Doktor í læknisfræðum og meistari í sjóstangaveiði

Viðtal við Stefán B. Sigurðsson, fráfarandi formann doktorsnámsráðs
Doktor í læknisfræðum og meistari í sjóstangaveiði

Stefán B. Sigurðsson hefur í gegnum tíðina komið víða við þegar kemur að Háskólanum á Akureyri. „Ég hef í raun verið eitthvað viðriðinn Háskólann næstum frá byrjun. Þegar Þorsteinn Gunnarsson var skipaður rektor árið 1994 var ég í dómnefnd og fyrstu tvö ár hjúkrunarfræðideildarinnar flaug ég á milli Akureyrar og Reykjavíkur til að kenna lífeðlisfræði.

Taugin til HA sterk

Stefán lauk fyrrihlutaprófi í læknisfræði við Háskólann í Lundi, fór þar yfir í rannsóknarnám og lauk því með doktorsgráðu árið 1980. „Ég fann að klíník átti ekki við mig og hef aldrei séð eftir því að velja rannsóknarmiðaða leið enda leiddi hún mig aftur til Akureyrar sextíu og eins árs gamlan, 60 árum eftir að foreldrar mínir fluttu þaðan, með mig þá eins árs, til Reykjavíkur,“ segir Stefán sem virðist harla sáttur með að hafa flutt aftur norður.

Að loknu doktorsnámi var Stefán ráðinn til læknadeildar Háskóla Íslands þar sem hann starfaði í 27 ár. Síðustu sex árin þar var hann forseti læknadeildar. Það var svo árið 2009, í miðju hruni, sem hann var skipaður rektor HA. „Það var ekki auðveldur tími og á þessum tíma fór mikil orka í að standa vörð um háskóla á Akureyri. Ákall var í samfélaginu um sparnað og einn af þeim möguleikum sem stjórnvöld sáu var að sameina eða leggja niður háskóla. Ég man að mikill tími fór í að finna leiðir til að sýna fram á að við værum að taka á málum af ábyrgð án þess þó að það kæmi niður á gæðum náms og rannsókna,“ segir Stefán og bætir við: „Teknar voru erfiðar ákvarðanir, þar á meðal að leggja niður tvær námsleiðir sem dýrar voru í rekstri og að fá starfsfólk saman í að taka á sig tímabundna launalækkun. Allt þetta hafðist með sameiginlegu átaki allra sem að málum háskólans komu á þessum árum og leiddi til þess að árið 2014, þegar ég hætti sem rektor, gat ég gengið sáttur frá borði.“

Leiðin að doktorsnáminu

Þrátt fyrir erfiða tíma var ein af áherslum Stefáns að byggja upp doktorsnám við háskólann. Hann lýsir því að í byrjun hafi verið sótt um heimild til doktorsnáms fyrir ákveðnar deildir skólans. „Ráðuneytið samþykkti þær umsóknir þó ekki því að deildirnar þóttu of litlar og var þá skipt um áherslu sem fólst í því að sækja um heimild til doktorsnáms fyrir háskólann í heild fyrir ákveðin fræðasvið. Það var í raun gert eftir að ég lét af störfum. Á sama tíma var Miðstöð doktorsnáms sett á laggirnar, sem vinnur í samvinnu við deildir skólans sem tiltekin fræðisvið tilheyra. Á þeim tíma var einnig myndað doktorsnámsráð sem hefur yfirumsjón með doktorsnámi við Háskólann á Akureyri.“

Þegar Stefán lét af störfum sem rektor tók hann við prófessorstöðu við hjúkrunarfræðideild sem hann vann við þar til hann varð sjötugur. Þá tók hann stöðu sem prófessor emeritus við skólann. „Það er staða þar sem gerður er samningur frá ári til árs og oft er kveðið á um ákveðin verkefni. Annars geta prófessorar emeritusar sinnt rannsóknum og kennslu sem ég hef gert ásamt ákveðnum verkefnum. Eitt af þeim verkefnum sem samið var um við mig var að taka að mér að vera formaður doktorsnámsráðs,“ útskýrir Stefán um hlutverk sitt innan skólans undanfarin ár.

„Núna í júní lét ég svo af störfum sem formaður doktorsnámsráðs og geng ég sáttur frá borði enda búið að vera ótrúlega gaman og áhugavert að fylgja þessum kafla í sögu skólans eftir,“ segir Stefán hógvær en raunin er sú að hans vinna hefur skipt sköpum í uppbyggingu doktorsnámsins. Þær traustu undirstöður sem hafa verið byggðar leiddu til þess að í upphafi árs hlaut skólinn heimild til að bjóða upp á doktorsnám í menntavísindum og sálfræði. Í dag hefur skólinn því heimild til að bjóða upp á doktorsnám á átta fræðasviðum.

Lífið meira en rannsóknir

Framundan hjá Stefáni eru margvísleg verkefni. „Ég verð áfram prófessor emeritus við HA og mun meðal annars leysa arftaka minn í doktorsnámsráði af í haust þegar fram fer doktorsvörn hér við skólann.“

Verkefnin hjá Stefáni eru þó fleiri og fjölbreyttari og kannski ekki mörg sem vita að hann á talsvert safn af verðlaunagripum fyrir sjóstangaveiði. „Ég byrjaði í sjóstangaveiði fyrir rúmum 30 árum og á í dag þokkalega góðan bát. Það er greinilega eitthvað við sjóinn sem heillar því undanfarin þrjú sumur hef ég farið á strandveiðar og sumarið verður nýtt til þess líka.“

Að því sögðu þökkum við Stefáni öll hans verk við HA en sem betur fer verður hann áfram við störf, allavega næsta árið. Um leið óskum við honum velfarnaðar í öllum þeim verkefnum sem hann tekur sér fyrir hendur.