Vísindafólkið okkar er mánaðarleg kynning á rannsakendum. Vera Kristín Vestmann Kristjánsdóttir, aðjúnkt við Viðskiptadeild, er vísindamanneskja janúarmánaðar.
Úr þorpinu á Akureyri inn í akademíuna
Vera Kristín er Akureyringur í húð og hár, fædd í júlí 1978 og alin upp í bænum. „Fyrstu æviárin bjó ég á brekkunni en flutti svo í þorpið og gekk í Síðuskóla,“ segir hún og bætir við að stúdentsprófið hafi verið tekið við VMA áður en leiðin lá suður í háskólanám.
Upphaflega stefndi hún í læknisfræði og reyndi sig tvisvar sinnum við inntökupróf í Háskóla Íslands, án árangurs. „Ég ákvað þá að prófa eitthvað allt annað og skráði mig í viðskiptafræði við Háskólann í Reykjavík – þrátt fyrir að þekkja varla muninn á debit og kredit,“ segir hún hlæjandi. Sú ákvörðun reyndist vendipunktur. Námið heillaði hana og þegar henni bauðst að kenna dæmatíma í tölfræði á öðru ári opnaðist fyrir henni nýr heimur.
Kennslan greip hana, fyrst samhliða námi og síðar í starfi við HR. Að lokum lá leiðin til Barcelona þar sem hún tók meistaranám í markaðsfræði og lærði spænsku. Fljótlega eftir heimkomu, meðan hún var í fæðingarorlofi með yngri son sinn, bauðst henni staða við Háskólann á Akureyri. „Ég tók hana – og síðan eru liðin 18 ár,“ segir hún.
Kennslan er samtal og samvinna
Í dag kennir Vera Kristín meðal annars markaðsfræði, neytendahegðun og gæðastjórnun, auk þess sem hún hefur komið að kennslu í tölfræði, stærðfræði og mannauðsstjórnun. Í kennslunni leggur hún ríka áherslu á tengingu fræða og raunveruleikans. „Ég vil að nemendur sjái hvernig fræðin nýtast í raun – að þau tengist lífinu sjálfu,“ segir hún.
Það sem henni þykir skemmtilegast við kennsluna er samtalið við nemendur. „Þegar nemendur tengja efnið við eigin reynslu, spyrja gagnrýninna spurninga og sjá sjálfir gildi fræðanna – þá veit ég af hverju ég er í þessu,“ segir hún. Um leið sér hún áskoranir í fjölbreyttum bakgrunni stúdenta og kröfum daglegs lífs. „Nemendur eru oft í vinnu, með fjölskyldu og annað á herðum sér, en þær áskoranir eru líka hvatning til nýsköpunar í kennsluháttum.“
Rannsóknir á námi, námsmati og upplifun nemenda
Rannsóknir Veru Kristínar snúa fyrst og fremst að kennslufræði í háskólanámi, með sérstakri áherslu á námsmat og upplifun nemenda. Hún hefur meðal annars rannsakað hvernig ólíkar matsaðferðir hafa áhrif á þátttöku, nám og dýpri skilning. „Markmiðið er að þróa námsmat sem styður við raunverulegt nám, ekki bara yfirborðsnám,“ útskýrir hún.
Undanfarin ár hefur hún sérstaklega einbeitt sér að munnlegu námsmati og prófum. „Slík matsform geta skapað virkara samtal, aukið tengingu við raunveruleg viðfangsefni og bætt upplifun nemenda af námi,“ segir hún. Að hennar mati er brýnt að rannsaka áfram áreiðanleika og réttmæti námsmats, ekki síst í ljósi aukinnar notkunar gervigreindar. „Við þurfum betri þekkingu á því hvaða matsaðferðir raunverulega styðja við nám og ekki bara frammistöðu – og nýta þær niðurstöður markvisst í þróun kennslu og stefnumótun. Markmiðið á ekki að vera aðeins betra námsmat, heldur betra nám.“
Lífsgleði, fjölskylda og sól í hjarta
Utan vinnu er líf Veru Kristínar ekki síður fjölbreytt. Hún sækir mikla orku í hreyfingu og útiveru – allt frá zumba og lyftingum til hlaupa og skíðagöngu. „Það er ekkert vont veður til, bara rangur klæðnaður og skortur á sól í hjarta,“ segir hún brosandi. Hún hefur tekið þátt í krefjandi skíðagöngum á borð við Tjej Vasan og Vasa30 í Svíþjóð og lýsir því að hafa náð í mark sem algjörum sigri.
Fjölskyldan skipar stóran sess í lífi hennar og er Vera gift þriggja barna móðir. „Maðurinn minn heitir Kári Jóhannesson, kennari í Glerárskóla. Við kynntumst þegar við unnum saman í Slippnum þar sem ég var á verkfæralagernum og hann í verkamanninnum. Ég vissi að hann væri minn sálufélagi um leið og við hittumst. Þá var ég aðeins 18 ára gömul og ég er enn jafn skotin í honum og þegar ég sá hann fyrst.“ Partur af því að stilla saman strengi segir Vera að séu vikulegu hjónakvöldin sem þau hafa haldið í yfir 17 ár.
„Ferðalög með fjölskyldunni eru svo nauðsynlegur hluti af tilverunni enda ótrúlega gaman að ferðast með þeim. Við höfum reyndar farið vandræðalega oft til Tenerife,“ segir Vera en bætir við að elsti sonur þeirra hjóna sé fjölfatlaður og notist við hjólastjól og að Tenerife sé gríðarlega hjólastólavæn eyja. „Við erum samheldin fjölskylda og yfirleitt mikið líf á heimilinu því krökkunum fylgja vinir og svo bættist í hópinn þegar kettlingurinn Zorro flutti til okkar.“
Að því sögðu kveðjum við Veru þar sem hún er kannski á leiðinni að elda dýrindis máltíð, enda góður kokkur að eigin sögn, eða í kaffibolla með vinkonunum.