Umsóknarfrestur framlengdur

Umsóknarfrestur í allt nám nema diplómunám í lögreglufræðum framlengdur til 15. júní
Umsóknarfrestur framlengdur

Ákveðið var að framlengja umsóknarfresti í allt nám við Háskólann á Akureyri til 15. júní, fyrir utan diplómunám í lögreglufræðum sem er 4. maí. Þetta er gert í samráði við mennta- og menningarmálaráðuneytið og aðra háskóla á Íslandi. Markmiðið er að auka aðgengi að háskólum landsins í ljós vaxandi atvinnuleysis sem hlýst af COVID-19-faraldrinum.

HA býður upp á eftirsóknarvert nám og hefur aðsókn í skólann farið stigvaxandi undanfarin ár. Það segir okkur að sveigjanlegt námsformið sem og gæði og framboð náms í HA höfði vel til fólks. Til að tryggja áfram bestu gæði náms mun HA þurfa að beita aðgangstakmörkunum í skólann. Þetta er fyrir utan klásus-leiðir (sálfræði, diplómanám í lögreglufræði og hjúkrunarfræði).

Umsækjendum er bent á að kynna sér inntökuskilyrði og aðgangstakmarkanir sem er að finna á vefsíðum námsleiða og hér. Ekki er hægt að tryggja öllum skólavist þótt þeir uppfylli inntökuskilyrði og er hugsanlegt að grípa þurfi til forgangsröðunar umsókna. Mikilvægt er að umsækjendur skili inn þeim fylgigögnum með umsóknum sem deildir óska eftir.

Þessa dagana eru rafrænar kynningar á námi skólans í fullum gangi. Kynningarnar fara fram á Zoom og geta þátttakendur því spurt spurninga og fengið skýr svör. Nemendur sjálfir munu sjá um að kynna námið og svara spurningum, auk þess sem starfsfólk háskólans verður til taks. Hvetjum við þá sem eru að huga að háskólanámi til þess að kynna sér dagskránna og mæta á þær kynningar sem vekja athygli og forvitni.