Hvernig hefur rómaréttur áhrif á alla umgjörð lagasetninga í dag?

Lagadeild með sérútgáfu á tímaritinu Nordicum-Mediterraneum
Hvernig hefur rómaréttur áhrif á alla umgjörð lagasetninga í dag?

Lagadeild Háskólans á Akureyri kynnir með ánægju sérútgáfu tímaritsins Nordicum-Mediterraneum sem ber heitið Pax Boreo-Romana: Hugleiðingar um Rómarétt í samhengi við íslenskar og alþjóðlegar lagahefðir. Sara Fusco aðjúnkt og Elva Rún Sveinsdóttir aðstoðarkennari ritstýra sérútgáfunni.

Efniviðurinn grunnar í námskeiðinu í Rómarétti en endurspeglar mun víðara fræðilegt samhengi. Greinarnar í útgáfunni eru skrifaðar af íslenskum laganemum, skiptinemum frá Þýskalandi og Kína, auk fyrrverandi nemenda í Heimskautarétti. Þannig sýnir sérútgáfan alla burði Lagadeildar og dregur skýrt fram þann möguleika sem háskólinn hefur til að skapa stúdentum raunveruleg og þýðingarmikil tækifæri.

„Kennsla í Rómarrétti í íslensku samhengi dregur fram hvernig grundvallarhugtök réttarins, svo sem eignarréttur, skuldbindingar og réttarfarsreglur, hafa áfram áhrif á nútímaleg norræn réttarkerfi. Hún veitir nemendum samanburðarsjónarhorn og sýnir hvernig söguleg viðmið, sem kunna að virðast fjarlæg, liggja að baki samtímalegum norrænum kenningum og lögfræðilegri röksemdafærslu. Með því að vinna með rómverskar réttarheimildir öðlast íslenskir stúdentar við HA greiningartæki sem dýpka skilning þeirra á einkaréttarkerfum og styrkja samræður milli ólíkra réttarkerfa. Þetta veitir þeim jafnframt dýpri skilning á beitingu réttarins að námi loknu í raunverulegum aðstæðum.“ segir Valgerður Guðmundsdóttir, lektor við Lagadeild.


Elva Rún Sveinsdóttir og Sara Fusco, ritstjórar

Borgari eða ekki?

Útgáfan byrjar á tveimur greinum eftir ritstjórana, Söru og Elvu Rún. Í fyrstu greininni, Hefndaréttur og rómversk réttarregla: Samanburðarrannsókn á hefðum á Íslandi og við Miðjarðarhafið, er fjallað um hvernig hugmyndir um heiður og réttarskipan birtast í þessum samfélögum ásamt því rómverska. Greinin ber saman fornar hugmyndir og nútímaleg réttarkerfi og sýnir hvernig samfélög takast á við mörkin milli persónulegs réttlætis og formlegs réttarkerfis.

Greinin „Borgari eða ekki? Rómversk staða, sambandsborgararéttur og afstaða norrænna dómstóla til þess hver telst með“ er eftir laganema við Háskólann á Akureyri, þær Álfheiði Rósu Stefánsdóttur, Hugrúnu Einarsdóttur, Ingibjörgu Ýri Smáradóttur, Ragnheiði Önnu Hallsdóttur, Rannveigu Sigrúnu Stefánsdóttur, Salbjörgu Ragnarsdóttur og Selmu Karen Hólm.

Í greininni bera höfundar saman rómverskan borgararétt og umræður um ríkisborgararétt innan Evrópusambandsins, norræn ríkisborgarakerfi og dómaframkvæmd um útilokun og aðild. Greining þeirra sýnir hvernig fornar hugmyndir um stöðu, réttindi og aðild halda áfram að hafa áhrif á stofnanir samtímans.


Höfundar greinarinnar „Borgari eða ekki? Rómversk staða, sambandsborgararéttur og afstaða norrænna dómstóla til þess hver telst með“

Alþjóðleg sjónarhorn

Tveir skiptinemar leggja fram samanburðarrannsóknir sem víkka landfræðilegt umfang útgáfunnar.

Ke Zhang (Kína) ritar greinina Réttarhæfi kvenna og hnignun tutela muliebris á síðlýðveldistíma og í upphafi keisaratímans. Þar heldur hún því fram að rómverskar konur hafi haft verulegt réttarlegt sjálfræði fyrir keisaratímann og sýnir með tilvísunum í Digest að forræði karla yfir konum hafi verið verulega veikt í reynd á lýðveldistímanum.

Lara Broghammer (Þýskaland) birtir greinina Umráð og eignarréttur – Samanburðargreining á Rómarétti og þýsku borgaralögbókinni. Í tilefni 125 ára afmælis þýsku borgaralögbókarinnar er rómverskur uppruni lykilhugmynda í eignarrétti endurmetinn. Samanburðurinn sýnir hvernig aðgreining umráða og eignarréttar er enn grundvallarþáttur í meginlandslögum Evrópu.

Þá er einnig að finna víðtæka rannsókn eftir Jonathan Wood, lögfræðing og doktorsnema við Háskóla Íslands og fyrrverandi stúdent í Polar Law-náminu. Grein hans, Lagaleg mótsögn: Áhrif og birtingarmynd Rómaréttar  í sovéskri lögfræði, fjallar um hvernig sovésk réttarkenning sótti í rómverskar réttarhugmyndir. Wood sýnir að þrátt fyrir yfirlýsta hugmyndafræðilega fjarlægð höfðu rómverskar hugmyndir áhrif á sovéska löggjöf, einkamálaréttarfar og fræðilega þróun alla tuttugustu öldina.

Norðlægt kennslurými með alþjóðlegri skírskotun

Sara á svo síðustu greinina sem ritstjóri þar sem hún veltir fyrir sér reynslunni af því að kenna Rómarétt í íslensku laganámi í samvinnu við stúdenta frá ólíkum lagamenningarheimum.

Elva Rún rammar þetta vel inn: „Sem bæði fyrrverandi stúdent og aðstoðarkennari tel ég að Rómarréttur veiti íslenskum laganemum skýrari skilning á undirstöðum nútímalaga og þeim fjölmörgu meginreglum íslenskrar löggjafar sem eiga rætur sínar að rekja til rómverskrar réttarhefðar.“

Álfheiður Rósa Stefánsdóttir, Hugrún Einarsdóttir, Ingibjörg Ýr Smáradóttir, Ragnheiður Anna Hallsdóttir, Rannveig Sigrún Stefánsdóttir, Salbjörg Ragnarsdóttir og Selma Karen Hólm sem allar sátu námskeiðið gefa því eftirfarandi umsögn.

„Við teljum að nám í Rómarétti sé afar mikilvægt fyrir íslenska laganema þar sem það sýnir sögulega þróun grundvallarreglna sem enn eru til staðar í núverandi réttarkerfi og veitir skilning á víðara evrópsku réttarsamhengi. Námskeiðið dregur jafnframt fram þau varanlegu áhrif sem rómaréttur hefur haft á nútímalög og hvetur okkur til gagnrýninnar hugsunar um hvers vegna rétturinn lítur út eins og hann gerir í dag.“

Nordicum-Mediterraneum er tímarit gefið út á netinu í opnum aðgangi í samvinnu Háskólans á Akureyri og Háskóla Íslands. Tímaritið er alþjóðlegur, þver- og fjölfræðilegur vettvangur fyrir kynningu, umræðu og miðlun hugmynda, rannsókna og fræða sem fjalla um málefni Miðjarðarhafs og Norðurlanda. Smelltu hér til að lesa sérútgáfuna.