„Akureyri er eini alvöru háskólabær landsins“

Í vetur munu Kaffið og Háskólinn á Akureyri halda áfram að kynna mannlífið í Háskólanum á Akureyri með reglulegum viðtölum. Fyrsti viðmælandi vetursins er Aðalbjörn Jóhannsson, stúdent við HA.
„Akureyri er eini alvöru háskólabær landsins“

Í vetur munu Kaffið og Háskólinn á Akureyri halda áfram að kynna mannlífið í Háskólanum á Akureyri með reglulegum viðtölum. Fyrsti viðmælandi vetursins er Aðalbjörn Jóhannsson, stúdent við HA.

Í hvaða námi ert þú í?
Ég er að stúdera BA gráðu í félagsvísindum. Fáránlega skemmtilegt nám og ég mæli svo mikið með því. Fullkomið fyrir sveimhuga eins og mig með valkvíða og áhuga á öllu!

Uppáhaldsstaður í HA?
Það er eitthvað töfrandi við teppið, þar sem maður getur setið endalaust og lært í kring um fjölbreytt fólk í allskonar námi. Þar er kannski ekki alltaf mesti námsfriðurinn en það er þar sem hjartað í HA samfélaginu slær sterkast og þar finn ég alltaf að ég tilheyri samfélagi.

Skemmtilegasta minning þín í HA?
Ég á eiginlega bara skemmtilegar minningar úr HA og þær tengjast flestar fólkinu þar, bæði stúdentum og kennurum. Ég held samt að fyrsta skiptið sem ég labbaði inn í HA og fékk þessa tilfinningu að vera orðinn háskólanemi verði seint toppað. Það var verulega langþráður draumur hjá mér.

Hvernig finnst þér háskólalífið á Akureyri?
Ég held að fólk geri sér ekki endilega grein fyrir því sem ekki hefur upplifað staðnám við Háskólann á Akureyri hvað það er einstakt. Háskólasamfélagið er ofboðslega þétt og ólíkt því sem gengur og gerist víða þá eru mikil samskipti milli stúdenta á ólíkum námsbrautum. Félagslífið er frábært og stúdentahópurinn opinn og býður mann velkominn. Háskólinn er alþjóðlegur og maður fær tækifæri til þess að kynnast fólki úr oft á tíðum mjög ólíkum menningarheimum og manns eigin heimssýn verður bæði stærri og þéttari á sama tíma. Akureyri er eini alvöru háskólabær landsins og maður finnur fyrir því hvað háskólinn og nærsamfélagið eru samofin á mörgum sviðum enda held ég að HA sé sá háskóli á Íslandi þar sem stúdentar komast næst því að upplifa háskólalífið eins og við sjáum það fyrir okkur erlendis í gegnum miðla og bíómyndir.

Hvað er það besta við að vera HA-ingur?
Samfélagið. Nálægðin milli kennara, stúdenta og háskólasamfélagsins í heild sinni er það verðmætasta sem háskólinn hefur upp á að bjóða og myndar þann kjarna sem allt annað starf skólans snýst í kring um. Þetta er eins og að vera hluti af íþróttafélagi. Sú upplifun að samfélagið hérna taki á móti manni, haldi utan um mann og standi með manni í gegnum þessi ár er ótrúlegur styrkur og það er engin tilviljun að það verði hluti af sjálfsmynd manns að vera HA-ingur!