„Hvað nú?“ Nýsköpun og dauðinn

Guðrún, stúdent í sálfræði við Háskólann á Akureyri - þátttakandi í Snjallræði og Gullegginu og styrkhafi Atvinnumála kvenna.
„Hvað nú?“ Nýsköpun og dauðinn

„Ég ákvað að fara í sálfræðinám við HA því ég var búsett í Dublin á Írlandi þegar ég valdi mér skóla og HA bauð upp á gott aðgengi að faglegu fjarnámi,“ segir Guðrún aðspurð út í ástæðu hennar á vali á háskóla. „Á Íslandi er þó fátt um fína drætti þegar kemur að áföngum sem tengjast dauðanum og sorginni sem honum fylgir og því leitaði ég utan landsteinanna og fann 30 eininga námskeið sem heitir Death, dying and bereavement í The Open University í Bretlandi sem ég tók meðfram náminu í HA. Ég fékk hluta af því metið inn í námið í HA og þannig studdi skólinn mig í að sækja mér valáfanga á mínu áhugasviði og ég sé ekki eftir valinu.“

Guðrún er ein þeirra sem komst inn í meistaranám í klínískri sálfræði við Háskólann í Reykjavík þar sem hún mun hefja nám í haust. Áhugasvið hennar tengist því að vinna með fólki og aðstandendum sem standa frammi fyrir lífsógnandi sjúkdómum.

Erfið lífsreynsla leiðir til góðra verka

Áhugi Guðrúnar á þessum málum er að vissu leyti til kominn vegna persónulegra ástæðna en hún, eins og svo margir aðrir, hefur misst náinn ástvin. „Dauða ástvinar fylgir ekki aðeins tilfinningalegur sársauki heldur einnig fjölmörg praktísk verkefni. Þessi staðreynd varð mér ljós þegar ég missti æskuvinkonu mína árið 2021, og aftur þegar Erna vinkona mín missti föður sinn síðasta sumar. Þessi reynsla okkar varð kveikjan að verkefni sem ber nafnið „Hvað nú?“ en markmið þess er að hjálpa syrgjandi aðstandendum að takast á við flókin verkefni í kjölfar andláts ástvinar.“

Haustið 2024 ákvað Guðrún að setja hugmyndina að „Hvað nú?“ niður á blað og sækja um í Snjallræði sem er 16 vikna vaxtarými fyrir samfélagstengd verkefni og HA er einmitt einn þeirra háskóla sem standa að Snjallræði. „Þar fékk ég ábendingu um að betra væri að vera í teymi og fékk ég þá Ernu til að koma í verkefnið með mér og er hún reynslumikill hjúkrunarfræðingur og hefur meðal annars starfað á gjörgæsludeild. Við vorum eitt tíu teyma sem valið var til þátttöku og þar fengum við leiðsögn sérfræðinga frá MIT og fleirum til að útfæra hugmyndina sem var ótrúlega gagnlegt. Á þessum tímapunkti fólst hugmyndin fyrst og fremst í því að byggja upp stafrænan upplýsingabanka með tímalínu og skýrri forgangsröðun til að hjálpa fólki í gegnum þau fjölmörgu verkefni sem fylgja í kjölfar andláts,“ útskýrir Guðrún og segir að enginn vilji vera sérfræðingur í að missa ástvin en þær vonist til að „Hvað nú?“ geti verið til staðar fyrir syrgjandi aðstandendur á þessum erfiðu tímum í lífi þeirra.

Sorgin byrgir sýn og ferlið er nú þegar flókið

„Að missa ástvin er ein allra erfiðasta lífsreynsla sem við göngum í gegnum. Auk tilfinningalegs sársauka þá er ferlið sem tekur við í kjölfar andláts afar flókið, upplýsingar oft óaðgengilegar, verkefnin óskýr og dreifð milli margra stofnana og þannig mætti áfram telja. Oft eru tímamörk á réttindum sem fólk getur sótt í kjölfar andláts og ekki augljóst hvar á að sækja réttindin hvort sem um ræðir opinberar stofnanir, lífeyrissjóði, tryggingafélög eða annað. Við heyrum fólk oft tala um að það þurfi að hringja á marga mismunandi staði og endurtaka aðstæður sínar fyrir mörgum ókunnugum aðilum en allt getur þetta verið afar íþyngjandi á þessum erfiðu tímum. Við viljum lágmarka þessa byrði með því að aðstoða syrgjandi aðstandendur við bæði sálræn og praktísk verkefni sem tengjast andláti ástvina.“

Vörðurnar sem leiða til nýsköpunar

Í kjölfar þátttöku „Hvað nú?“ í Snjallræði sem lauk í desember sóttu þær um í Gullegginu, stærstu nýsköpunarkeppni Íslands, og varð teymið aftur fyrir valinu sem eitt tíu teyma til þátttöku í lokakeppni Gulleggsins sem haldin var í febrúar. Þar lenti teymið í öðru sæti og hlaut að auki sérstök verðlaun frá KPMG. Í kjölfarið stofnuðu þær fyrirtæki og í maí hlaut það svo launastyrk frá Atvinnumálum kvenna. „Það er alveg ljóst að þörfin á þjónustu „Hvað nú?“ er til staðar og við finnum mikinn áhuga sem hefur reynst okkur mikil hvatning. Við höldum ótrauðar áfram að þróa hugmyndina sem hefur vaxið og dafnað töluvert síðustu mánuði,“ segir Guðrún um framþróun verkefnisins og nauðsyn stuðningsumhverfis.


Guðrún og Erna á sviði í Gullegginu

Guðrún á að baki langan feril tengdan blaðamennsku og upplýsingamiðlun. Hún er með háskólagráðu í viðskiptafræði frá Háskólanum í Reykjavík og mastersgráðu í blaða- og fréttamennsku frá Háskóla Íslands. Hún hefur til dæmis starfað við sjónvarpsþáttagerð, ritstýrt tímariti, unnið við innri samskipti á samskiptasviði Arion banka og nú síðast vann hún á lokaðri geðeiningu hjúkrunarheimilisins Markar.

„Hvað nú?“ er þó ekki fyrsta fyrirtækið sem Guðrún stofnar því árið 2010 stofnaði hún tvö fyrirtæki, eitt með manni sínum og annað með vinkonu sinni. „Í fæðingarorlofi með nýfædda dóttur árið 2010, og tæplega tveggja ára bróður hennar, ákváðum ég og vinkona mín, sem var einnig í fæðingarorlofi með tvö börn á sama aldri, að stofna fyrirtækið „Puzzled by Iceland“. Á þeim tíma voru ekki til púsluspil með ljósmyndum af Íslandi og því ákváðum við að framleiða púsluspil með ljósmyndum af íslenskri náttúru og dýralífi, og hanna smekklegar umbúðir þannig að púslin myndu sæma sér vel í stofunni frekar en að kassinn væri falinn ofan í skúffu. Þarna fann ég hvað mér þótti gaman að byggja upp hugmyndir, láta vaða og bara sjá hvað gerist. Ég spyr mig oft hvað væri það versta sem getur gerst og yfirleitt er svarið ekkert hræðilegt,“ segir Guðrún kímin.

„Leyfa huganum að reika og láta vaða“

„Ég hvet fólk til að láta sig dreyma því það er svo frábært að fá hugmynd, hvaðan sem hún er sprottin, og finna að víðs vegar er stuðningur og fólk sem vill aðstoða við að koma henni áfram. Ég kann að meta fræðilegu aðstoðina úr náminu hér við HA og stuðninginn þar hvað varðar nýsköpun. Þá er hvatningin sem fylgir þátttöku í hröðlum og keppnum í nýsköpunarumhverfinu ómetanleg og möguleikar á styrkjum í nýsköpun á Íslandi eiga sér varla fordæmi annars staðar í heiminum. Við erum frumkvöðlar í eðli okkar á Íslandi og tækifærin eru ótal mörg, við þurfum bara að leyfa huganum að reika og láta vaða,“ segir Guðrún um reynslu síðastliðinna ára.

„Hvað nú?“ teymið setti nýlega af stað könnun og leitar að fleiri svörum til að þróa verkefnið áfram. Fyrir frekari upplýsingar eða til að taka þátt í könnuninni, heimsækið endilega hvadnu.is. Við óskum Guðrúnu og Ernu til hamingju með árangurinn í verkefninu og Guðrúnu góðs gengis í áframhaldandi námi við Háskólann í Reykjavík í haust.

Þá viljum við benda áhugasömu fólki á að á morgun klukkan 12 byrjar Nýsköpunarstofan Heilabrot í Drift. Allar upplýsingar er að finna hér.