Fjórir stúdentar við Viðskiptadeild tóku þátt í Blended Intensive Programme (BIP) í samstarfi við Lapland University of Applied Sciences í Rovaniemi, Finnlandi í október 2025. Verkefnið bar heitið „Arctic Leadership Challenge“ og sameinaði nemendur og kennara frá Íslandi, Finnlandi, Portúgal og Slóvakíu í fjölþjóðlegu námi um leiðtogahæfni og skipulagshegðun í norðlægum viðskiptaumhverfum.
Seigla og mannauðsstjórn í íslenskum fyrirtækjum
BIP-verkefni sameina fjarnám og stutta dvöl erlendis og bjóða þannig nemendum upp á alþjóðlega reynslu án þess að skuldbinda sig til heils misseris í skiptinámi. Fyrirliggjandi undirbúningur fór fram með rafrænu samstarfi milli þátttökuskóla og lauk með viðburðaviku í Rovaniemi aðra vikuna í október, þar sem nemendur unnu saman í alþjóðlegum teymum.

Áherslan í verkefninu var á leiðtogahæfni, fjölmenningarleg samskipti, siðferðileg forysta, vellíðan starfsfólks og nýsköpun í mannauðsmálum.
Stúdentarnir frá HA, Arnór, Elfa, Josefine og Ragnheiður, kynntu verkefnið sitt undir heitinu „Resilience Strategies & HR Innovation – Lessons from Iceland to Lapland“. Í verkefninu rannsökuðu þau seiglu og mannauðsstjórnun í íslenskum fyrirtækjum á afskekktum svæðum og drógu fram lærdóm sem nýtist fyrir Apukka Resort, samstarfsfyrirtæki verkefnisins í Finnlandi.
Kennari stúdentanna, dr. Verena Karlsdóttir, tók þátt í kennslu og verkefnastjórnun í samstarfi við Mari Angeria og Jenni Kemi frá háskólanum í Lapplandi, Anna Lasakova og Lenka Procházková frá Comenius University í Bratislava og João Farinha frá ISLA Santarém í Portúgal.
Tóku í höndina á jólasveininum
Auk vinnu á háskólasvæðinu í Rovaniemi fengu nemendur tækifæri til að heimsækja finnsk fyrirtæki, kynnast norrænni menningu og upplifa náttúru Lapplands, þar á meðal heimsókn í Santa Claus Village þar sem þau hittu jólasveininn.

„Það var einstakt að vinna með nemendum frá fjórum löndum að raunverulegu viðfangsefni fyrirtækis á norðurslóðum. Verkefnið undirstrikaði mikilvægi menningarskilnings, skapandi hugsunar og seiglu í alþjóðlegu samstarfi,“ segir Verena að lokum.
Verkefnið var styrkt af Erasmus+ áætlun Evrópusambandsins og veitti nemendum bæði fræðilega og hagnýta reynslu af því að starfa í fjölþjóðlegum teymum í síbreytilegu vinnuumhverfi.