Hjúkrunarfræðideild Háskólans á Akureyri tekur þátt í alþjóðlegu örnámskeiði (e.Blended Intensive Program/BIP) í samstarfi við tvo háskóla, University of South Eastern Norway/USN og Escola Superior De Saude/ESS Lisboa í Portúgal.
Nemendur leysa margvísleg tilfelli með hjálp sýndarveruleika
Markmið námskeiðsins er að kenna hermikennslu og heilsufarsmat með aðstoð hugbúnaðar sem heitir Body Interact. Háskólarnir í Noregi og Portúgal hafa þegar tileinkað sér þessa tækni og nota sýndarveruleika til að bjóða nemendum og kennurum upp á fjölbreytt raunhæf tilfelli. Þrír starfskraftar við hjúkrunarfræðideild HA, Þórhalla Sigurðardóttir aðjúnkt, Kolbrún Sigurlásdóttir aðjúnkt og verkefnastjóri klíníks náms, og Anna Karen Sigurjónsdóttir verkefnastjóri við færni- og hermiseturs hafa áhuga á að innleiða þessa kennslunýjung við hjúkrunarfræðideildina við HA.
Hjúkrunarfræðideild HA í fremstu röð
„Þessi byltingarkennda kennslunýjung mun opna dyr að nýjum heimi fyrir hjúkrunarnema okkar, þar sem þeir munu fá að kynnast hjúkrun einstaklinga sem þeir ef til vill hafa ekki tök á að kynnast í klínísku námi. Það er stuðningur við þessa spennandi þróun hjá hjúkrunarfræðideild, og við erum að leggja okkur fram um að fylgjast ítarlega með nýjustu straumum í kennslu og fræðum. Við erum einnig óendanlega þakklát fyrir okkar frábæru hjúkrunarnema sem eru tilbúnir að stíga inn í þessa ævintýralegu vegferð og deila sinni þekkingu á námskeiðinu,“ segir Þórhalla, full af eldmóði um þátttöku deildarinnar í þessu nýja verkefni.

Þátttakendur hittast í netheimum og í Noregi
Í námskeiðinu taka þátt 26 nemendur og 9 kennarar frá þremur löndum. Nemendur og kennarar hittast á netinu og í staðarlotu í Noregi. Kennslan fer fram í námsumhverfinu Google Classroom og er námskeiðið styrkt af Erasmus+. Það er metið til 4 ECTS-eininga og hefst í september.