Að þróa ramma sem samþættir mannréttindi

Romain Chuffart, Nansen-prófessor hlýtur styrkveitingu
Að þróa ramma sem samþættir mannréttindi

Romain Chuffart, Nansen-prófessor í norðurslóðafræðum við Háskólann á Akureyri, hefur hlotið styrkveitingu frá norðurslóðaskrifstofu breska umhverfisrannsóknarráðsins (Natural Environment Research Council – NERC). Styrkurinn mun fjármagna verkefnið: Developing a legal assessment of Arctic geoengineering to support the scoping exercise being coducted by the Arctic Council Working Group (AMAP).

Verkefnið byggir á störfum Romains um stjórnarhætti á Norður-Íshafi og rannsóknum hans í heimskautarétti og stjórnun jarðverkfræðilegra loftslagsaðgerða. Það verður unnið í samstarfi við Philip Steinberg, prófessor við Durham-háskóla. Samstarfið á sér rætur í doktorsnámi Romains við Durham-háskóla, þar sem Steinberg var einn af leiðbeinendum hans.

Rammi réttlætis og jarðverkfræðilegar loftlagsaðgerðir

Verkefnið miðar að því að tryggja að lögfræðileg sjónarmið, siðferðileg gildi og mannréttindi verði samþætt umræðunni um jarðverkfræðilegar loftslagsaðgerðir á norðurslóðum. Þótt umræðan í dag sé að mestu leyti mótuð af tæknilegum hagkvæmniathugunum hefur lítilli athygli verið beint að réttlæti og réttindum frumbyggja.

„Markmið verkefnisins er að þróa drög að ramma sem samþættir mannréttindi, einkum réttindi frumbyggja, og meginreglur réttlætis þannig að ákvarðanir í framtíðinni um tilraunir og mögulega beitingu jarðverkfræðilegra loftslagsaðgerða á norðurslóðum verði teknar á sanngjarnan og ábyrgan hátt,“ segir Romain.

Styrkurinn mun einnig styðja við vinnustofu á Arctic Frontiers ráðstefnunni í Tromsø snemma árs 2026, þar sem 25 sérfræðingar munu koma saman, þar á meðal fræðafólk í lögfræði, fulltrúar frumbyggja og sérfræðingar í stjórnun.

Af hverju núna og hvað eru jarðverkfræðilegar loftlagsaðgerðir?

Jarðverkfræðilegar loftslagsaðgerðir hafa orðið meira áberandi í alþjóðlegum loftslagsumræðum undanfarið, sérstaklega þar sem heimurinn á í erfiðleikum með að ná markmiðum Parísarsamkomulagsins. Norðurheimskautið, sem hlýnar meira en fjórum sinnum hraðar en heimurinn að meðaltali, er þegar vettvangur fyrir tilraunir eins og að þykkja hafís og sjávarskýjaauðgun. Sjávarskýjaauðgun felst í að spreyja ský með sjó til að lýsa þau svo að sólarljósið endurvarpist frekar og þannig hægja á hlýnun. Romain varar við því að slíkar aðferðir geti haft víðtækar félagslegar, umhverfislegar og landpólitískar afleiðingar.

Með stuðningi við forathugun AMAP mun verkefnið hjálpa til við að tryggja að framtíðarmat taki mið af réttlæti, réttindum frumbyggja og jafnræði milli kynslóða. Einnig mun þetta verkefni styðja við framkvæmd nýrrar stefnu um verndun líffræðilegrar fjölbreytni.

„Þetta verkefni gerir okkur kleift að sameina ólíka sérþekkingu á sviði lögfræði, landafræði og stjórnarhátta á norðurslóðum á lykilstundu fyrir svæðið,“ útskýrir Romain í lokin.