margar umsóknir bárust í Fagnám til diplómaprófs fyrir starfandi sjúkraliða eða 86 umsóknir alls. Námsleiðin er ný og verður í fyrsta skipti í boði á komandi haustmisseri. Einungis verður hægt að bjóða 20 umsækjendum skólavist en þessa dagana er unnið að því að fara yfir umsóknir og munu umsækjendur fá bréf síðar í mánuðinum. „Margir hafa beðið lengi eftir að þetta nám verði að veruleika. Það er því sérstaklega ánægjulegt að sjá þennan áhuga á náminu. Eftirvæntingin er mikil innan háskólans, hjá forsvarsmönnum Sjúkraliðafélagsins og í samfélaginu fyrir náminu. Við hlökkum mikið til haustsins þegar við tökum á móti fyrstu nemendum á kjörsviði öldrunar- og heimahjúkrunar,“ segir Hafdís Skúladóttir, brautarstjóri Fagnáms sjúkraliða.

Alls bárust Háskólanum á Akureyri tæplega 2.000 umsóknir um grunn- og framhaldsnám fyrir komandi skólaár. Þrátt fyrir að umsóknum hafi fækkað um 13% á milli ára má gera ráð fyrir því að í haust verði háskólinn fjölmennari en nokkru sinni áður: „Stúdentar eru að skila sér vel á milli námsára og við bætist fagnámið fyrir sjúkraliða ásamt fjölgun um 20 pláss í hjúkrunarfræði“, segir Eyjólfur Guðmundsson, rektor Háskólans á Akureyri.

Flestar umsóknir í grunnnám eru í hjúkrunarfræði. Samkeppnispróf verða haldin í desember og munu um 75 stúdentar geta haldið áfram námi á vormisseri 2022. Er það í annað skipti sem 75 stúdentar geta haldið áfram námi á vormisseri, en fjölgun um 20 námspláss tók gildi á vormisseri 2021.

Aldrei hafa fleiri sótt um nám í tölvunarfræði, í samstarfi við Háskólann í Reykjavík. Þar hafa þegar verið samþykktar um 40 umsóknir og er gert ráð fyrir að fjölmennasti stúdentahópur í tölvunarfræði til þessa muni hefja nám í haust.

Háskólinn á Akureyri hefur tekið virkan þátt í átaki stjórnvalda er varðar fjölgun kennaranema og eflingu kennaranáms. Átakið skilar enn árangri þar sem aukin aðsókn er framhaldsnám. Í tveggja ára framhaldsnámi til kennsluréttinda sækjast flest eftir því að fara í meistaranám í kennarafræðum (e. Master of Teaching, MT) þar sem stúdentar taka 30 eininga áherslusvið í stað þess að skrifa 30 eininga lokaverkefni eins og gert er í meistaranámi í menntunarfræðum (e. Master of Education, M.Ed.). 

„Deildirnar eru að yfirfara umsóknir og nú þegar er að byrjað að svara umsóknum. Stefnt er að því að búið verði að svara öllum umsækjendum fyrir föstudaginn 25. júní. Umsækjendur sjá svarið við umsókn inni í umsóknargátt HA og hægt er að ganga frá greiðslu skráningargjalds um leið,“ segir Bára Sif Sigurjónsdóttir, forstöðumaður Nemendaskrár.

Við hlökkum til að taka á móti nýnemum á sérstökum Nýnemadögum vikuna 23. - 27. ágúst.