Að virkja svæðisbundna nýsköpun til menntunar

Fræðafólk við Kennaradeild Háskólans á Akureyri tekur þátt í Eramus+ verkefninu iSHRINK
Að virkja svæðisbundna nýsköpun til menntunar

Fræðafólk við Kennaradeild Háskólans á Akureyri tekur þátt í Erasmus+ verkefninu iSHRINK sem hófst formlega síðasta haust og stendur í þrjú ár (2020-2023). Verkefninu er ætlað að koma á tengslum eyjaskóla í Evrópu og stuðla að samstarfi þeirra á milli um nýsköpun í menntun með áherslu á viðfangsefni tengd sjálfbærni. 

Verkefnið felur í sér náið samstarf milli eyjaskóla og háskólastofnana sér í lagi um þróun kennslu- og námsefnis. Eitt aðalmarkmið verkefnisins er að veita nemendum í einangruðum eða fámennum skólum metnaðarfull námstækifæri. Þar sem áhersla er að virka samfélagsþátttöku þeirra og möguleg áhrif nemenda á framtíðarsýn um sjálfbærni samfélagsins sem þeir búa í. Rík áhersla er lögð á að nýta þekkingu og reynslu kennara og nemenda þannig að þetta markmið náist.

„Háskólinn á Akureyri og Hríseyjarskóli vinna saman að verkefninu ásamt öðrum þátttakendum en okkar samstarf við Hríseyjarskóla verður heldur þéttara en við hina skólana. Upphaf verkefnisins dróst lítillega vegna Covid en núna erum við komin af stað með fyrsta viðfangsefni verkefnisins sem er að skilgreina þarfir skólanna út frá viðmiðum um sjálfbærni,“ segir Hermína Gunnþórsdóttir, prófessor við Kennaradeild og einn þátttakenda í verkefninu.

Aðilar að verkefninu auk Háskólans á Akureyri og Hríseyjarskóla eru háskólar og menntastofnanir í Skotlandi, Hollandi, Grikklandi og á Spáni.

Þátttakendur í verkefninu frá Háskólanum á Akureyri eru auk Hermínu, Bergljót Þrastardóttir, lektor, Birna María Svanbjörnsdóttir, lektor og Rúnar Sigþórsson, prófessor emeritus.