HA á Vísindavöku Rannís 2025

27. september 2025 kl. 12:00-17:00
Komdu og hittu HA-inga á uppskeruhátíð vísindanna á Íslandi!

Við verðum á Vísindavöku Rannís 2025!

Svefn barna og kvenna

Laufey Hrólfsdóttir, deildarstjóri mennta- og vísindadeildar Sjúkrahússins á Akureyri og lektor við HA, Nanna Ýr Arnardóttir, lektor við Hjúkrunarfræðideild HA og Ingibjörg Ingólfsdóttir hjúkrunarfræðingur.

Kæfisvefn og önnur svefnvandamál geta haft mikil og víðtæk áhrif á heilsu. Kæfisvefn meðal ungra barna hefur almennt ekki verið mikið rannsakað en aðalmarkmið rannsóknarinnar á Akureyri er að kanna algengi kæfisvefns meðal barna á aldrinum 4-9 ára. Þú getur fengið fræðslu um svefn, sett upp draumasvefnherbergi og teiknað draumana þína.

Markmið rannsóknarinnar meðal kvenna er að skoða hvernig svefn breytist yfir tíðahringinn hjá ungum konum og bera saman við svefnvanda og líðan þátttakenda. Þú getur fengið upplýsingar um framvindu rannsóknar og helstu niðurstöður sem komnar eru fram. Einnig skráð þig á kynningarfund!

Heimsæktu sjúkrabílinn

Jón Knútsen umsjónarmaður og leiðbeinandi á Sjúkrahúsinu á Akureyri, Sigurjón Ólafsson verkefnastjóri Sjúkraflutningaskólans og Áslaug Felixdóttir verkefnastjóri fræðslumála á Sjúkrahúsinu á Akureyri

Er það satt að takturinn við lagið "Staying alive" sé sá rétti við hjartahnoð? Hvernig ber fólk í sjúkraflutningum sig að? Hvað er hermikennsla og hvernig fer slík kennsla fram? Sjáðu með eigin augum hvernig sjúkrabíll virkar og fáðu útskýringar á tækni og vísindum á bakvið endurlífgun og sjúkraflutninga

Loftgæði, eldgos og mengun

Audrey Matthews, lektor við hjúkrunarfræðideild og vísindamiðlari

Audrey kynnir loftgæðarannsókn sem er ætlað að skoða tengsl heilsufarskvíða og mengunarvalda. Frekari upplýsingar um rannsóknina má finna hér. Hvernig eru til dæmis eldgos að hafa áhrif? Prófaðu að skapa þitt eigið eldgos!

Lyf við ættgengri íslenskri heilablæðingu

Arctic Theraputics, fyrirtæki í samvinnu við HA

Íslenska erfða- og líftæknifyrirtækið Arctic Therapeutics er að hefja næsta þróunarfasa á lyfi við ættgengri íslenskri heilablæðingu og mun kynna rannsóknir sínar sem sýna einnig fram á virkni gegn heilabilun af öðrum orsökum, þar á með Alzheimer-sjúkdómnum, og mun þar með geta aukið lífsgæði milljóna manna um allan heim með því að koma í veg fyrir og meðhöndla sjúkdóminn. Á Vísindavökunni verða Olga og Hekla sem starfa hjá AT á staðnum, segja frá vinnu sinni og leyfa fólki að prófa DNA samsetningar.

Örverulífríkið í mismunandi vistgerðum

Oddur Þór Vilhelmsson, prófessor við Auðlindadeild

Verkefnið Engjaskófir og örverulífríki þeirra í hlýnandi loftslagi, snýst um að bera saman örverulífríki og efnamengi fléttna af engjaskófarætt í sambærilegum vistgerðum á Íslandi, Skotlandi og Englandi og draga af þeim samanburði ályktanir um áhrif veðurfars og loftslags á sambýlisörverur og efnaframleiðslu í þessum algengu og mikilvægu fléttum. Hægt er að lesa meira um rannsóknina hér.

Mengunarefni í náttúrunni

Ashani Arulananthan, doktorsnemi við Háskólann á Akureyri

Perflúoróalkýlefni er flokkur alvarlegra þrávirkra mengunarefna en þau brotna afar hægt niður í náttúrunni. Áhrif þeirra á lífverur í hafinu og uppsöfnun þeirra í fæðukeðjunni í Norðurhöfum, en þangað berast þau með hafstraumum sunnan úr álfum, er áhyggjuefni, því sum þeirra trufla lykilstarfsemi í frumum og eru eitruð dýrum og fólki annsóknirnar beinast að því að greina áhrif mengunarefnanna á vöxt og heilbrigði kísilþörunga í rækt, svo og á það bakteríulíf sem þeim fylgir. Komdu og kíktu í smásjána, spjallaðu við Ashani um áhrifin og kynnstu rannsókninni. Hægt er að lesa meira um rannsóknina hér.

Náttúrulegar leiðir til að heft vöxt skaðlegs þörungablóma

Alexandra Georganti Ntaliape, doktorsnemi við Háskólann á Akureyri

Í stuttu máli snýst verkefnið um að athuga hvort hægt sé að nýta þörungasýkla til að vinna bug á blómanum. Rannsóknirnar snúast þannig um að bera kennsl á, einangra og rækta bæði þörunga blómans og sýkla hans úr sýnum sem tekin verða úr og nærri kræklingarækt á Íslandi. Skoðaðu hvernig rannsóknin er unnin og hverjar helstu niðurstöður eru sem komnar eru fram. Hægt er að lesa meira um rannsóknina hér.

Eru hendurnar hreinar?

Margrét Unnur Ólafsdóttir, stúdent við Hjúkrunarfræðideild

Margrét leyfir gestum og gangandi að kynnast því hversu mikið er af bakteríum á höndunum á þeim. Heimsæktu okkur, smelltu höndunum í tækið okkar og þá sérðu hversu vel þú þreifst þær síðast!

Eftirfylgni í verkjaendurhæfingu

Hrefna Óskarsdóttir, aðjúnkt við Iðjuþjálfunardeild

Hrefna kynnir rannsókn sína á notkun kerfisins Vöku við eftirfylgni í verkjameðferð. Langvinnir verkir hafa áhrif á allt að 40% Íslendinga og þverfagleg endurhæfing virkar oft vel í meðferð en árangur hverfur oft innan sex mánaða ef eftirfylgd vantar. Stafræn kerfi eins og Vaka ættu að geta brúað þetta bil. Heimsæktu Hrefnu og skoðaðu hvernig dagleg færni sveiflast hjá fólki með verkjavanda og krefst stöðugrar forgangsröðunar í verkefnum, hvíld og áhugamálum.

Lífið á Norðurslóðum

Þórný Barðadóttir, sérfræðingur á Rannsóknamiðstöð ferðamála og Stofnun Vilhjálms Stefánssonar og Helga Guðrún Númadóttir, sérfræðingur hjá Stofnun Vilhjálms Stefánssonar

Rannsóknarverkefnið ICEBERG er þverfaglegt og vettvangsmiðað og rannsakar margþætt og flókin áhrif mengunar, loftslagsbreytinga, mannvistar og atvinnustarfsemi á strendur og haf á norðurslóðum sem ógnað geta heilsu fólks og vistkerfa. Í verkefninu er lögð áhersla á virka þátttöku íbúa á svæðunum. Heimafólk getur tekið virkan þátt í rannsóknum, til dæmis með því að fljúga dróna við strendur Húsavíkur til að skrá mengun, taka þátt í strandhreinsunum og leggja sitt af mörkum í vinnustofum og viðtölum.

Hjá Helgu og Þórnýju getur þú kynnt þér ICEBERG verkefnið og prófað gagnvirkt kort (uMap) sem notað er til þess að kortleggja mengun. Hér geturðu lesið meira um rannsóknarverkefnið sem er styrkt af Evrópusambandinu og leitt af Háskólanum í Oulu, Finnlandi. (hlekkur, ICEBERG | Háskólinn á Akureyri)