Háskólahátíð – brautskráning frá Háskólanum á Akureyri 2023 fer fram dagana 9. og 10. júní
Háskólahátíð – brautskráning frá Háskólanum á Akureyri fer fram dagana 9. og 10. júní í Hátíðarsal Háskólans á Akureyri. Athöfnunum verður einnig streymt á Facebook-síðu Háskólans á Akureyri. Herra Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, er heiðursgestur hátíðarinnar í ár og mun hann ávarpa kandídata sem brautskrást úr grunnnámi á laugardeginum 10. júní.
„Frá árinu 2014 hefur Háskólinn á Akureyri boðið heiðursgesti að ávarpa kandídata á þessum merkisdegi. Þessi siður hefur heppnast vel og nú bætist forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, í öflugan hóp heiðursgesta. Hr. Guðni Th. Jóhannesson er þó ekki einungis forseti landsins heldur og virkur fræðimaður ásamt því að vera vel kunnugur háskólum landsins og alþjóðlegu háskólasamfélagi. Það fer því sérstaklega vel á því að hann veiti kandídötum heilræði nú þegar þau standa á merkum tímamótum í lífi sínu - tímamótum sem háskólamaðurinn og prófessorinn Guðni Th. þekkir vel. Það er okkur því mikill heiður að forseti okkar allra hafi þegið boð um að vera heiðursgestur háskólahátíðar Háskólans á Akureyri árið 2023,‘’ segir Eyjólfur Guðmundsson, rektor Háskólans á Akureyri.
Nánari upplýsingar um dagskrá Háskólahátíðar má nálgast hér:
Þá munu Góðvinir Háskólans á Akureyri standa fyrir endurfundum útskriftarárganga 2022, 2018, 2013, 2008, 2003, 1998 og 1993 á föstudeginum klukkan 17:00 í Kaffi Borg – matsal HA. Nánari upplýsingar um endurfundina má nálgast hér.