Áfanga hátt í 100 kandídata fagnað á Vetrarbrautskráningarathöfn

Samfélag, skautun og stolt umræðuefni ávarpa
Áfanga hátt í 100 kandídata fagnað á Vetrarbrautskráningarathöfn

Laugardaginn 17. febrúar fór í annað skiptið fram Vetrarbrautskráningarathöfn Háskólans á Akureyri. Athöfnin var ætluð kandídötum sem fengu brautskráningarskírteini sín í október 2023 og þeim sem brautskráðust 17. febrúar síðastliðinn. Alls brautskráðust 89 kandídatar af tveimur fræðasviðum í október og febrúar. Af þeim brautskráðust 19 kandídatar frá Háskólasetri Vestfjarða og er þeim boðið á hátíðlega athöfn á Hrafnseyri þann 17. júní 2024.

Stúdentum HA hefur fjölgað um rúm 60% á undanförnum áratug

Í ræðu sinni fjallaði Elín Díanna Gunnarsdóttir, aðstoðarrektor Háskólans á Akureyri, meðal annars um eflingu og vöxt háskólans. „Til gamans má geta að stúdentum HA hefur fjölgað um rúm 60% á undanförnum áratug. Við höfum frá upphafi lagt áherslu á að hér ríki persónulegt og sterkt námssamfélag. Ég vona að það sé einmitt ykkar upplifun af háskólagöngu ykkar hér. Samfélagið og sú umgjörð sem það skapar breytist hratt og í dag er staðreyndin sú að stúdentar halda ansi mörgum boltum á lofti, með fjölbreyttar áskoranir og áreiti úr öllum áttum.“

„Þetta skiptir máli því við erum hluti af samfélagi“

Þá lagði Díanna ríka áherslu á samfélagið og mikilvægi þess að tilheyra og að taka þátt í samfélagi. „Að við gefum okkur tíma til að kynnast, hlusta, ræða saman og rýna málin til gagns frá ólíkum sjónarhornum. Að við getum tekist á á uppbyggilegan hátt okkur öllum og samfélagi okkar til góða, án þess að festast í litlum búblum og skapa okkar eigin litlu bergmálshella. Af hverju skiptir þetta máli almennt? Þetta skiptir máli af því að við erum hluti af samfélagi og berum þá miklu ábyrgð að vera rödd í því samfélagi. Hvort sem það er háskólasamfélag, bæjarsamfélag, íslenskt samfélag í heild sinni, alþjóðasamfélagið eða bara hvaða samfélag sem við erum hluti af. Þá erum við ábyrg fyrir því samfélagi ásamt öllum hinum sem mynda það með okkur. [...] Þið brautskráist því héðan í dag - ekki eingöngu með ýtarlega þekkingu og þjálfun á ykkar fagsviði, sem mun verða ykkur og samfélaginu til góðs, hvort sem þið farið beint út á vinnumarkaðinn, eða stefnið í áframhaldandi nám. Þið farið líka héðan með þekkingu og færni í því að taka þátt í uppbyggilegu samtali, að raunverulega hlusta á rödd annarra, að færa rök fyrir máli ykkar, og að byggja röksemdafærslu á gögnum og vísindalegri þekkingu. Og þetta, kæru kandídatar, gerir ykkur ómetanlega þátttakendur í nútímasamfélagi.“

 „Stolt af því að tilheyra HA“

Kristína Björk Arnórsdóttir, kandídat í Lagadeild, flutti ávarp fyrir hönd kandídata. Í ávarpi sínu lagði hún meðal annars áherslu á mikilvægi sveigjanlegs námsfyrirkomulags háskólans og það persónulega námssamfélag sem er ríkjandi í HA. Þá hvatti hún kandídata til þess að vera stolt af því að hafa verið í HA. Í lok ávarpsins lagði hún svo áherslu á að kandídatar væru stoltir af sjálfum sér. „Þó svo að við megum vera þakklát með hvatningu og stuðning frá aðstandendum, kennurum og öðrum, þá er það þegar öllu er á botninn hvolft okkur sjálfum að þakka að við komumst hingað sem við erum í dag. Það er okkur sjálfum að þakka að við skiluðum inn öllum verkefnum og náðum öllum prófum. Við eigum að vera stolt af okkur sjálfum. Það var á okkar ábyrgð, hvort við myndum útskrifast eða ekki. Það verður á okkar ábyrgð að skapa okkur tækifæri til framtíðar.“ 

Feðginin Ruth Ragnarsdóttir og Ragnar Þór Jónsson glöddu svo gesti á athöfninni með flutningi á tveimur lögum.

Viðurkenningar

Viðurkenningu fyrir góðan námsárangur hlutu eftirtaldir:

Heilbrigðis-, viðskipta- og raunvísindasvið:

  • Grunnnám: Áslaug Birna Bergsveinsdóttir, hæsta einkunn í grunnnámi við sviðið
  • Framhaldsnám: Eva María Ingvadóttir, hæsta einkunn í framhaldsnámi við sviðið

Hug- og félagsvísindasvið:

  • Grunnnám: Hólmfríður María Bjarnveig Önnudóttir Þorsteinsdóttir, hæsta meðaleinkunn í grunnnámi við sviðið
  • Framhaldsnám: Inga Huld Sigurðardóttir, hæsta meðaleinkunn í framhaldsnámi við sviðið

Fleiri myndir frá athöfninni verða aðgengilegar í vikunni og munum við upplýsa sérstaklega um það. Athöfninni var streymt á Facebooksíðu háskólans og geta áhugasöm horft á upptöku af athöfninni hér.

Þeir sem ekki sáu sér fært að mæta á athöfnina á laugardag munu fá prófskírteini sín send á lögheimili á næstu dögum.

Starfsfólk Háskólans á Akureyri óskar öllum kandídötum hjartanlega til hamingju með brautskráninguna og velfarnaðar í lífi og starfi!