Úttekt nefndar á gæðum lögreglufræðináms við Háskólann á Akureyri

Sveigjanlega námsformið greiðir aðgengi að náminu
Úttekt nefndar á gæðum lögreglufræðináms við Háskólann á Akureyri

Gæðaráð íslenskra háskóla hefur nú birt niðurstöður úttektar á gæðum lögreglufræðináms við Háskólann á Akureyri. Úttektin er liður í skipulegu eftirliti ráðsins með gæðum íslenskra háskóla með áherslu á stúdenta, námsumhverfi og prófgráður.

Úttektarnefndin hrósar í úttektinni sérstaklega starfsfólki Háskólans á Akureyri og Mennta- og starfsþróunarsetur lögreglu (MSL) fyrir það stöðuga þróunarstarf sem unnið hefur verið við að festa lögreglunám á háskólastigi í sessi. Háskólinn á Akureyri fékk afar stuttan undirbúningstíma eftir að ákvörðun var tekin um að færa skyldi námið á háskólastig. Nefndin telur að jákvæð og uppbyggileg þróun á náminu hafi verið í gangi allt frá upphafi. Ennfremur hrósar nefndin HA fyrir að hafa komið á fót ráðgjafahópi sem samanstendur af fulltrúum frá hinum ýmsu hagsmunaaðilum. Nefndin telur ráðgjafahópinn mikilvægan vettvang fyrir samtal um þróun námsins.

Meðal þess sem betur má fara samkvæmt skýrslunni er bætt upplýsingaflæði til stúdenta um þá þjónustu sem er í boði og reglur sem gilda um hin ýmsu málefni stúdenta. Þá er ljóst að skapa þarf náminu skýrari umgjörð innan gæðaramma háskólanáms. 

„Í skýrslunni koma fram margar góðar ábendingar um það sem hægt er að bæta í skipulagi námsins og innihaldi þess en þó er ljóst að það mun þurfa aðkomu allra hagsmunaaðila svo unnt verði að ná í gegn þeim meginbreytingum sem nauðsynlegar eru svo sem þróun og skilgreining á hlutverki lögregluþjónsins,” segir Eyjólfur Guðmundsson, rektor Háskólans á Akureyri. Verið er að vinna að aðgerðaráætlun sem skilað verður til Gæðaráðs Háskólanna en þar verður ítarlega kveðið á um þau atriði sem sett verða í framkvæmd á næstu misserum.

„Á heildina litið er mikilvægi þess að færa lögreglunám á háskólastig orðið vel ljóst en námið mun halda áfram að þróast á næstu árum,” segir Eyjólfur jafnframt.

Áhersla á alþjóðlega samvinnu

Í úttektinni kemur fram að nefndin telji það mikinn styrk að alþjóðleg samvinna skuli vera einn af hornsteinum lögreglufræðinnar við HA bæði á sviði menntunar og rannsókna. Sterk tengsl eru við stofnanir í t.d. Noregi, Svíþjóð, Finnlandi og Bretlandi.

Háskólinn á Akureyri hefur þegar brugðist við atriðum úr skýrslunni en mun leggja fram ítarlega aðgerðaráætlun í samráði við ríkislögreglustjóra og MSL.