Doktorsvörn Bergljótar Þrastardóttur

Ver doktorsritgerð við Deild menntunar og margbreytileika við Háskóla Íslands
Doktorsvörn Bergljótar Þrastardóttur

Á morgun, miðvikdaginn 18. október mun Bergljót Þrastardóttir, lektor við Kennaradeild Háskólans á Akureyri, verja doktorsritgerð sína í menntavísindum við Deild menntunar og margbreytileika við Háskóla Íslands. Doktorsritgerðin ber heitið: Making Sense of Gender in Compulsory School Practices in Iceland — Kyngervi í grunnskólastarfi á Íslandi.

Athöfnin hefst klukkan 9:30 í Hátíðarsal Háskóla Íslands og er streymt frá henni hér.

Dr. Berglind Rós Magnúsdóttir forseti Deildar menntunar og margbreytileika stjórnar athöfninni. Aðalleiðbeinandi verkefnisins er dr. Ingólfur Ásgeir Jóhannesson, prófessor við Menntavísindasvið Háskóla Íslands og meðleiðbeinandi er dr. Steinunn Helga Lárusdóttir, prófessor emeritus við Menntavísindasvið Háskóla Íslands. Auk þeirra sátu í doktorsnefnd dr. Sirpa Lappalainen, prófessor við University of Eastern Finland og dr. Jón Ingvar Kjaran, prófessor við Menntavísindasvið Háskóla Íslands.

Um verkefnið

Lög um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna nr. 150/2020 og núgildandi aðalnámskrá grunnskóla á Íslandi leggja ríka áherslu á jafnréttis- og hinseginfræðslu í skólum. Samt sem áður ber lítið á því að þessum skyldum skólanna sé fullnægt á grunnskólastigi og rannsóknir eru fáar á samspili jafnréttis og skólastarfs. Rannsóknin gefur innsýn í það hvernig kyngervi endurspeglast í skólamenningu og starfsháttum í efstu bekkjum í einum grunnskóla.

Etnógrafískum aðferðum var beitt við gagnasöfnun á vettvangi skólans. Þátttökuathugun fór fram í rúmlega þrjá mánuði sem gaf færi á nánu samspili rannsakanda og vettvangs, og skilaði dýpri þekkingu en áður á því hvernig kyngervi er skilgreint og tjáð á grunnskólastigi á Íslandi. Áttatíu og fjórir nemendur, tveir skólastjórnendur og 7 kennarar tóku þátt í hóp- og einstaklingsviðtölum auk þess sem óformleg samtöl við nemendur, kennara og annað starfsfólk fóru fram. Innihaldsmikil vettvangslýsing var skrifuð með ríkulegum gögnum auk annarra gagna sem safnað var til að öðlast innsýn í kynbundnar venjur og orðræðu í skólaumhverfinu.

Helstu niðurstöður benda til þess að skólaumhverfið stuðli að aðgreiningu milli drengja og stúlkna á bæði augljósan og óljósan hátt. Skortur var á viðspyrnu við hina viðvarandi kynjaskiptingu. Þetta endurspeglaðist í sameiginlegum skilningi á kyni og kynbundinni uppröðun og skipulagi í mismunandi skólarýmum sem endurskapa kynjatengsl i anda tvíhyggju. Nemendur sem kröfðust rýmis til að andmæla kynjahandritinu stóðu einir en í viðleitni þeirra fólst viss áhætta sem gat orsakað höfnun eða jaðarsetningu þeirra. Niðurstöður benda enn fremur til þess að skólar verði að bjóða upp á jafnréttisfræðslu í stað þess að takmarka val um kyntjáningu og þar með frelsi nemenda til að tjá alls kyns kyn- og kynhneigðir.

Áhugasöm geta nálgast nánari upplýsingar hér.