Hafdís Skúladóttir, dósent og deildarforseti Hjúkrunarfræðideildar, hlaut á dögunum inngöngu í Kennsluakademíu opinberu háskólanna.
Kennsluakademían er vettvangur að norrænni fyrirmynd sem ætlað er að stuðla að kennsluþróun. Meginmarkmið með Kennsluakademíunni er að efla samtal um kennslu og kennsluþróun innan og milli háskóla.
Árleg ráðstefna Kennsluakademíunnar
Á hverju ári stendur Kennsluakademían meðal annars fyrir ráðstefnu þar sem fólk úr fræðasamfélaginu kemur saman, deilir þekkingu og vinnur saman undir ákveðnu þema. Þemað í ár er Gervigreind í námi og kennslu á háskólastigi. Ráðstefnan verður haldin þann 21. nóvember næstkomandi í Veröld - húsi Vigdísar. Öll sem hafa áhuga á háskólakennslu innan háskólasamfélagsins, kennarar, stúdentar og stjórnendur, eru velkomin en skráningar er krafist. Allar nánari upplýsingar má finna hér.
Í lok ráðstefnunnar er formleg athöfn þar sem nýir meðlimir fá viðurkenningaskjal afhent. „Að hljóta inngöngu er mikil viðurkenning fyrir mig og viðurkenning á þeirri kennsluþróun sem ég hef unnið að hér í háskólanum,“ segir Hafdís og bætir við að þetta sé hvatning til að halda áfram að þróa kennsluefni og kennsluhætti í samstarfi við önnur innan Kennsluakademíunnar og einnig samstarfsfólk innan háskólans.
Til að gerast félagi í Kennsluakademíunni þarf viðkomandi að vera akademískur starfskraftur við opinberan háskóla á Íslandi. Á hverju ári eru meðlimir teknir inn eftir að hafa sótt um inngöngu með ítarlegri umsókn á ensku sem er byggð á viðmiðum Kennsluakademíunnar.
Við óskum Hafdísi til hamingju með árangurinn!