Forseti Íslands bauð til móttöku í tilefni 1. desember
Þau Aldís Mjöll Hlynsdóttir og Hilmar Örn Sævarsson, stúdentar við HA, heimsóttu forseta Íslands á Bessastaði 1. desember síðastliðinn. Aldís og Hilmar eru forsetar aðildarfélaga SHA, Stúdentafélags Háskólans á Akureyri. Aldís er forseti Stafnbúa, félags stúdenta við Auðlindadeild, og Hilmar er forseti Kumpána, félags stúdenta við Viðskiptadeild.
Með þeim í för var Brynjar Karlsson, forseti Heilbrigðis-, viðskipta-, og raunvísindadeildar. Tilefnið var fullveldisdagurinn sem jafnframt er dagur stúdenta. Af því tilefni hefur forseti Íslands jafnan boðið fulltrúum háskólasamfélagsins til móttöku að Bessastöðum.
Í ávarpi sínu ræddi forseti meðal annars framfarir á sviði gervigreindar og þær áskoranir sem þeim fylgja fyrir menntakerfið og samfélagið allt. Orð forsetans áttu vel við gestina frá Háskólanum á Akureyri, þar sem SHA og háskólasamfélagið hafa unnið markvisst að þróun og innleiðingu á ábyrgu og framsæknu verklagi í notkun gervigreindar. Á dögunum var svo samþykkt heildstæð stefna um ábyrga notkun gervigreindar við HA.
Starf stúdenta er lífæð háskólans og gegna þeir mikilvægu hlutverki innan hans. Fulltrúar stúdenta eiga sæti í Gæðaráði og Háskólaráði og sinna jafnframt mikilvægum störfum sem lúta að alþjóðamálum, kynningum og viðburðum. Innan háskólans starfa sjö aðildarfélög SHA.
Hægt er að lesa meira um starfsemi SHA á vefsíðu félagsins og hér má lesa ofangreinda stefnu.