Hvernig endurspeglar heilsa fullorðinna ungdómsárin?

Gagnaöflun lýkur í rannsókninni Heilsuferðalaginu
Hvernig endurspeglar heilsa fullorðinna ungdómsárin?

Rannsóknin Heilsuferðalagið – langtímarannsókn á Íslendingum fæddum 1988 mun vera ein af fyrstu rannsóknunum á Íslandi til að skoða ítarlega langtímaþróun á heilsufarstengdum þáttum á mótunarárunum frá unglingsaldri til fullorðinsára.

Nanna Ýr, einn af rannsakendum, segir að aðsókn þátttakenda í ákveðnum þáttum hafi farið fram úr vonum. „Svo kom mér á óvart að kynjahlutfall þátttakenda var nokkuð jafnt hjá okkur sem mér þykir mikið gleðiefni því alla jafna eru konur duglegri við að taka þátt í rannsóknum.“

Ferli gagnasöfnunar

Gagnaöflun lauk núna í júní og alls svöruðu tæplega 500 þátttakendur ítarlegum spurningalista er tengdist heilsufari. Um 280 þátttakendur mættu í heilsufarsmælingu þar sem þeir fengu afhentan hreyfimæli, blóðþrýstingur og gripstyrkur voru mældir auk þess sem þátttakendur fóru í þrekmælingu. Til viðbótar mættu um 240 þátttakendur í sérhæfða myndgreiningu til að meta líkamssamsetningu. Á næstu vikum munu rannsakendur undirbúa gögnin til frekari gagnagreiningar og vinna að því að tengja saman eldri gögn við þau nýju.

Gagnasöfnun hófst á Norður- og Austurlandi í nóvember 2024 og lauk í desember sama ár. Í janúar 2025 hófst gagnasöfnun á höfuðborgarsvæðinu sem lauk núna í júní. Öllum þátttakendum í fyrri bylgjum rannsóknarinnar, sem voru enn með lögheimili á Íslandi, var boðin þátttaka. Alls voru 385 boðsbréf póstlögð til fyrri þátttakenda.

Fyrst var þátttakendum boðið að svara rafrænum spurningalista um andlega og líkamlega heilsu. Í kjölfarið var þátttakendum boðið að koma í heilsufarsmælingu þar sem mældur var blóðþrýstingur, gripstyrkur og þrek og þátttakendum var boðið að ganga með hreyfimæli sem mældi hreyfingu og svefn í 7 daga. Þrek var þó aðeins mælt á höfuðborgarsvæðinu, vegna staðsetningar tækjabúnaðar. Síðasti liður rannsóknarinnar var DXA-mæling á líkamssamsetningu.

Þátttakendur sem luku öllum verkþáttum rannsóknarinnar fengu gjafakort auk þess að allir þátttakendur sem gengu með og skiluðu hreyfimæli áttu möguleika á útdráttarverðlaunum. Útdráttarverðlaun voru dregin af handahófi og haft var samband við vinningshafa.

Rannsóknarteymið vill þakka kærlega fyrir bæði áhuga og þátttöku í rannsókninni.

Næstu skref í rannsókninni

Næstu skref í rannsókninni er að undirbúa gögn fyrir greiningu og hefja gagnagreiningu. Fyrst mun greining gagna einblína á þversniðsrannsóknina og langtímagreining mun svo fylgja. Birting fyrstu niðurstaðna er áætluð í haust.

Rannsóknin er samstarfsverkefni Háskólans á Akureyri og Háskóla Íslands auk erlendra samstarfsaðila. Nanna Ýr Arnardóttir lektor og Kristrún María Björnsdóttir, doktorsnemi við Hjúkrunarfræðideild HA, vinna að rannsókninni fyrir hönd skólans.

Hér er hægt að sjá frekari upplýsingar um rannsóknina, birtingar, rannsóknaraðila og fleira.