Eftirlitsstofnun EFTA höfðar mál gegn Íslandi

Guðmundur Kristján Óskarsson, dósent við Viðskiptadeild, álitsgjafi hjá Packaging Insights
Eftirlitsstofnun EFTA höfðar mál gegn Íslandi

Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) hefur höfðað mál gegn Íslandi fyrir að uppfylla ekki kröfur EES-samningsins um meðhöndlun úrgangs, einkum varðandi urðun og umbúðaúrgang. Um er að ræða tvær málsmeðferðir sem ESA hóf í apríl vegna brota á tilskipun Evrópusambandsins um úrgang.

Í því samhengi leitaði Packaging Insights til Guðmundar Kristjáns Óskarssonar, dósents við Viðskiptadeild Háskólans á Akureyri, til að fá mat hans á stöðu mála. Guðmundur bendir á að þrátt fyrir að Ísland hafi átt í erfiðleikum með að ná settum markmiðum sé þróun úrgangsmála á réttri leið.

„Það er enginn vafi á því að Ísland hefur átt í vandræðum með að ná markmiðunum – hlutfallið sem fer í urðun hefur verið allt of hátt,“ segir hann, en bætir við að úrgangsstjórnun hér á landi sé vel skipulögð og sambærileg við aðrar Norðurlandaþjóðir.

Guðmundur bendir á að þéttbýlissvæði utan höfuðborgarsvæðisins eigi erfitt með að uppfylla kröfur tilskipunarinnar vegna strjálbýlis, skorts á innviðum og mikils flutningskostnaðar. Hann segir einnig að minni sveitarfélög hafi ekki fjármagn til að fjárfesta í nauðsynlegum úrgangskerfum nema með ríkisstuðningi.

Hann bendir þó á jákvæða þróun undanfarin ár og nefnir að Sorpa hafi náð markmiðum um aðeins 10% urðun með því að flytja úrgang til orkuframleiðslu erlendis. Þá nefnir hann Úrvinnslusjóð sérstaklega sem vel heppnaða aðgerð til að tryggja að úrgangur sé meðhöndlaður með ábyrgum hætti.

„Ísland bjó sig vel undir breytingarnar en nýtti tímann ekki nægilega vel. Núna þegar fresturinn er útrunninn sjáum við loksins aðgerðir,“ segir Guðmundur, sem telur samt að framtíðin í úrgangsmálum Íslands sé björt.

Hér má lesa umfjöllun Packaging Insights.