Miðlun fræða er háskólanum mikilvæg og í næstu viku verður boðið upp á sálfræðispjall um skammdegisþunglyndi
Í Háskólanum á Akureyri eru yfir hundrað viðburðir á ári hverju. Þeir eru fjölbreyttir og eru í formi ráðstefna, opinna daga, brautskráninga og málþinga svo eitthvað sé nefnt.
Reglulega eru einnig opin erindi þar sem fræðafólk háskólans segir frá rannsóknum sínum, veitir innsýn í samfélagsleg málefni eða býður gestum að fjalla um valin viðfangsefni. Allar deildir háskólans leggja til viðburði af þessu tagi og meðal annars er boðið upp á Félagsvísindatorg og Lögfræðitorg.
Á þessu misseri hefur meðal annars verið fjallað á Félagsvísindatorgi um öryggi nemenda í efsta bekk grunnskóla, hvenær húmor er fræðilega viðeigandi og hverjir eignast börn. Þá var fyrrverandi forseta Íslands, Guðna Th. Jóhannessyni, boðið að halda erindi á Lögfræðitorgi þar sem hann ræddi breytingar á stjórnarskrá. Þetta er aðeins brot af því fjölbreytta efni sem í boði er.
Súkkulaðið vegna jólanna eða árstíðabundins þunglyndis?
Hluti af hádegiserindum er Sálfræðispjallið, þar sem starfsfólk Sálfræðideildar segir frá verkefnum sínum.
Í næstu viku, miðvikudaginn 10. desember kl. 17, mun Dr. Yvonne Höller, prófessor við Sálfræðideild, fjalla um árstíðabundið þunglyndi á Íslandi.

Dr. Yvonne Höller
Fjöldi fólks finnur fyrir áhrifum breytinga á árstíðum og finnur fyrir meiri vanlíðan yfir dimmari mánuðina. Einkennin geta meðal annars verið svefnvandamál, orkuleysi, minni áhugi á félagslífi og aukin löngun í sætindi. Í þessu spjalli mun Yvonne segja frá fimm ára rannsókn sinni þar sem hún skoðar hversu algengt vandamálið er, hver eru viðkvæmust og hvort hægt sé að gera eitthvað í því.
Yvonne Höller er sérfræðingur í mælingum á heilastarfsemi. Eftir að hún lauk doktorsprófi í sálfræði í Austurríki og meistaragráðu í tölvunarfræði starfaði hún við klínískar rannsóknir í taugalækningum í 10 ár. Hún hóf störf við Háskólann á Akureyri árið 2018 og hefur verið prófessor frá árinu 2020. Yvonne leiðir nokkur alþjóðleg verkefni sem eru að mestu fjármögnuð af Evrópusambandinu og Rannís.
Hvað er framundan?
Opin torg og erindi af þessu tagi eru mikilvægur hluti af því að miðla rannsóknum og vísindum háskólans til samfélagsins. Þau eru opin öllum áhugasömum, oft haldin í hádeginu og yfirleitt streymt. Við hvetjum fólk til að kíkja á viðburðadagatal háskólans á unak.is og sjá hvað er framundan.