Doktorsvörn Sonju Stelly Gústafsdóttur

Ver doktorsritgerð sína í heilbrigðisvísindum við Læknadeild Háskóla Íslands
Doktorsvörn Sonju Stelly Gústafsdóttur

Miðvikudaginn 7. maí mun Sonja Stelly Gústafsdóttir lektor við Iðjuþjálfunarfræðideild verja doktorsritgerð sína í heilbrigðisvísindum við Læknadeild Háskóla Íslands. Vörnin fer fram í Hátíðarsal Háskóla Íslands og hefst kl. 13:00. 

Ritgerðin ber heitið: Heilsulæsi og eldri Íslendingar búsettir í heimahúsi: Þátttökubundin sýn á getu einstaklinga og möguleika í umhverfinu. Health Literacy and Older Community-dwelling Icelanders: A Participatory Perspective on Individual Abilities and Environmental Options.

Andmælendur eru dr. Ilona Kickbusch, prófessor við Graduate Institute of International and Development Studies í Genf, og dr. Harpa Sif Eyjólfsdóttir, nýdoktor við miðstöð í lýðheilsuvísindum, Háskóla Íslands.

Umsjónarkennari og leiðbeinandi var dr. Sólveig Ása Árnadóttir, prófessor við Námsbraut í sjúkraþjálfun við Læknadeild, og meðleiðbeinandi var dr. Árún Kristín Sigurðardóttir, prófessor við Heilbrigðis- viðskipta- og raunvísindasvið Háskólans á Akureyri. Auk þeirra sat í doktorsnefnd dr. Lena I. Mårtensson, dósent við Háskólann í Gautaborg.

Um verkefnið

Heilsulæsi (HL) er talið nauðsynlegt fyrir heilsu og velsæld fólks á öllum aldri. Að vera heilsulæs, það er að taka heilsutengdar ákvarðanir og rata innan heilbrigðis- og velferðarkerfisins, byggir á getu einstaklings og tiltækum upplýsingum og þjónustu. Í Evrópu hefur mikilvægi HL aukist sem sjá má í rannsóknum og stefnumótun ásamt aðgerðum til að mæla HL almennings, þvert á lönd. Á heimsvísu mælist eldra fólk með lægra HL en aðrir aldurshópar fullorðinna einstaklinga, þótt eitthvert ósamræmi sé að finna. Takmarkaðar upplýsingar eru til um HL á Íslandi sem og aðgengileg staðfærð matstæki.

Rannsóknin, Heilsulæsi og eldri Íslendingar búsettir í heimahúsi, varpar ljósi á víxlverkandi samspil einstaklings- og umhverfisþátta sem hafa áhrif á getu eldra fólks til að framkvæma HL-tengd verk í sínu umhverfi. Meginmarkmið rannsóknarinnar, sem er þríþætt, var að rannsaka HL, með áherslu á fólk 65 ára og eldra, sem býr í heimahúsi á strjálbýlum svæðum á Norðurlandi út frá þátttökubundinni sýn á iðjuréttlæti. Undirmarkmiðin fólu í sér að: I) þýða, staðfæra og notkunarprófa stuttu útgáfuna af evrópska spurningalistanum um heilsulæsi (HLS-EU-Q16), ásamt því að setja viðmiðstölur fyrir HL á Íslandi; II) mæla HL eldra fólks á Norðurlandi með því að nota HLS-EU-Q16-IS, bera kennsl á þau svið sem eru krefjandi og rannsaka tengsl stig HL við ýmsa einstaklings-og umhverfisþætti; og III) rannsaka reynslu og þarfir eldra fólks á Norðurlandi sem lúta að því að vera heilsulæs.

Niðurstöður styðja við notagildi HLS-EU-Q16-IS á Íslandi. Fyrstu viðmiðstölur fyrir HL meðal almennings á Íslandi gefa til kynna tiltölulega hátt HL miðað við evrópskar þýðisrannsóknir. Hins vegar mældist eldra fólk á Norðurlandi með takmarkaðra HL en almenningur og samband var á milli HL og ýmissa einstaklings- og umhverfisþátta sem bendir til flókins samspils. Iðjubundið óréttlæti birtist í upplifaðri togstreitu þátttakenda á milli eigin ábyrgðar á heilsu og oft skorts á möguleikum í umhverfinu til að bregðast við. Þetta óréttlæti takmarkar þátttöku eldra fólks í mikilvægri iðju fyrir heilsu og velsæld. Því þarf að huga að valdajafnvægi í öllum aðgerðum tengdum HL og vinna að sameiginlegri ábyrgð á heilsu og inngildingu eldra fólks.