Sigrún Stefánsdóttir nýr formaður Góðvina

Opnir fyrirlestrar í samvinnu við fleiri með áherslu á samstarf við eldri borgara
Sigrún Stefánsdóttir nýr formaður Góðvina

Góðvinir Háskólans á Akureyri vilja stuðla að því að opna háskólann enn frekar fyrir íbúum á Norðurlandi og efla kynningu á starfsemi félagsins og háskólans. Ákveðið var að setja á laggirnar tvö verkefni í tengslum við þetta markmið Góðvina.

Annað þeirra er að bjóða upp á opna fræðslu í háskólanum í samstarfi við Félag eldri borgara á Akureyri, Virk efri ár á vegum Akureyrarbæjar, SAk og HSN. Fræðslan verður opin öllum og eldri borgurum boðið sérstaklega. Áhersla verður lögð á áhugaverða fræðslu um ýmis mál þar á meðal heilsu og lýðheilsu. Ætlunin er að fara af stað upp úr áramótunum og vera með nokkra fyrirlestra á vor- og haustmisseri.

Hitt verkefnið snýr að því að kynna brautskráða HA-inga, heyra hvernig þeim hefur farnast í lífinu og af minningum um háskólann.

Uppbygging háskólans í forgrunni og efla tengsl

Tilgangur Góðvina háskólans er margþættur. Meðal annars er þeim ætlað að auka tengsl fyrrum stúdenta og stuðla að frekari uppbyggingu háskólans sjálfs. Umrædd verkefni eru liður í því að opna dyr háskólans betur fyrir bæjarbúum, sérstaklega eldri borgurum og vekja athygli á þeim stóra og öfluga hópi sem brautskráðst hefur frá háskólanum. Einnig veita Góðvinir stúdentum viðurkenningar fyrir frábæra frammistöðu á námstímanum.

Sigrún Stefánsdóttir er nýskipuð formaður stjórnar Góðvina Háskólans á Akureyri. Hún segir að með þessu vilji Góðvinir verða virkari í starfi háskólans og vekja áhuga fleiri á að taka þátt í starfi Góðvina. Hún segir að fyrirlestraröðin sé tilraun og vonandi upphaf þess að þetta verði fastur liður í starfsemi háskólans.

Aðalfundur félagsins var haldinn í enda september síðastliðnum. Hér má finna frekari upplýsingar um nýskipaða stjórn og félagið í heild.