Veglegur styrkur veittur í verkefni um sjálfbæra menntaforystu á Norðurlöndum og norðurslóðum
Dr. Sigríður Margrét Sigurðardóttir, dósent við kennaradeild, hefur hlotið veglegan styrk úr Nordic Arctic Programme (NAPA), sjóði á vegum Norrænu ráðherranefndarinnar. Styrkurinn er sá hæsti sem veittur er árlega úr sjóðnum og mun styrkja fyrsta árið í þriggja ára rannsóknarverkefni sem ber heitið „Sustainable Nordic and Arctic Educational Leadership in Times of Opportunities and Challenges“ sem á íslensku gæti útlagst sem Sjálfbær menntaforysta á Norðurlöndum og norðurslóðum á tímum tækifæra og áskorana.
Sjálfbær menntaforysta í dreifðum samfélögum
Megintilgangur rannsóknarinnar er að efla sjálfbæra menntaforystu í dreifðum byggðum og fámennum samfélögum á Norðurlöndum og norðurslóðum. Rannsóknin miðar að því að kanna áskoranir og tækifæri í skólastjórnun á þessum svæðum og þróa leiðir sem stuðla að seiglu, virkri þátttöku og sjálfbærni í skólastarfi.
Fyrsta árið verður einkum lögð áhersla á að þróa aðferðafræði rannsóknarinnar og styrkja rannsóknartengsl þátttakenda. Framkvæmd verkefnisins felur í sér röð rafrænna vinnustofa auk tveggja staðbundinna vinnustofa í Danmörku og á Grænlandi, þar sem rannsóknarferlið verður hannað í sameiningu og skólastjórar virkjaðir til þátttöku í starfendarannsókninni.
„Það er sérstakt að fá að vinna að verkefni sem tengir norðurslóðirnar í menntaforystu.“
„Það er bæði faglegur og persónulegur heiður að fá þennan styrk og að leiða verkefni sem sameinar skólastjóra og fræðafólk frá þessum svæðum í sameiginlegri sýn á sjálfbæra menntaforystu,“ segir Sigríður. Hún bætir við: „Við viljum varpa ljósi á mikilvægi menntunar sem einnar af helstu stoðum samfélagsþróunar, seiglu og jöfnum tækifærum barna og ungmenna – sama hvar þau búa. Með því að virkja skólastjóra beint í rannsókninni byggjum við upp þekkingu sem nýtist bæði í stefnumótun og í daglegu skólastarfi.“
Byggjum upp sjálfbært faglegt net
Niðurstöður verkefnisins munu nýtast skólastjórum til að efla faglega forystu og verða jafnframt mikilvægt innlegg í þróun leiðtogamenntunar, stefnumótun sveitarfélaga og mótun menntastefnu á Norðurlöndum og norðurslóðum.
Verkefnið tengist fyrri rannsóknum Sigríðar Margrétar á skólastjórnun í strjálbýli á Íslandi og Ástralíu og á árangri norræna rannsóknarnetsins NordLead, sem hún hefur tekið virkan þátt í.
Með því að samþætta þekkingu skólastjóra, fræðafólks og stefnumótenda er ætlunin að byggja upp sjálfbært faglegt net sem heldur áfram eftir að verkefninu lýkur og stuðlar að faglegri forystu, jöfnu aðgengi og sjálfbærni í menntun.
Nordic Arctic Programme (NAP) er á vegum Norrænu ráðherranefndarinnar og er ætlað að efla samstarf á norðurslóðum og Norðurlöndum. Verkefnin sem njóta styrkja eiga það sameiginlegt að stuðla að sjálfbærri þróun og styrkja félagslega og efnahagslega seiglu samfélaga á þessum svæðum.
Verkefnið er unnið í samstarfi við fræðafólk frá átta háskólum í Danmörku, Grænlandi, Finnlandi, Íslandi, Noregi og Svíþjóð, auk tveggja grunnskólastjóra frá hverju landi sem taka þátt í starfendarannsóknum innan verkefnisins.